07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4924 í B-deild Alþingistíðinda. (4187)

366. mál, könnun á hagkvæmni útboða

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 584 hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni, Skúla Alexanderssyni, Karvel Pálmasyni og Steingrími J. Sigfússyni að flytja svohljóðandi tillögu til þingsályktunar:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að gera ítarlega könnun á hagkvæmni útboða og því hvort aðrar leiðir séu ekki heppilegri og æskilegri fyrir byggðarlög og þjóðarheild. Sérstaklega verði athuguð áhrif útboða á byggðaþróun í landinu og samhliða heildarhagkvæmni þeirra verði litið til röskunar á rekstri ýmiss konar þjónustu á landsbyggðinni.

Settar verði nánari og skýrari reglur um útboð á vegum hins opinbera og framkvæmd þeirra á þann veg að smærri verktakar á einstökum svæðum og aðilar heima í héraði hafi sem besta möguleika á því að taka að sér verkefni í nágrenni sínu. Jafnframt verði undirbúnar reglur sem koma í veg fyrir að einstakir aðilar geti einokað verktakastarfsemina.“

Í grg. þessarar till. kemur fram flest það sem áherslur flm. lúta að. Ég tel óþarfa að lengja þingfund með lestri þeirrar grg. Málið er margþætt og við biðjum um alvarlega og öfgalausa skoðun þess í ljósi staðreynda, sem hvarvetna um landsbyggðina blasa við og eru okkur áhyggjuefni, bæði hvað varðar núverandi ástand og ekki síður hvernig framtíðin verður um þá mikilvægu þjónustuþætti sem þetta mál fjallar öðru fremur um.

Sem gott dæmi um áhyggjur heimaaðilanna, sem horft hafa á verkefnin hverfa úr höndum sér og tapað drjúgum hluta síns atvinnuöryggis birtum við sem fskj. samþykkt vörubifreiðastjórafélagsins Snæfells á Austurlandi. Eflaust þykir mönnum, sem þá ályktun lesa, að þar sé djúpt í árinni tekið, að um of sé myndin máluð dökkum litum. En ég efa að svo sé. Ég held einfaldlega að við ýtrustu útfærslu núverandi stefnu geti allt það komið fram sem bifreiðastjórarnir eystra eru að vara við. Ég er blátt áfram hræddur við þessa þróun og held að til heilla verði hún aldrei, allra síst litið til lengri tíma. Hér þarf að gaumgæfa hlutina en ekki alhæfa neitt. Sú könnun sem fram á er farið í till. þarf að fara fram undanbragðalaust svo að heildarmyndin megi koma í ljós og menn geti horft til framtíðarinnar í því ljósi og hagað stefnunni eftir því.

Allir viðurkenna að það hallar á landsbyggðina nú, að grunngreinarnar standa vægast sagt illa, að þjónustuþátturinn dregst nær eingöngu á þetta svæði hér. Þá verður að koma í veg fyrir enn frekari byggðaröskun vegna stefnu stjórnvalda og þings í þjónustuþáttum sem hafa verið gildir í héruðunum hvarvetna um land.

Það er mjög vitnað í áherðingu lagaframkvæmdar með breytingu frá í fyrra, yfirlætislausa og saklausa að sjá, sem ég efa að menn hafi almennt gert sér grein fyrir hvað þýddi í framkvæmd. Ef þess gerist þörf munum við flm. albúnir að beita okkur fyrir breytingum á lögum þar að lútandi svo sem nauðsyn krefur. Að baki liggur stöðug ásókn sterkra aðila, sem vilja einir sitja að verkum, smáum sem stórum, og ekki er mér grunlaust að þeir hugsi sér sumir gott til glóðarinnar í bróðurlegri uppskiptingu síðar meir þegar hinir smærri og vanbúnari hafa undirboðið sig í hel. Og hvað verður þá um samkeppnisaðstöðuna og margrómað frelsi þar? Ég óttast þá þróun og dreg þar ekkert af.

Við erum ekki að leggja til að útboð séu lögð af. Um útboð almennt erum við eflaust ekki allir nákvæmlega á einu máli. Ég býst við að segja megi að við hin stærri verk, sérátök af ýmsu tagi, þá eigi í meginatriðum að huga að útboðum. En gylling útboðsstefnunnar hefur verið mikil og nær alger. Ég vek athygli á því hversu upphaflegu tölurnar eru tíundaðar, þegar útboðin eru opnuð, og bornar saman við ýtrustu kostnaðaráætlanir. En endanlegu tölurnar, rauntölurnar, koma sjaldnast fyrir augu manna og hversu er í raun ástatt innan þess sambands verktaka sem er býsna öflugt. Skyldi það tilviljun að aðalumræðuefni hjá því sambandi nú er staða ýmissa verktaka, einkum hinna smærri, og hættuleg undirboðastefna sem grafi undan heilbrigðum og jákvæðum þáttum í verktakastarfsemi? Í umræður um þetta fór ráðstefna þess sambands og þar voru vissulega sagðar blikur á lofti. Jafnvel þar innanhúss eru komnar upp efasemdir um þessa þróun og þær ekki litlar.

Ég ætla ekki að tíunda ýmislegt af því sem unnt væri að gera varðandi einstök dæmi um það hvernig til hefur tekist um útboð og framkvæmd þeirra, dæmi sem eru af neikvæðasta toga, þar sem aðilar hafa hreinlega gefist upp við verk eða orðið gjaldþrota. Um það mætti vissulega taka dæmi en of viðkvæmt er hér að fara að rekja þau eða tíunda. Má benda á nýlegt dæmi, sem blöðin hafa þó greint frá, um margfalda útboðstölu, þó enginn dómur skuli á það mál lagður í sjálfu sér. En ýmis dæmi af þessu tagi sýna alvöru þessa þáttar málsins.

Hin hliðin er raunar sú sem við leggjum höfuðáherslu á, þ. e. hún er byggðalegs eðlis, aðstaða þeirra þjónustuaðila sem gegna mikilvægu hlutverki í heimahéruðum sínum en eru með allsherjarútboðsstefnu sviptir einhverjum veigamesta þættinum í atvinnugrundvelli sínum, tilveru sinni sem slíkri. Reglur um þetta þurfa til að koma er tryggja eðlilega og sjálfsagða aðild heimamanna að verkefnum í nágrenni sínu, en um leið gætt fullrar hagkvæmni. Fjármagns- og verkefnaflutningur með þeim hætti sem nú er úr heimahéraði frá heimaaðilum og stefnir enn frekar í er ekki viðunandi. Svo einfalt er það. Við slíkum fjármagnsflutningi þarf að sporna með eðlilegum hætti og sanngjörnum, einkum varðandi meðalstór og smærri verk. Við erum ekki að leggja til atlögu við útboðsstefnuna alfarið. Við erum síður en svo að mæla í mót eðlilegri hagkvæmni í framkvæmdum. Við erum ekki, eins og sumir hafa svo smekklega á orði, að mæla með einhverri atvinnubótavinnu til handa bifreiðastjórum og vinnuvélaeigendum til að hagnast óeðlilega á vegna of hárra taxta. Við erum að mæla með eðlilegri könnun á heildarhagkvæmni útboða, m. a. með tilliti til byggðasjónarmiða, með tilliti til eðlilegrar skiptingar verka og eðlilegrar hlutdeildar heimamanna í verkum. Við erum að mæla með verklagsreglu sem tryggi sem allra best og mest þessa eðlilegu hlutdeild heimamanna. Við þekkjum mikilvægi þessara þjónustuaðila sem nú er verið að svipta eðlilegum verkefnum á heimaslóð. Þetta á sér í lagi við Vegagerðina. Ég vitna í grein eins flm., hv. þm. Skúla Alexanderssonar, í DV — grein þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér þarf að fara með gát. Það sem í fljótu bragði sýnist gróði getur, þegar betur er að gáð, haft í för með sér slíkar aukaverkanir að gróðinn bæti ekki upp þann skaða sem aukaverkanirnar valda.

Á síðustu áratugum hefur um land allt orðið sú þróun að einstaklingar og félög hafa aflað sér tækja til að sinna alhliða þjónustu í jarðvinnslu og mannvirkjagerð. Eitt og sama tækið hefur sinnt verkefnum við vegagerð, byggingar, jarðrækt, vatnsveitur, raflínulagnir o. fl. Hjá meginhluta þessara tækja, sérstaklega vörubíla og jarðýtna, hefur þjónusta við Vegagerðina verið aðalatvinnan. Sumarvinna hjá Vegagerðinni hefur tryggt það að vörubílaútgerð hefur verið til staðar í flestum byggðum landsins. Tækjaeigendur hafa tekið það á sig að búa við það að framkvæmdir Vegagerðarinnar hafa verið breytilegar frá ári til árs, tekjumöguleikar því nokkuð mismunandi. Þeir hafa jafnan gegnt kalli, þegar Vegagerðin hefur þurft á að halda, án þess að fárast um hvort um langt eða stutt úthald væri að ræða. Vegagerðin hefur sem sagt um árabil haft stóran hóp þjónustuaðila sem jafnan hefur verið hægt að grípa til þegar þörf hefur verið á. Iðulega hafa aðrir viðskiptamenn þessara tækjaeigenda orðið að láta það gott heita að bíða þess að verkfærin væru laus frá Vegagerðinni til að sinna verkefnum þeirra. Næstum í hverju sveitarfélagi eru svona tæki, eitt eða fleiri. Þar af leiðir að í sveitarfélaginu er fólk sem hefur atvinnu tengda þessari starfsemi.“

Og síðar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á landsbyggðinni verður atvinnulífið einhæfara, atvinnutækifærum fækkar, skattatekjur sveitarfélaga minnka, þjónusta sveitarfélaga og einstaklinga dregst saman. Er ekki þörf á að fara hér varlega?“

Ég tek undir þessa lýsingu á hugsanlegum afleiðingum af þessu. Við flm. óttumst afleiðingar þess ef svo fer fram sem horfir og atvinnutækifærin hverfa af landsbyggðinni af þessum sökum. Ég treysti því á vandlega skoðun þessa máls í nefnd, að hún fái þar eðlilega og jákvæða meðferð, því að hljómgrunn á hún með mörgum svo sem eftirfarandi samþykkt SSA, Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, ber með sér. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á fundi stjórnar sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, sem haldinn var á Egilsstöðum 26. mars s. 1., var eftirfarandi tillaga samþykkt vegna þáltill. sem lögð var nýlega fram í Sþ. um könnun á hagkvæmni útboða og nánari reglur um framkvæmd þeirra:

„Fundurinn fagnar fram kominni þáltill. um þessi mál og skorar á Alþingi að samþykkja hana fyrir þinglok í vor.““

Ég vildi aðeins geta þess svona í framhjáhlaupi að nýlega birtist í Morgunblaðinu grein eftir framkvæmdastjóra Verktakasambandsins, Óttar Örn Petersen, sem átti greinilega að skoðast sem andsvar við þessari þáltill. Ekki er við hæfi að hafa hér uppi andsvör við þessari grein, en orðin afturhald og afturhaldsstefna eru óspart notuð í greininni. Þessi orð eru vinsæl hjá þeim sem heimta „frelsi“ í öllum greinum og blessa það út í bláinn, fjarri öllum rökum, hvað þá mótrökum. Ég kann því illa að okkur flm. sé borin á brýn 19. aldar afturhaldsstefna þó að við viljum fara hér að með gát og verja af skynsemi eðlilega þjónustustarfsemi á landsbyggðinni.

Þessi grein vakti reyndar meiri furðu mína en ella þar sem ég átti ágætan fund með Verktakasambandinu nú nýlega, flutti þar reyndar framsögu og skýrði tillögu okkar. Þrátt fyrir mismunandi skoðanir eðlilega á þessum fundi fannst mér skilningur verktaka á forsendum okkar fyrir tillögugerðinni með besta móti. Þannig á líka að vera um skoðanaskipti, þrátt fyrir deildar meiningar, þrátt fyrir það að þeir eigi þarna mikilla hagsmuna að gæta, mismunandi hagsmuna. Ég ætla því ekki að fara nánar út í það á þessum vettvangi, en vara aðeins enn þá við því að menn renni svo blint í sjóinn með alla framkvæmd þess sem nú horfir í, á þann veg að þjónustuaðilar, sem einstaklingar, sveitarfélög og aðrir aðilar þurfa að leita til úti á landsbyggðinni, gefist hreinlega upp vegna þess að verkefnin séu ekki fyrir hendi, þau séu tekin frá þeim af öðrum.

Ég skal hins vegar taka það skýrt fram eins og ég gerði á þessum fundi með Verktakasambandinu, endurtaka það hér, að hjá okkur flm. er ábyggilega fullur vilji til þess að reyna að skapa heimaaðilum eðlilega hlutdeild í útboðum og styðja þá og styrkja til þess. Það er annar þáttur þessa máls sem líka þarf að huga að varðandi þá tillögugerð sem hér er uppi.

Ég ætla ekki að lengja þennan fund með lengri ræðu um þetta mál. Ég vona að það verði skoðað hleypidómalaust í nefnd, könnunin fari a. m. k. fram og a. m. k. einhverjar lágmarksreglur verði settar varðandi stærð þeirra verka sem boðin eru út, að að heildarhagkvæmninni verði hugað með tilliti til lengri tíma.

Að þessum hluta umr. loknum legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn.