07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4927 í B-deild Alþingistíðinda. (4188)

366. mál, könnun á hagkvæmni útboða

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér um ræðir og ég er meðflm. að er þríþætt. Hún kveður í fyrsta lagi á um að gera ítarlega könnun á hagkvæmni útboða og hvaða áhrif þau hafi á byggðaþróun í landinu, að settar verði nánari og skýrari reglur um útboð á vegum hins opinbera og komið verði í veg fyrir einokun á þessu sviði og reistar skorður við því að verktakastarfsemin færist öll á eina hendi.

Það er alkunna að síðan hert var á reglum um að bjóða út sem flest verkefni í vegagerð hafa deilur mjög magnast úti um landsbyggðina vegna þessa fyrirkomulags. Menn greinir á um það hvort hér sé um frambúðarlausn að ræða og hvaða áhrif þessi skipan hafi til frambúðar.

Það blandast engum hugur um það að þar sem úfboð hafa tekist vel hafa þau leitt til aukinnar hagkvæmni og skilað góðum árangri. Það hefur hins vegar því miður sýnt sig að þetta er örðugleikum bundið og sums staðar hefur tekist illa til. Verktakar hafa fengið verk sem þeir hafa ekki getað skilað, jafnvel farið á höfuðið og skilið eftir sig skuldahala hjá heimamönnum. Þetta hefur magnað deilurnar og verkað eins og olía á eldinn. Það hefur einnig komið fyrir að stórir verktakar hafa fengið verk í fjarlægum landshlutum vegna þess að þeir hafa verið að leita að vinnu fyrir sín tæki. Þeir hafa fengið þessi verk með mjög litlum verðmun og hirt þau fyrir augunum á heimaaðilum sem hafa setið hjá verkefnalausir.

Ég er þeirrar skoðunar að um útboðin verði að setja ákveðnar reglur. Komi þá til greina að bjóða ákveðinn hluta verkefnanna út í lokuðum útboðum í landshlutum, en bjóða þau stærri út á landsvísu, Með breyttum reglum væri komið til móts við þá aðila heima fyrir sem hafa byggt upp starfsemi í heimabyggð og hafa á boðstólum tæki til þjónustu fyrir almenning og Vegagerðina, tæki sem ekki er hægt að vera án í neinu byggðarlagi, eins og hv. 1. flm. þessarar till. vék að í ræðu sinni áðan. Með því að breyta reglum á þessa leið væri tryggt að ákveðinn hluti verkefnanna héldist í viðkomandi byggðarlögum svo að það atvinnulíf sem hingað til hefur byggst á þessum framkvæmdum leggist ekki niður og nauðsynleg þjónusta sem því fylgir.

Hitt er svo annað mál, og ég vil undirstrika það hér, að nauðsynlegt er að heimaaðilar bregðist við nýjum viðhorfum í þessum málum, myndi stærri heildir og standi e. t. v. sameiginlega að tilboðum í ríkara mæli en verið hefur þar sem boðið er út á landsvísu. Ég er þeirrar skoðunar að þetta þurfi ekki endilega að þýða samruna fyrirtækja í þessari grein heldur félagsskap þeirra og t. d. sameiginlega ráðgjafarþjónustu um tilboð í verk. Ég hef ekki trú á því að sá háttur sem nú er á að bjóða verk út, verði lagður af — við flm. þessarar till. erum reyndar ekkert að mæla með því — og farið verði að vinna í tímavinnu á ný. Ég held að verktakar eigi að öllum jafnaði að geta unnið verk á lægra verði en Vegagerðin, einfaldlega vegna þess að það eru ekki gerðar sömu kröfur til þessara aðila. Hins vegar þarf að finna sem bestar reglur um þetta nýja fyrirkomulag, reglur sem stuðla að því að viðhalda þessum þætti í atvinnulífinu í byggðum landsins, en það er mjög drjúgur hluti atvinnulífsins í þéttbýli og sveitum hringinn í kringum landið sem byggist á þessum framkvæmdum.

Ég vil undirstrika það hér að nauðsynlegt er að úttekt sé gerð á því hvernig útboðin hafa komið út þegar til lengri tíma er litið, hvert endanlegt verð verka hefur orðið þegar til eru teknir allir þættir verksins, þ. e. ófyrirséðir þættir sem bætast við upprunalegu útboðsupphæðina. Þannig mætti sjá raunverulegan hagnað þegar til lengri tíma er litið og hversu áreiðanlegar kostnaðaráætlanir Vegagerðarinnar eru sem mælikvarði á gildi útboðanna. Þessar upplýsingar eru afar nauðsynlegar fyrir okkur þm. til að hafa aðgang að.

Ég get ekki á mér setið að minnast á það, sem 1. flm. kom reyndar hér inn á í ræðu sinni áðan, að framkvæmdastjóri Verktakasambands Íslands hefur látið frá sér fara yfirlýsingar á opinberum vettvangi m. a. um þessa till. Ég hlustaði á eina slíka ræðu á aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands þar sem talið var að þessi till. fæli í sér neikvæðan tón gagnvart útboðsleiðinni og væri afturhaldssöm. Ég get ekki samþykkt að svo sé og verð reyndar að bera það til baka mjög sterklega. Hér er eingöngu farið fram á nákvæma úttekt á þessum málum skýrari reglur og að komið verði í veg fyrir einokun í þessum efnum. Ég hef enga fordóma gagnvart útboðum og tel að þau hafi að mörgu leyti leitt af sér gott í vegagerð. Hins vegar hef ég heldur enga skilyrðislausa trú tekið á þetta fyrirkomulag, að þetta megi ekki bæta og miða við aðstæður í okkar þjóðfélagi. Það er vegna þessa sem ég er meðfim. að þeirri þáltill. sem hér um ræðir og ég vona að hún fái þinglega meðferð hér í hv. Alþingi.