07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4933 í B-deild Alþingistíðinda. (4192)

427. mál, fiskeldismál

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mér er ánægja að lýsa yfir stuðningi við þá meginhugsun hv. síðasta ræðumanns að Alþingi þurfi að láta þessi fiskiræktarmál meira til sín taka og ekki sýna sama sinnuleysið í þessum efnum í framtíðinni eins og við verðum að játa að verið hefur að undanförnu. Ég er ekkert tiltakanlega hrifinn af því, eins og menn kannske vita, að alþm. séu í nefndum óskyldum löggjafarstarfi en ég held að í þessu tilfelli sé ekkert óeðlilegt að alþm. myndu skipa nefnd sem þá sem hv. þm. Stefán Valgeirsson og meðflm. hans leggja til að sett verði á laggirnar.

Auðvitað er ég ekki sammála hverju einasta orði sem hv. þm. hér mælti. T. d. nenni ég varla að vera að tala um frjálshyggju í sambandi við svona stórmál eins og fiskiræktin er. Það er miklu miklu merkilegra mál en deilur um frjálshyggju eða ekki. Frjálshyggja er raunar nýyrði í þeirri merkingu sem menn nú nota það. Ég tel mig fyrst og fremst frjálslyndan mann og nenni ekki að eyða tíma þingsins í umr. um það. En mig langar sérstaklega til að fá að þakka þm. fyrir þann eldmóð sem kemur fram í ræðum hans hvenær sem hann minnist á þetta langstærsta framfaramál Íslendinga í dag. Það leynir sér ekki að hann veit hvað hann er að tala um þegar hann ræðir um þróunina í nálægum löndum og stöðnunina hjá okkur. Því miður er hér enn þá nánast stöðnun miðað við það sem er að gerast í nálægum löndum. Málflutningur hans ber vott um mikla þekkingu á þessum málum og að hann hefur kynnt sér þau út í hörgul.

Ég held að við þurfum ekkert að deila um það hvort við eigum að vera með stór fyrirtæki eða smá vegna þess að í mínum huga liggur í augum uppi að við verðum með hvort tveggja. Ég held að við eigum ekki heldur að deila um það hvort útlendingar megi hafa meirihlutaaðild í íslenskum fiskiræktarfyrirtækjum. Það tel ég fráleitt. Ég tel að Íslendingar eigi að hafa meirihlutaaðild og æðstu stjórn allra fiskiræktarfélaga hér á landi, ekki komi til greina að útlendingum verði heimiluð nein meirihlutaaðild. Ég tel hins vegar — og leyfi mér að nefna það úr því að hv. ræðumaður gerði það — að rétt hafi verið að málum staðið í Lónum í Kelduhverfi þegar samið var við Norðmenn, það norska fyrirtæki sem býr yfir mestri þekkingu og var frumkvöðull í Noregi í laxarækt, um eignaraðild, minnihlutaaðild að fyrirtækinu gegn því að við fengjum alla þeirra tækniþekkingu og aðstoð allra þeirra helstu sérfræðinga. Það hefur borið þann árangur að nú er tilraunaskeiði lokið með fullum árangri og ákveðið að efla reksturinn stig af stigi. Jafnframt hefur verið ákveðið að bændur byrji að eignast hlut í félaginu og auðvitað endar það með því að Íslendingar verða einkaeigendur að slíkum fyrirtækjum. En ég sé ekkert afhugavert við það að hafa samstarf við erlenda aðila á bernskuskeiði.

Í Kelduhverfinu hefur það raunar gerst að mikil bjartsýni hefur vaknað meðal fólksins. Ég held að allir gleðjist yfir því hve vel hefur til tekist. Tækniþekkingin er komin inn í landið og hún verður auðvitað hagnýtt víðar en þar. Ég fel að sæmilega stór fyrirtæki, eins og ég vona að fyrirtækið í Kelduhverfinu verði, muni styrkja hinar dreifðu byggðir, ekki bara eina sveit heldur líka nærliggjandi sveitir og tryggja að búseta verði einmitt í sveitunum, því að mjög vel er hægt að hafa hófleg bú en stunda jöfnum höndum einhverja atvinnu í slíkum stöðvum. Tekjur sveitarfélaganna verða miklar ef reksturinn gengur vel og fyrirtækin skila arði og velta verður mikil svo sem allt bendir til þar og víða annars staðar.

Það er rétt að einmitt þessa dagana er verið að reyna að koma saman samtökum um það að fullrannsaka hvort arðvænlegt gæti verið að koma á fót á Reykjanesi mjög stórri fiskiræktarstöð. Hún yrði að sjálfsögðu að meiri hluta í eigu Íslendinga, kannske algerlega í eigu Íslendinga. Það liggur ekkert fyrir um það að hinir norsku samstarfsaðilar muni verða þar hluthafar yfirleitt. En þeim hefur verið boðin einhver aðild og hafa raunar til þess leyfi frá dómsmrn. að eiga meira en 20%, sem rn. getur heimilað, en þó aldrei meira en 45%. Ég veit ekkert hvort Norðmenn verða aðilar að þessu fyrirtæki en íslenskir aðilar munu láta fullrannsaka þetta mál og kosta til þess allmiklu fé. Vonandi verður það ljóst á þessu ári hvort arðvænlegt verður talið að ráðast í þetta fyrirtæki eða ekki.

Ef glæstustu vonir rætast mundi kannske verða þarna um 5000 tonna stöð að ræða. Ef vel tækist til mundi þetta fyrirtæki skapa gífurlega atvinnu á Suðurnesjum og líka mjög miklar tekjur. Það væri nefnilega hægt að slátra fiski í þessari stöð á hverjum þeim degi eða hverri þeirri viku þegar verkefnaleysi væri í fiskvinnslustöðvum, reykja þennan fisk. Það mætti meira að segja frysta hann ef á að reykja hann eða grafa. Það skaðar fiskinn ekki ef hann er verkaður frekar að frysta hann á undan þó að hann sé dýrari ófrystur. Ef hans er neytt á hinum almenna markaði án þess að verka hann er auðvitað betra að hann sé ófrystur. En það mundi skapa gífurlega mikla atvinnu að reykja eða grafa fiskinn því að verð á þessari afurð er u. þ. b. 10 sinnum hærra en á þorski. Sjá þá allir að það mætti pakka vöruna í lúxuspakkningar og komast á dýrasta markaðinn og skiptir litlu máli hverju kostað væri til að ganga þannig frá fiskinum að hann seldist á hæsta verði.

Ég get gjarnan upplýst það hér að verð í Bandaríkjunum núna er líklega 20–30% hærra en það var í fyrra. Það hefur aldrei verið nándar nærri eins hátt. Það er ekki seldur uggi á Bandaríkjamarkaði fyrir minna en 60 kr. norskar, þ. e. hátt á þriðja hundrað kr. og allt upp í 70–80 kr., núna þessar vikurnar. Slík er eftirspurnin og svo lítið er framboðið. Framboð á Atlantshafslaxi er nefnilega ekki nema um 37 þús. tonn og Norðmenn selja það hér um bil allt, eins og hv. þm.

Stefán Valgeirsson gat hér um. Færeyingar eru að vísu komnir langt á undan okkur. Við flytjum út um 100 tonn á ári núna úr þessari tilraunastöð í Lónunum aðallega meðan Færeyingar gera ráð fyrir að flytja út 3000 tonn og byrjuðu þeir þó ekki fyrr en fyrir 4–5 árum af alvöru að hugsa um laxarækt.

Það er enginn vafi á því að við getum mjög auðveldlega tvöfaldað gjaldeyristekjur okkar á u. þ. b. einum áratug, kannske á skemmri tíma, ef við snúum okkur að þessu verkefni. Og það eru hreinar gjaldeyristekjur. Það er nánast engin króna sem fer til rekstrar slíkrar stöðvar önnur en íslensk króna, þ. e. fóðrið framleiðum við sjálfir með íslensku vinnuafli. Þar er engin olía. Það þarf kannske að kaupa einhver vítamín í fóðrið, það er allt og sumt. Þetta eru hreinar gjaldeyristekjur.

En eitt er eftir og það er hafbeitin. Ef hún tekst vel segja hinir fróðustu menn að kannske væri nægileg 45% endurheimta ef seiði væru framleidd við hagstæðustu skilyrði og í mjög stórum stíl. Það er verið að athuga, t. d. í Lónunum, þann möguleika að byggja stöð sem mundi framleiða 5 millj. gönguseiða. Ef 5% endurheimta yrði er það hvorki meira né minna en 1000 tonn á ári, þ. e. fimm sinnum meira en allur sá lax sem fiskast úr öllum ám á Íslandi í dag, eitthvað á því bili. Slíkar stöðvar gætu verið nánast hvar sem er á landinu. En seiði yrðu aftur á móti alin þar sem hita er að fá. Þar mætti nota hverja volgru, 12 gráðu heita og þaðan af heitari. Ég held að hagstæðasta stærðin gæti verið einmitt það sem einn bóndi eða tveir ráða við og þar yrði kannske sjúkdómahætta minni. En í stóru stöðvunum, þar sem sjó yrði dælt á land og hann hitaður eins og talað er um á Reykjanesi, væri hugsanlegt að hafa nánara eftirlit með nánast hverjum fiski en hægt er í kvíunum í Noregi. Sjúkdómahættan yrði því þar kannske minni en í sjónum.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að Norðmenn eiga í miklum vandræðum. Þeir eiga í tvenns lags vandræðum, annars vegar getur sjávarhitinn farið niður undir núll gráður og þá hættir auðvitað fiskurinn að éta og skapast margháttuð vandræði og svo getur hann farið kannske upp í 20 gráður og þá eykst hvers kyns bakteríugróður. Þörungar hafa komið í slíkum flekkjum inn í búrin hjá þeim að þeir hafa drepið allt og óþrifin verða miklu meiri. En í stöð sem þessari, þar sem sjó er dælt á land í stórar tjarnir, er hægt að gæta fyllsta þrifnaðar í einu og öllu. Þetta er slíkt ævintýri, ef þetta tekst, að annað eins höfum við ekki upplifað í íslenskri atvinnusögu, jafnvel ekki byltinguna við togaraöldina svokölluðu. Ég held að þetta ævintýri sé miklu stórkostlegra.

Það er líka alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að ég hef í allmörg ár ekki verið að berjast sérstaklega fyrir stóriðju. Það eru allir aðrir að berjast fyrir henni. Það var gaman að berjast fyrir því að koma af stað Búrfellsvirkjun og einhverri nýjung í atvinnumálum á sínum tíma. Þar með er ekkert sagt að ég vilji afneita allri stóriðju, en auðvitað kemur hún ekki til greina ef um mengun er að ræða. Það er alveg ljóst mál að þar sem er mengun sem gæti spillt fyrir fiskirækt væri hún fásinna.

En það sem er kannske aðalatriðið, fiskirækt getur skilað okkur arði skjótt. Fjórum, fimm árum eftir að tekin er ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir er viðkomandi stöð kannske farin að skila arði og honum ríkulegum. En fjórum, fimm árum eftir að tekin er ákvörðun um stórvirkjun og stóriðju er rétt verið að byrja framkvæmdir. Síðan skilar ekki stóriðjan og stórvirkjanirnar verulegum arði fyrr en langt er komið á afskriftartímann, kannske eftir 20 ár eða eitthvað slíkt. Þá malar þetta auðvitað gull líka, við skulum ekkert vanmeta það. Ef Einar Benediktsson t. d. hefði á öðrum áratug aldarinnar eða þriðja getað komið einhverjum af sínum stóru áformum í framkvæmd, t. d. stórvirkjunum á Þjórsársvæði eða annars staðar og einhverri stóriðju, þá væri íslenska þjóðin miklu ríkari. Ég vil því ekki afneita stóriðju. Þó að ég trúi á fiskiræktina sem aðalatriðið er ekki þar með sagt að við eig um ekki að reyna annað með og auðvitað líka smáfyrirtæki, það segir sig sjálft.

Ég ætlaði ekki að halda hér langa ræðu. Ég ætlaði aðeins að þakka þm. fyrir þann brennandi áhuga sem hann sýnir þessum málum og taka undir þá hugmynd að Alþingi sinni þeim meira en gert hefur verið og að við leitumst við að standa sem mest saman um að hraða þessum framkvæmdum sem mest má verða. Einhvers staðar verða mistök en annars staðar tekst þetta. Nú eru lífsskilyrði í sjónum allt önnur og betri en þau hafa verið á undanförnum árum og flestir fiskiræktarmenn — kannske allir — búast við miklu betri endurheimtum í sumar og þá væntanlega næsta sumar en á umliðnum árum, köldu árunum. Ef svo fer þá getur ekki öðruvísi farið en ævintýrið rætist, jafnvel þótt stjórnvöld gerðu ekki neitt. Við sameinum fólk þá í almenningshlutafélög um að takast á við stærri verkefni og látum fáa menn um að hrinda í framkvæmd hinum smærri.