31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Þegar frá var horfið hér á dögunum þegar þetta mál var fyrst rætt hér í Ed. höfðu farið fram nokkuð almennar umr. um málið. Það eru nokkur atriði sem snerta það sem mig langar til að drepa á.

Fyrst vil ég segja það sem mína skoðun, bæði sem einstaklings og sem lögfræðings, að ég álít að þessar útvarpsstöðvar, sem kallaðar voru frjálsar útvarpsstöðvar og voru starfræktar á meðan á verkfallinu stóð, hafi verið ólöglegar. Ég er þeirrar skoðunar. Hins vegar tek ég það skýrt fram að þó að ég hafi þá skoðun, þá eru það auðvitað dómstólarnir sem fella dóm um það í réttarríki og eiga að fella dóm um fleira.

Það hefur verið sagt að til greina gæti komið að segja að rekstur þessara stöðva hafi verið réttmætur vegna þess að það hafi verið til staðar neyðarréttur. Ég álít að það sé mjög langsótt skýring, það er mín skoðun. Neyðarréttur fyrirfinnst í öllum réttarríkjum, t.d. stjórnskipulegur neyðarréttur. Það er nú heldur sjaldan sem hann er nýttur. Þó hefur það komið fyrir, t.d. hér á landi. Það kom fyrir 1941 þegar Alþingi ákvað að fresta kosningum til Alþingis. Ég held að það hafi verið 1941. Þá var það rökstutt þannig, að það væri stjórnskipulegur neyðarréttur til staðar vegna styrjaldarinnar. Sama var að segja í Noregi þegar Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg. Þá þurfti að grípa til stjórnskipulegs neyðarréttar þar til þess að stjórnin gæti haldið áfram störfum sínum.

Í sambandi við refsiréttinn er þetta miklu skýrara, t.d. refsirétt og sjórétt. Þá er neyðarréttur réttur til þess að fórna minni hagsmunum fyrir meiri hagsmuni. Þetta er sérstaklega glöggt dæmi í sjóréttinum þegar skip er að sökkva og menn kasta útbyrðis vörum til þess að bjarga því sem eftir er af farminum. En í þessu tilviki held ég að það hljóti að verða nokkuð langsótt að ætla að rökstyðja það að til staðar hafi verið neyðarréttur í sambandi við rekstur þessara útvarpsstöðva.

Ég skal viðurkenna það, það gera sjálfsagt flestir, að þegar útvarpi og sjónvarpi er skyndilega lokað án skýringa fyrir sennilega langflesta, því að ég geri ráð fyrir því að það hafi ekki allir verið að hlusta á útvarpið þegar það hætti störfum áður en verkfall hófst, þá skapast talsvert sérkennilegt ástand í þjóðfélaginu, það er rétt, vegna þess að fjölmiðlarnir, ekki síst útvarpið, eru svo snar þáttur í mannlífinu. Ég skal ekkert fullyrða um hvort hægt er að heimfæra þetta undir neyðarrétt. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta hafi ekki verið lögleg starfsemi. En dómstólarnir dæma auðvitað um það og eiga að dæma um það.

Ég var spurður að því af blaðamanni frá BSRB-tíðindum meðan þetta var að ske hvaða augum ég liti á frjálsa útvarpið. Ég sagði honum að ég vildi nú ekkert tjá mig um lögmætið, en strax daginn eftir stóð í BSRB-tíðindum að ég væri meðmæltur ólögmætum útvarpsstöðvum. Ég vil gjarnan leiðrétta það hérna.

Þetta var kallað frjálst og óháð útvarp. Það er eins og Dagblaðið sem kallar sig frjálst og óháð dagblað í tíma og ótíma. Dagblað sem leggur heilan stjórnmálaflokk nokkurn veginn í einelti, þ.e. Framsfl., er varla frjálst og óháð-dagblað þar sem einn af ritstjórunum er þm. Sjálfstfl. þó hann komi hér inn á þing og segist vera frjáls og óháður. Þetta er náttúrlega öllum ljóst að er tóm endileysa og stenst ekki. Dagblaðið er ekki frjálst og óháð dagblað. Það er málgagn Sjálfstfl. fyrst og seinast. — Ég ætla ekki að segja meira vegna þess að hv. þm. Ellert B. Schram er kominn hér í salinn, en hefur ekki málfrelsi hér og við náum ekki saman nema í Sþ. því er líklega best að hafa ekki lengri umr. um þetta hér. Nú er ég ekkert að deila á hv. þm., það er ekki það, en ég er að deila á blaðið og hvernig það heldur því fram að það sé frjálst og óháð. En það er aldrei sanngjarnt að deila á þá sem ekki hafa tækifæri til þess að verja sig á sama stað og tíma.

Það væri hægt að flytja langt erindi, og verður eflaust gert, og langt mál um verkfallið og framkvæmd þess. Ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég held að menn þurfi að kólna svolítið til þess að tala um þessi mál af skynsemi. En ég er þeirrar skoðunar að þegar svo er ástatt orðið í einu landi að menn taka dómsvaldið í sínar hendur, brjóta lög og krefjast þess að verða ekki ákærðir fyrir það og þurfa ekki að þola rannsókn og meðferð skv. stjórnskipunarlögum og lögum landsins, þá sé virkilega viss hætta á ferðum. Það er náttúrlega engin spurning um að það voru brotin lög í þessu verkfalli, en ég skal ekki fara nánar út í það við þetta tækifæri.

Hér hefur verið lagt fram af hæstv. menntmrh. frv. til útvarpslaga. Ég get sagt frá því í fullri hreinskilni að ég var í miklum vafa um það í fyrra, þó ég samþykkti í mínum þingflokki að það væri lagt fram, hvort ég mundi fylgja því, en eftir þessa uppákomu er ég ákveðinn í að fylgja frv. Ástæðan fyrir því að ég hef verið í vafa er sú, að við búum hér við markað sem er 235 þús. manns og ég hef verið í vafa um að við gætum haldið úti myndarlegum útvarpsstöðvum fleirum heldur en einni og að gæðin mundu þá slakna, ef það kæmu margar stöðvar, vegna þess að markaðurinn er svo lítill og ekki mundi verða rekstrargrundvöllur fyrir því að halda uppi vönduðu útvarpi. En við ættum kannske að geta haldið uppi okkar Ríkisútvarpi eins og við gerðum í kreppunni 1930 og eftir það þó að það væri rekin t.d. ein myndarleg útvarpsstöð að auki af öðrum aðilum, þ.e. ekki af ríkinu. Hins vegar hef ég ekki trú á því að það væri skynsamlegt að gefa mörgum aðilum tækifæri til þess að reka hér útvarpsstöðvar. En ein myndarleg stöð, sem þyrfti helst að ná til alls landsins, held ég að væri þarfleg og allt að því nauðsynleg þegar svo er komið að menn labba bara út úr Útvarpinu og loka því ef menn eru ekki ánægðir með eitthvað sem gert hefur verið af stjórnvöldum. Ég vil því nota tækifærið til að lýsa yfir fylgi mínu við frv. til útvarpslaga.

Varðandi þá till. til þál. sem hér liggur fyrir um skipun rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka afskipti ráðh. og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðva, þá vil ég strax taka fram að ég fylgi ekki till. Ég er á móti henni og mun greiða atkv. á móti henni. Ástæðurnar fyrir því eru ýmsar. Ég hef ekki mikla trú á rannsóknarnefndum Alþingis. Ég var við háskólanám í Bandaríkjunum fyrir rúmlega 30 árum þegar McCarthy-nefndin var að störfum sem var rannsóknarnefnd þingsins. Nú höfum við engan McCarthy hér. En ég minnist þess og það gera fleiri hvernig sú nefnd vann að málum, hvernig heiðursmenn voru teknir og auðmýktir fyrir opnum tjöldum. (EG: Man þm. eftir rannsóknarnefndum Kennedys öldungadeildarþingmanns?) Já, já, það eru margar rannsóknarnefndir. Ég er að taka það dæmi sem mér mislíkaði mest, en ég geri ráð fyrir því að margar rannsóknarnefndir hafi unnið gott starf, ég reikna með því. En ástæðurnar fyrir því að ég er ekki hrifinn var þessi uppákoma í Bandaríkjunum. Og ég hef yfir höfuð ekki mikla trú á rannsóknarnefndum Alþingis. Þær verða pólitískar nefndir og ég held að störf þeirra hljóti að bera allt of mikinn keim af pólitík. Þetta verður pólitísk sýning. Þetta verður kannske fyrst og fremst til þess að sýna í fjölmiðlum og skrifa um í fjölmiðlum í staðinn fyrir að rannsaka málið hlutlægt og af vandvirkni, þannig að ég er ekki hrifinn af hugmyndum um þetta. Hins vegar er það alveg rétt, sem kemur fram við flutning málsins, að heimilt er að skipa rannsóknarnefndir. En ég óttast að þarna verði fyrst og fremst um pólitíska rannsókn að ræða en ekki hlutlausa rannsókn.

Ég hef miklu meiri trú á því að hlutlausir dómarar og dómstólar rannsaki svona mál og dæmi í þeim. Ef menn þurfa að fá mál rannsökuð og dæmd eiga menn að snúa sér til dómstólanna. Við höfum ágæta dómstóla hér í landinu, að mínum dómi. Ég hef aldrei orðið var við annað. Ég hef verið starfandi lögfræðingur í 15 ár samtals og rak mikið af málum, bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti, og ég varð aldrei var við að það gætti rangsleitni í dómum. Það orkar oft tvímælis hvort dómar eru réttir. Um það má lengi deila. Ég geri einnig ráð fyrir því að fullnaðardómstól, sem verður að dæma, geti skjátlast eins og öllum mönnum. En ég varð ekki var við að það væri rangsleitni í sambandi við t.d. dóma Hæstaréttar. Mér hefur fundist Hæstiréttur frjálslyndur dómstóll og réttlátur dómstóli þó að ég játi að ég hef ekki alltaf verið alveg sammála niðurstöðum Hæstaréttar. Það er annað mál. Um þessi mál má oft deila.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð fleiri. Ég mun greiða atkv. á móti þessari till. Ég tel hana ekki til þess fallna að rannsaka þessi mál og því síður að fella neinn úrskurð um réttmæti þeirra eða hvort þau eru eitthvað aðfinnsluverð.