08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4962 í B-deild Alþingistíðinda. (4199)

146. mál, sjómannalög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls vakti ég athygli á málefnum þeirra kvenna er ráða sig skipverja á skip, sjókvenna eins og þær voru nefndar hér áður fyrr, og gerði grein fyrir því að ég teldi æskilegt að ef kona, sem er skipverji, verður vanfær þá leitist lögin við að tryggja rétt hennar og hagsmuni meðan á þungun stendur í hvívetna. Ég nefndi þar dæmi um svipað réttindamál hvað varðar lögreglukonur og lýsti þeirri skoðun minni að æskilegt væri að tryggja bæði atvinnuöryggi konunnar svo og launakjör hennar. Ég hef nú á þskj. 866 borið fram brtt. við 17. gr. og er sú brtt. af minni hálfu nokkurs konar bil beggja ef svo má segja. Í þeirri till. hef ég fallið frá því sem ég orðaði hér við 2. umr. í þá veru að tryggja bæri að konan héldi kaupkjörum sínum eða að þau skertust ekki við þessar aðstæður væri hún færð til í starfi. Ég fellst hins vegar á það sjónarmið að þar sé sennilega um of stóra breytingu að ræða með jafnlitlum fyrirvara og hér er hafður á þessu og eins má færa rök fyrir því að slíkt sé samningsatriði í kjarasamningum. Þess vegna hef ég flutt brtt. á þskj. 866 eins og hún stendur þar, en þar er lagt til að við 17. gr. bætist svohljóðandi málsgrein, með leyfi forseta:

„Ef kona fær lausn úr skipsrúmi eftir ákvæði 1. málsgr. skal útgerðarmaður, sé þess kostur, veita henni annars konar starf á sínum vegum, æski konan þess.“

Með þessu er ég að leitast við að tryggja lágmarksatvinnuöryggi þungaðrar konu sem hefur starfað sem skipverji.

Ég vil taka það fram hér að með þessu er ekkert tryggt vegna þess að útgerðaraðilar hafa oft og tíðum ekki upp á önnur atvinnutækifæri að bjóða, sé t. d. um mjög litla útgerðaraðila að ræða. Þess vegna er í brtt. skotið inn í sérstaklega „sé þess kostur“ með það í huga. En í lögunum sjálfum kemur þá fram sá vilji Alþingis að lágmarksatvinnuöryggi sjókvenna verði tryggt svo framast sem unnt er á þeim tíma sem þær eru barnshafandi.

Eins og hv. þm. vita er hér um einkar viðkvæmt tímabil í lífi viðkomandi einstaklinga, konunnar og barnsins, að ræða og það er mjög áríðandi að við gerum allt sem við getum til að tryggja að hagur bæði konu og barns sé sem bestur á þessum tíma. Það er það sem lagt er til með þessari litlu brtt.