07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4929 í B-deild Alþingistíðinda. (4191)

427. mál, fiskeldismál

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Sú þáltill. sem ég mæli hér fyrir er um stefnumótun í fiskeldismálum og um rannsóknir og tilraunir á möguleikum á fiskeldi. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og Stefán Guðmundsson. Greinin sjálf er þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa fimm manna nefnd alþm. til að gera tillögur um stefnumótun í fiskeldismálum. Nefndin skal einnig gera tillögur um hvernig skuli standa að rannsóknum og tilraunum á möguleikum á fiskeldi í landinu. Nefndin skal kynna sér hvernig þær þjóðir, sem lengst eru komnar á þessu sviði, hafa byggt upp þennan atvinnurekstur hjá sér og leita eftir ráðgjöf erlendis frá ef ástæða þykir til.

Nefndin skal leggja höfuðáherslu á að leita svara við því hvort fiskeldi geti orðið að umtalsverðri framleiðslugrein fyrir strjálbýlið í landinu í stað þess samdráttar sem á sér nú stað í hefðbundnum búgreinum. Nefndin skal gera tillögur um fjárveitingar í þessu skyni og hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem unnið er að á hverjum tíma eftir þeim tillögum sem verða samþykktar. Nefndinni ber að gefa Alþingi skriflega skýrslu á ári hverju um það sem verið er að gera á hennar vegum og hvaða lærdóm megi af því draga, svo og um niðurstöður rannsókna og tilrauna þegar þær liggja fyrir.“

Fiskeldi er víða orðið talsverður atvinnuvegur, ekki síst í nágrannalöndum okkar. Norðmenn, Skotar og Færeyingar ráðgera að auka þessa framleiðslu eftir því sem aðstæður frekast leyfa, enda telja þeir að fiskeldi sé mjög álitleg og ábatasöm framleiðslugrein þar sem sæmileg skilyrði eru fyrir hendi. Norðmenn munu vera í fararbroddi á þessu sviði. Hefur norska þingið lagt fram mikla fjármuni til margvíslegra rannsókna og tilrauna í þessari atvinnugrein. Árangurinn af þessu starfi hefur ekki látið á sér standa. Um síðustu áramót voru fiskeldisstöðvar orðnar um 500 að tölu — voru byggðar á síðasta ári fast að 100 — og veittu á s. l. ári á þriðja þúsund manns atvinnu. Í ár er stefnt að því að framleiðslan fari a. m. k. í 40 þús. tonn og á næsta ári í 55 þús. tonn. Árið 1983 var þessi framleiðsla 22 400 tonn og aðeins 500 tonn árið 1970. Þessar tölur sýna hvernig þessi framleiðsla hefur þróast þar í landi.

Bæði í norskum og sænskum skýrslum um fiskeldi í vötnum og á sjávarsvæðum er bent á hinar mörgu hliðstæður þessarar atvinnugreinar við landbúnað og við lestur á opinberum hagskýrslum Noregs 1982 má draga þá ályktun að hægt sé að byggja þennan atvinnuveg upp á borð við landbúnaðinn með kerfisbundinni aðstoð, t. d. aukinni menntun, leiðbeiningum, þróun, rannsóknum og eftirliti. Landbúnaður í Noregi veitir nú um 150 þús. manns atvinnu en stefnt er að því að 100 þús. ársverk verði í hafbúskap í Noregi árið 2000.

Annað stefnumál, sem fylgir þessu sjálfkrafa, er varanleg búseta og full atvinna við strendur Noregs um ófyrirsjáanlega framtíð. Þessar stöðvar eru ekki allar á takmörkuðu svæði sunnarlega í Noregi, þó að verulegur hluti þeirra sé þar, því að nokkrar stöðvar eru t. d. einnig í nyrstu héruðum landsins langt norðan við heimskautsbaug. Það er kannske ótrúlegt, en í Finnmörk, nyrst í Noregi, eru klakstöðvar sem eru hitaðar upp með rafmagni og þar eru eldisstöðvar í sjó. Þetta er ótrúlegt en þetta eru staðreyndir sem vert er að huga að.

Norðmenn halda uppi markvissri byggðastefnu sem frjálslyndir stjórnmálaflokkar standa vörð um. Eitt af stefnumálum þeirra er og hefur verið að nýjum fiskeldisstöðvum verði komið upp þar sem þær verði til þess að styrkja strjálbýlið. Þeir hafa sett skorður við það að fjársterkir aðilar frá öðrum héruðum geti komist í slíkan rekstur nema að mjög takmörkuðu leyti og þá helst þar sem fjármagn heima fyrir fæst ekki. En þar í landi, eins og hér, veður frjálshyggjan uppi, sú stefna að fjármagnið eigi að deila og drottna, að það eigi að ríkja óheft frelsi, eins og það er kallað. Margt bendir til þess að frjálshyggjumenn reyni að knýja fram breytingar á þeirri löggjöf sem nú er en ekki er trúlegt að sú tilraun verði gerð fyrr en eftir kosningar sem verða í haust. Kunnugir telja að fólk í litlum og fátækari héruðum muni snúast til varnar, veita þeim flokkum brautargengi sem standa vörð um hagsmuni þessara byggða. Er því talið líklegast að enga breytingu verði hægt að knýja fram á löggjöfinni að þessu leyti.

Til að reisa nýja eldisstöð í Noregi þarf leyfi stjórnvalda og í norskum lögum er ákvæði um stærðarmörk. Stærst má byggja 5000 m3 stöð á fyrsta ári en eftir þrjú ár má bæta við 3000 m3 stöð þannig að þær mega vera stærstar 8000 m3. Í 5000 m3 stöð er talið að sé hægt að framleiða, ef vel tekst til, um 75 tonn af fiski á ári.

Margt bendir til þess að þessi stefna Norðmanna hafi leitt til þess að fjársterkir aðilar þar í landi hafa mikinn áhuga á að komast inn í þennan atvinnurekstur hér þar sem engin stefna hefur enn verið mótuð í þessum málum. Líklegt er að miklir möguleikar séu hér fyrir slíkan atvinnurekstur ef rétt er staðið að málum. Sú litla starfsemi, sem hér er hafin, bendir ótvírætt til þess t. d. í Lónum í Kelduhverfi, en ég hef fylgst með þeirri starfsemi mjög náið.

En hver er hlutur opinberra aðila í mótun stefnu á þessu sviði og rannsóknum á því hvaða möguleikar eru fyrir hendi í þessari framleiðslugrein sem miklar líkur eru á að muni skila meiri arði en nokkur önnur framleiðsla sem við höfum komið auga á til þessa? Flm. telja að lítið verði nú um svör. Um þetta hefur mikið verið talað en minna gert. En við verðum að móta stefnu í þessum málum og svara ýmsum brennandi spurningum ef ekki á illa að fara. Eigum við að feta í fótspor Norðmanna og láta rannsaka og gera tilraunir með hvort þessi framleiðslustarfsemi sé möguleg fyrir strjálbýlið í landinu til að viðhalda byggð þar sem hefðbundinni framleiðslu í landinu er nú mjög þröngur stakkur skorinn og fullvíst má telja, komi þar ekki til ný atvinnustarfsemi, að jafnvel heilar byggðir fari í eyði? Geta þm. ekki sameinast um það að strjálbýlið sitji fyrir öðrum um þessa framleiðslu þar sem rannsóknir sýna að það er mögulegt og arðvænlegt? Er ekki rétt að setja stærðarmörk á þessar stöðvar eins og t. d. Norðmenn gera? Eigum við að hleypa inn í landið óheftu erlendu fjármagni í þessa framleiðslu? Sé það gert, er þá ekki hætta á að slíkt muni þrengja kost landsmanna á þessu sviði þegar fram í sækir? Er ekki líklegt að fjársterkir erlendir aðilar muni reyna að setja sig niður þar sem álitlegast er og þannig fleyta rjómann ofan af þessum möguleikum af þessari framleiðslu? Á það að vera stefna okkar í þessum málum?

Þessi þáltill. er flutt til þess að vekja athygli á hvernig staðið er hér að þessum málum og gera tilraun til þess að fá fram úrbætur þar sem flest bendir til þess að við séum að missa þessi mál út úr höndum okkar. Flm. telja að þetta mál sé það mikilvægt að bregða þurfi skjótt við og marka stefnu í þessum málum og hefja nú þegar markvissar rannsóknir.

Þó að þáltill. skýri sig sjálf er rétt að fram komi hvers vegna lagt er til að í nefndina verði skipaðir alþm. en ekki sérfræðingar á þessu sviði eða embættismenn. Eins og fram kemur í grg. hér að framan telja flm. að mál þetta sé afar brýnt og nú þegar verði að hefjast handa, gera tillögur um stefnumótun og hefja rannsóknir og tilraunir á þessu sviði. Tillögur að stefnumótun eiga að vera á vegum Alþingis, gerðar af alþm. Sérfræðingar okkar á þessu sviði eiga að gera rannsóknir og tilraunir en nefnd þm. á að leggja fram tillögur fyrir ríkisstj. og Alþingi svo og um það hvar eigi að hefja þessar rannsóknir og í hvaða röð þær verði gerðar með atvinnu- og byggðasjónarmið að leiðarljósi. Flm. telja rétt að þessi nefnd hafi eftirlit með því hvernig að rannsóknum og tilraunum er staðið eftir því sem við verður komið. Meiri trygging fæst fyrir því að eitthvað gerist nú í þessum málum ef nefnd þm. ber ábyrgð á þeim heldur en nefnd sem skipuð er af öðrum aðilum. Þm. hafa að jafnaði betri aðgang að kerfinu, þekkja betur en aðrir hvernig best er að koma málum þar fram. Þeir eru í betra sambandi við ríkisstj. og þeir verða að svara fyrir sig á Alþingi ef eitthvað bregður út af með þau störf sem þeir eru settir til að sinna.

Athafnaleysi og vangaveltur í þessu mikilvæga máli verður nú að linna. Nú verðum við að móta stefnuna og hefjast handa án allra undanbragða, ekki síst vegna þess að allt bendir til þess að það séu í undirbúningi stórar stöðvar sem ég held að sé ekki æskilegt frá neinu sjónarmiði, ekki síst t. d. vegna þess að í Noregi eru . komnir upp ýmsir sjúkdómar í þessum eldisstöðvum sem hafa gert þeim lífið leitt. Þar hefur verið gengið það langt með lyfjanotkun að það lítur út fyrir að Bandaríkjamenn muni loka fyrir markaðinn ef lyfjanotkun verður framvegis í jafnríkum mæli og verið hefur að undanförnu. Þetta kom fram í útvarpsfréttum í Noregi nú 19. apríl s. l.

Það væri margt hægt að ræða um þetta mál og það væri þess vert að gera því enn þá betri skil en ég hef gert í máli mínu. Það er t. d. athyglisvert hvernig Norðmönnum hefur tekist að kynbæta laxinn þannig að vaxtarhraðinn hefur vaxið undanfarin ár í þessum stofni þeirra um 4% á ári. Ef kynbætur leiða áfram til svipaðs vaxtarhraða og verið hefur nú þrjú undanfarin ár segja Norðmenn að hann muni vaxa helmingi hraðar en hann gerði áður en þessar kynbætur voru gerðar um næstu aldamót. Það er ekkert annað. Nú er ég ekki að segja að það rætist en þetta er það sem Norðmenn tala um í dag.

Það er á mörgum fleiri sviðum sem Norðmenn eru að gera tilraunir og eru komnir með eldi á fiski. Þeir gera t. d. alveg ráð fyrir því að eldi á þorski verði orðið umtalsvert um næstu aldamót, bæði í fjörðum og eldisstöðvum. Þeir eru komnir með lúðu og sandhverfu í eldi og sandhverfan t. d. er seld á svipuðu verði og laxinn. Ég veit ekki um lúðuna en mér þykir líklegt að það sé líkt. Þeir eru með eldi á ýmsum skelfiski, á kræklingi, ostrum og fleiri slíkum dýrum, krabbafiski, humar og ferskvatnshumar og svo mætti lengi telja. Þeir eru líka með tilraunir með þörunga og leggja mikið fram nú til að ná tökum á sjúkdómum.

Það var verið að ræða hér áðan um atvinnumál á Norðurlandi og auðvitað þurfum við að marka stefnu í atvinnumálum. Við þurfum að draga lærdóma af því sem er að gerast hjá öðrum þjóðum. Gera menn sér t. d. grein fyrir því að helmingur af rennandi vatni og vötnum í Noregi eru orðin það menguð að það verður að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hreinsa vatnið svo að hægt sé að ala upp seiðin í því vatni? Vita menn að það er talið af þeirri ástæðu sem besta laxveiðiá Noregs er orðin dauð? Hafa menn athugað það að í fyrra var okkur sagt að þriðjungur þýsku skóganna væri orðinn sjúkur af mengun? Í ár er okkur sagt að það sé helmingurinn. Hver er þessi þróun? Hafa menn gert sér grein fyrir því að talið er að ein skýringin á því að við getum haldið uppi því verði, sem við fáum fyrir freðfiskinn okkar á Bandaríkjamarkaði, sé það að menn vita að við erum með hreint vatn, hreint land og sjórinn er ekki mengaður hér í kringum landið? Sem sagt, auðlegð okkar er einnig í því og ekki síður í því en öðru að við höfum hreint land. Þessu ættu stóriðjupostularnir að velta fyrir sér.

Ef við tökum þá stefnu í okkar atvinnumálum að rækta fisk í stórum stíl — því að möguleikarnir eru fyrir hendi, ekki síður í Norðurl. e. en annars staðar — þá er ég alveg sannfærður um það að það veltur á miklu að okkur takist að telja fólki trú um erlendis að það sé hreint vatn, ómengað vatn og ómengað land.

Menn hafa kannske veitt því athygli að sagt var fyrir nokkuð mörgum árum að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson vildi láta byggja álverksmiðju í hverjum firði. Auðvitað var það skreytni — (Gripið fram í: 20, sögðu þeir.) Já, eða 20. Hann er hættur að minnast á stóriðju. Hv. þm. Eyjólfur Konráð gerir sér ljóst hvaða auðlegð býr í þeim möguleikum sem við höfum. Við eigum að snúa okkur fyrst og fremst að matvælaframleiðslu og passa okkur á því að taka þá stefnu að byggja stóriðju í okkar landi. Hafa menn veitt því athygli t. d. að Danir eru að hverfa frá því að byggja stór fyrirtæki? Þeir vilja byggja meðalstór fyrirtæki og frekar lítil en ekki þessi stóru fyrirtæki og þó er allt önnur aðstaða hvað mannfjölda snertir í því landi en í okkar fámenna og strjálbýla landi.

Ég held að ef hv. þm. skildu bara sinn vitjunartíma í þessum málum mundi vera hægt að bægja frá atvinnuleysi og bæta lífskjör í okkar landi, ef yrði farið eftir þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og ég hef lýst.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að hafa orð mín fleiri þó að í sjálfu sér þurfi að ræða um atvinnustefnuna miklu betur en ég hef gert í mínu máli. Bæði er það að það er liðið á kvöld og það eru fáir hér í þingsalnum. Ég mun því ekki ræða þetta frekar.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til síðari umr. og atvmn.