31.10.1984
Efri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Það voru fáein atriði í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., sem kom hér í þennan ræðustól, sem ég vildi gera athugasemdir við hér og nú. Það sem um er deilt hér og um er rætt er rekstur þessarar útvarpsstöðvar í húsakynnum Sjálfstfl. Hv. þm. spurði: Hvar er sönnunin? Og ég skal svara því. Sönnunin er í fyrsta lagi í skýrslu radíóeftirlitsmanna sem miðuðu út þessa stöð að Háaleitisbraut 1. Það liggur fyrir skjalfest. Ég geri ráð fyrir að sönnunin sé líka í þeim lögregluskýrslum sem skrifaðar hafa verið um þetta mál en ekki hafa séð dagsins Ijós enn þá en sjá það vonandi síðar. Í þriðja lagi er sönnunin fólgin í því að myndatökumenn fyrir erlendar sjónvarpsstöðvar tóku þarna myndir og þessi útvarpsstöð skýrði sjálf frá því í sinni útsendingu að þetta hefði verið gert. Í fjórða lagi get ég sagt hv. þm. Valdimar Indriðasyni að ég veit að þessi stöð var starfrækt þarna og ég veit að ýmsir af frammámönnum Sjálfstfl. vita það líka. Hann ræður svo hvort hann trúir þessum orðum mínum, það er hans mál. Ég mundi ekki fullyrða þetta nema af því að ég tel mig hafa alveg fullgildar sannanir og vitneskju fyrir því að svona var þetta. Þetta voru mistök sem mönnum hefði verið sæmst að viðurkenna strax, en það var ekki gert. Þess í stað er reynt að hylma yfir málið með ýmiss konar hálfsannleik og yfirklóri í Morgunblaðinu t.d. Það er ekki mikill mannsbragur að þeim málflutningi.

Hv. þm. vék að því að kapalkerfi væru starfrækt víðs vegar um land. Það er alveg rétt og m.a. í okkar kjördæmi. Og nú skal ég segja honum fáein atriði. Í útvarpsráði þegar á árinu 1981 liggur það fyrir í a.m.k. tveimur fundargerðum að ég gerði athugasemd við þetta og krafðist þess að haldinn yrði í útvarpsráði sérstakur fundur um þessi kapalkerfi bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar. Það varð ekki. Talað var um að fá lögfræðilega álitsgerð. Það gerðist ekki vegna þess að Ríkisútvarpið hefur engan lögfræðing. Það sem gerðist var að þessu máli var, hygg ég, kastað á kerfislegan hátt milli póst- og símamálastjórnar og Ríkisútvarpsins. Annar aðilinn sagði sem svo: Þetta er fjarskiptamál. Hinn aðilinn sagði: Þetta er mál sem varðar útvarpslögin. Það var ekkert gert í þessu máli. En það var ekki vegna þess að ekki hefði verið vakin á því athygli í útvarpsráði.

Ég hef líka, hv. þm. Valdimar Indriðason, margsinnis rætt þetta mál úr ræðustóli hér á Alþingi. Nú átti þessi hv. þm. kannske ekki sæti á Alþingi þá, en honum til glöggvunar og öðrum og þannig að það liggi fyrir ætla ég að rifja upp með leyfi hæstv. forseta nokkrar setningar úr ræðu sem ég hélt hér 26. nóv. 1981. Þar segir um þessi kapalkerfi:

„Ég tel mig hafa orðið áþreifanlega varan við að fólk sem notfærir sér þetta vill að um þetta verði settar reglur. Það vill ekki vera þjófsnautar og vill ekki vera lögbrjótar. Þess vegna er auðvitað mjög brýnt að um þetta verði settar reglur. En mér finnst að það eigi ekki að leiða af sjálfu að settar verði reglur um að þessi rekstur haldi áfram eins og hann er. Ég held að það þurfi að setja mörg og margvísleg skilyrði um hvernig að slíkum rekstri skuli staðið, fyrst og fremst til þess að tryggja hagsmuni almennings. Það á auðvitað að vera það sem haft er að leiðarljósi.

Enn má á það benda að í hv. Nd. hefur verið flutt frv. til l. um héraðsútvarp sem gerir ráð fyrir að einkaréttur Ríkisútvarpsins verði afnuminn. Nú er ég raunar sannfærður um að einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarps er úr sögunni. Hann er úr sögunni af margvíslegum tæknilegum ástæðum og verður aldrei endurheimtur.“

Þetta er úr þingræðu hér í nóv. 1981. Í sama mánuði bar ég fram fsp. til hæstv. menntmrh. sem þá var, núv. forseti Nd., hv. þm. Ingvar Gíslason. Þessi fsp. var svohljóðandi:

„1. Hvaða ráðstöfunum hyggst menntmrh. beita sér fyrir til að tryggja almenningi eðlileg not þeirrar nýju tækni og þeirra möguleika sem myndbönd og myndvarp“ — eins og ég nefndi það — „veita, þannig að lágmarksgæðakröfur séu virtar og réttur skapenda og höfunda og flytjenda sé ekki fyrir borð borinn?

2. Telur menntmrh. að starfsemi þeirra fyrirtækja, sem nú dreifa sjónvarpsefni til almennings aðallega á Reykjavíkursvæðinu um myndstrengi, sé í samræmi við fjarskiptalög nr. 30 frá árinu 1941, útvarpslög nr. 19 frá 1971 og lög um vernd barna og ungmenna?“

3. liður fsp. var á þá leið, hvort menntmrn. hafi látið kanna efnisframboð þeirra fyrirtækja sem dreifa sjónvarpsefni til almennings um myndstrengi.

Það verður að segjast eins og er að það varð heldur fátt um svör hjá hæstv. þáv. menntmrh. Að vísu kom í ljós að hann hafði látið skipa 10 manna nefnd í málið. Hann kallaði þetta barbarisma og að fólk yrði að fá að rasa út, ef ég man rétt, og eitthvað þvíumlíkt í þessum efnum og honum fannst þetta æði skoplegt í aðra röndina. Ég vil rifja hér upp ummæli sem ég viðhafði síðar í þessari umr., með leyfi forseta:

„Það, sem auðvitað liggur beinast við í þessu máli, er að nú starfar að endurskoðun útvarpslaganefnd sem þingflokkar eiga fulltrúa í. Önnur nefndarskipun í þá veru sýnist því auðvitað vera til lítils, óþörf. Auðvitað er eðlilegt að hæstv. menntmrh. feli þessari útvarpslaganefnd að gera hið fyrsta tillögur til breytinga í þessu efni á útvarpslögum og taka það verkefni út úr sem þetta mál varðar, því að heildarendurskoðun útvarpslaga hlýtur að taka meiri tíma. Það sýnist sjálfsagt og eðlilegt að þessi nefnd fjalli sérstaklega um þessi mál þannig að það ástand sé ekki viðvarandi að lög séu brotin. Það þarf þá að breyta lögunum til að aðlaga þau réttlætiskennd alls þorra fólks.“

Þetta sagði ég hér 1981 og bað um að þetta yrði gert og gerði till. um það. Það var ekki gert. Svo langar mig hv. þm. til skemmtunar að rifja hér upp ummæli hæstv. núv. iðnrh., þáv. hv. þm. Sverris Hermannssonar, sem var í stjórnarandstöðu. Hans ræða var mjög stutt og ég held að það sé ástæða, virðulegi forseti, til að lesa hana. Þá var búið að ræða allítarlega hér í Sþ. um þessi ólöglegu myndbandskerfi. Hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði:

„Herra forseti. Hv. þm. fara að verða ýmsu vanir í ræðuhöldum hér á hinu háa Alþingi. Ég verð að játa að ég minnist þess ekki að hafa setið undir jafnfurðulegum ræðuhöldum og hæstv. tveir ráðh. hafa haft um hönd hér nú. Hæstv. menntmrh. segir að í þessu efni hafi fólk tekið lögin í sínar hendur. Og hvaða ráð sér hann þá? Hann segir að það eigi að lofa því að „rasa út“. Mér dettur í hug, af því að ég var að horfa á ógnarlegan bruna í morgun, hvort væri kannske ráð að láta brennuvarginn rasa út. Það eru sumir sem halda því fram að fangelsi sé ekki góður uppeldisstaður. Og hann hefur skipað 10 manna nefnd í málið —10 manna nefnd — og svo kemur hæstv. dómsmrh.“ — núv. hv. þm. Vesturl. Friðjón Þórðarson — „og fagnar þessari nefnd og segir að hann hafi enga kæru fengið, það hafi enginn hringt í lögguna út af þessu máli. Hér dynja kærurnar á sjálfri löggjafarsamkundunni frá þjóðkjörnum fulltrúum, — dynja kærurnar, lögbrot eru upplýst á allt að fjórum aðalbálkum laga, en hæstv. dómsmrh. fagnar því að hæstv. menntmrh. er búinn að setja 10 manna nefnd og meira að segja valinkunnan mann í formennsku hvað þá meir, þannig að það er vandað til hlutanna. — Ég á ekkert einasta orð yfir þessum málflutningi,“ sagði hv. þm. Sverrir Hermannsson. Og hann klykkti út með því að segja: „Ég verða að segja það að ef ég væri einn af þessum stjórnarsinnum hefði ég fyrir löngu gengið út úr þessum sal og hengt mig.“

Þetta voru ummæli Sverris Hermannssonar. Ég vil bara upplýsa hv. þm. Valdimar Indriðason um það að þessi mál hafa verið rædd hér. Athygli stjórnvalda hefur verið vakin á þessu hvað eftir annað. Þm. hafa ekki framkvæmdavaldið í sinni hendi en við höfum bent á hér hvernig þessum málum var háttað og það bentu mjög margir á. Hv. þm. Haraldur Ólafsson gerði það í þessari umr. hér og ég hef áður í Sþ. vitnað til hans ummæla í þessu máli, að lögin væru fótum troðin og hvort menn ætluðu að horfa á það. Það hefur verið á þetta bent. Skynsamlegasta leiðin hefði verið sú að útvarpslaganefndin hefði tekið þetta mál sérstaklega út úr. Ég held að það sé svolítill munur á því að búa til svona kapalkerfi í byggðarlögum og að senda út á öldum ljósvakans. Kapalkerfið er takmarkað við þá sem leyfa þennan kapal inn í sín hús. En ég tek fram að það er ólögleg starfsemi líka og þar hafa höfundarréttarlög verið margbrotin. Það er mjög alvarlegt mál og við getum ekki kinnroðalaust horft framan í aðra þegar við tökum hugverk núna og nýtum þau án þess að rétt gjald komi fyrir eins og t.d. er hjá Ríkisútvarpinu. Þetta er ekki vansalaust.

En ég geri mér líka fullkomlega grein fyrir því að menn fara ekki um og rífa þessa kapla upp úr jörðinni. Það verður að setja reglur um þetta mál og það verður að setja reglur sem gera það að verkum að þarna sé lýðræði virt og þarna séu hagsmunir almennings virtir. Meginatriði slíkra reglna um kapalkerfi hygg ég að eigi að vera tvö. Í fyrsta lagi held ég að sveitarfélögin eigi að eiga þessi kerfi og í öllum tilvikum verður að hafa algerlega glögg skil á milli þess sem á kerfið eða rekur kerfið og þeirra sem nota kerfið til þess að senda eftir því dagskrá. Þetta er grundvallarsjónarmið, að það má ekki vera sami aðilinn sem á kerfið og rekur það. Þannig er þetta t.d. í Bandaríkjunum að þarna eru gerð skil á milli. Á ensku er það kallað common carriers, sá sem á eða rekur þetta kerfi og síðan geta dagskráraðilar, frá einum og upp í 50 kannske, átt þarna aðgang. Það eru þessi sjónarmið sem menn hafa bara hreinlega ekkert rætt hér enn þá. En við getum ekki haldið áfram að stinga hausnum í sandinn og láta sem þetta sé ekki til. Á það tel ég mig hafa bent mörgum sinnum hér á hinu háa Alþingi, en ráðherrar hafa látið þetta sem vind um eyru þjóta.

Ég ætla bara að ítreka það, virðulegi forseti, að þetta mál, sem við erum að ræða hér, snýst eingöngu um að athuga það hvort afskipti ráðh. af rekstri þessara útvarpsstöðva hafi verið eins og vera átti. Þetta snýst ekkert um eðli þessara stöðva eða inntak heldur eingöngu það hvort afskipti ráðherranna samrýmdust réttum reglum. Ég hef efasemdir um það og þess vegna tel ég nauðsynlegt að þetta mál verði kannað. Það er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir Alþingi, það er nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðh. líka, að það komi þá í ljós hvort þeir eru jafnblásaklausir og þeir hafa haldið fram.

Mig langar fyrst ég er hér kominn í ræðustól að víkja fáeinum orðum að ræðu hæstv. menntmrh. er hún flutti hér síðast þegar þetta mál var á dagskrá. Það fannst mér næsta undarleg ræða. Um hvað talaði hæstv. menntmrh.? Hún talaði mikið um Gróu á Leiti og tengdi þá alræmdu persónu við mína ræðu og væntanlega þá í þá veru að ég hafi hér farið með Gróusögur. Það var ekki hægt að skilja hennar mál öðruvísi. Ég veit ekki hvað hún átti við. Hún skýrir það sjálfsagt nánar hér í þessum umr. Ég las skýrslu um heimsókn lögreglu og radíóeftirlitsmanna í Valhöll. Var það Gróa á Leiti, sú skýrsla? Ég vitnaði til ummæla ráðh. sem höfð voru eftir henni í fréttatíma Ríkisútvarpsins? Var það Gróa á Leiti? (Menntmrh.: Gróa rangtúlkaði þau.) Ég rangtúlkaði ekki ummæli ráðh. Ég vitnaði til ummæla ráðh. og ég sagði að hæstv. menntmrh. hefði seinna skýrt sín ummæli þannig að hún hefði ekki meint þau eins og flestir skildu. Ég gat þess í minni ræðu og ég lagði ekkert sérstaklega út af þeim ummælum hennar. Við höfum áður, hæstv. menntmrh. og ég, átt nokkur orðaskipti um þetta.

En það sem var kannske athyglisverðast við ræðu hæstv. menntmrh. var það að hún minntist ekki einu orði á þennan útvarpsrekstur í Valhöll. Það segir kannske meira en margt annað.

Eitthvað var hún að tala um að menn rifu hár sitt og skegg hér, þeir sem það hefðu, bætti hún við og mátti raunar skilja svo hennar orð að það væri innanflokksástandið í Alþfl. sem gerði það að verkum að ég hefði vakið máls á þessu. Það er mikill misskilningur hjá hæstv. ráðh. En ég held að hún ætti að hafa meiri áhyggjur af innanflokks- og innanhússvanda síns eigin flokks undir forustu nýs formanns en af ástandinu í Alþfl. Ég sé á blöðum að hún hefur lesið viðtal sem Morgunblaðið tók við Þorgeir 1bsen skólastjóra í Hafnarfirði. „Ég er sár sem sjálfstæðismaður“ segir í fyrirsögn sem Morgunblaðið birti 25. þ. m. Það er býsna merkilegt og það staðfestir raunar, finnst mér, það sem ég sagði í þessum umr., sem urðu hér 11. eða 12. okt., um þá breytingu sem orðin er á Sjálfstfl. Með leyfi forseta, þá sagði Þorgeir Ibsen:

„Að endingu vil ég segja eftirfarandi sem einlægur sjálfstæðismaður. Mér finnst í dag að ég sé ekki í flokki Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar.“ — Þetta er hárrétt athugað, hann er í flokki Þorsteins Pálssonar núna og þar er verulegur munur á. — „Þeir voru „statesmen“, sem voru virtir langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna. Ég vil ekki að ungu mennirnir, sem við höfum lagt traust okkar á, geri flokkinn að gullastokki til að fá útrás fyrir hégómlegan metnað og valdagræðgi.“

Þetta eru merkileg ummæli frá helsta forustumanni Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi. En það er ekki allt búið enn. Síðan segir, með leyfi virðulegs forseta:

„„Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að sitja síðasta landsfund Sjálfstfl. Það ríkti mikil eining eftir langt erfiðleikatímabil og flokkurinn virtist heill og sterkur. Nú virðist mér hann farinn að líkjast stórum slöttólfi, hann er mikill vexti, en linkulegur, og er það mikið harmsefni, því vissulega hefur flokkurinn fram til þessa átt erindi við þjóðfélagið,“ sagði Þorgeir 1bsen að lokum.“

Ég held í ljósi þessara ummæla að ástæða sé til fyrir sjálfstæðismenn að hafa svolitlar áhyggjur af sínum heimilisvanda sem frá þeirra sjónarmiði núna er sjálfsagt þyngri en tárum taki. Þorgeir 1bsen segir sitthvað fleira í þessu viðtali. Ég veit ekki hvort ástæða sérstök er til að rekja þau ummæli. Ég þóttist sjá í Morgunblaðinu að hæstv. menntmrh. hefði lesið þetta viðtal og ég geri ráð fyrir að þetta viðtal við þennan forustumann Sjálfstfl. sé forustumönnum Sjálfstfl. núv. mikið áhyggjuefni vegna þess að ég held að hann túlki skoðanir óbreyttra flokksmanna sem hafa stutt Sjálfstfl. Þetta er það sem hefur verið að gerast í Sjálfstfl., þetta eru þau vatnaskil sem orðið hafa þegar frjálshyggjugaurarnir hafa náð yfirhöndinni í flokknum, því miður að mati margra sem hugsa af meiri ábyrgð.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort ástæða er til að hafa um þetta miklu fleiri orð. Það mætti gera hér sérstaklega að umtalsefni þátt hv. þm. Ellerts B. Schram í þessu útvarpsstöðvamáli. Ég ætla ekki að gera það að sinni vegna þess að þetta mál snýst eingöngu um afskipti hæstv. ráðh. af þessu máli.

Eins og fram kemur í skýrslu Radíóeftirlitsins að þáv. póst- og símamálaráðherra gefur lögreglunni fyrirmæli í gegnum síma, eins og fram kemur í þeirri skýrslu, um það að hennar heimsókn og eftirlitsmanna sé ekki með hans vitund og vilja sem þýðir að lögreglan hverfur af vettvangi. Hvernig sem menn líta á þetta mál, þá er það ljóst að þetta símtal ráðh. verður til þess að lögreglan hverfur af vettvangi. Afskipti borgarstjórans í Reykjavík af þessu máli eru líka sérstakur kapítuli, en ég ætla ekki að gera þau að umræðuefni hér á Alþingi. Það er eðlilegt að ræða bara um afskipti ráðherranna.

Ég held að það sé öllum fyrir bestu að staðreyndir þessa máls verði dregnar fram í dagsljósið. Það er hæstv. núv. fjmrh. fyrir bestu og þeim öðrum ráðherrum sem hafa komið við sögu þessa máls. Það er nauðsynlegt fyrir þeirra starfsheiður að þetta sé rannsakað, og að þetta sé skoðað, skýrslur séu lesnar og lagðar fram, t.d. lögregluskýrslur um þessa heimsókn í Valhöll. Komi það í ljós að rétt var að staðið, gott og vel. En komi það í ljós að ráðherrar hafi þarna farið út fyrir sín eðlilegu valdmörk, þá er það sérstakt athugunarefni fyrir hinn stóra slöttólf kannske sérstaklega, Sjálfstfl., sem linkulegur er orðinn að mati Þorgeirs Ibsen.

Virðulegi forseti. Ég hef þessi orð ekki fleiri. Ég ítreka það, vegna þess að Morgunblaðið og Dagblaðið hafa uppi markvissa viðleitni til að snúa út úr þessu máli öllu og rangfæra það, að ég er fylgjandi því að einkaréttur Ríkisútvarpsins verði rýmkaður og fleiri aðilar fái að reka útvarpsstöðvar. Um það er enginn ágreiningur. Þetta mál snýst ekki um það. Þetta mál snýst eingöngu um það hvort afskipti ráðherranna af þessu máli voru eins og vera átti. Það er kjarni málsins. Og hæstv. menntmrh. getur komið aftur í þennan ræðustól og haldið áfram að tala um Gróu á Leiti. Hún er sjálfsagt vel kunnug ágætum verkum Jóns Thoroddsen, en það eru ýmsar fleiri persónur í hans bókum sem kannske væri ástæða til að gera að umtalsefni hér í þessum ræðustól.