08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4979 í B-deild Alþingistíðinda. (4240)

424. mál, erfðalög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þetta frv., sem er mikið áhugamál hv. 10. landsk. þm. að vonum, hefur verið rætt mikið í vetur í allshn. Nefndin kallaði á sinn fund marga færustu menn í þessum efnum því að hér er um allflókið mál að ræða á sviði erfðalaga.

Það var vilji í nefndinni til að ná samstöðu um málið og eftir miklar rökræður og vangaveltur á báða bóga varð niðurstaðan sú að allshn. öll flutti nýtt frv. um þetta efni sem að vísu gengur mun skemmra en upphaflega frv. Þetta nýja frv. má líta hér á þskj. 696.

Ég tel dálítið illa farið ef hv. 10. landsk. þm. vill nú enn fara að breyta þessu frv. sem allsherjar samkomulag náðist um ekki síst þar sem formaður allshn. er erlendis, en hann lagði manna mest á sig til að ná þessu samkomulagi og koma frv. í það horf sem það nú er í. Ég tel því að brtt. hv. 10. landsk. þm. sé hreint og beint til þess að bregða fæti fyrir þetta frv. á þessu þingi sem nú fer senn að ljúka. Ég mæli því eindregið með því að frv. sé samþykkt óbreytt ef það á á annað borð að ná fram að ganga á þessu þingi.