08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4982 í B-deild Alþingistíðinda. (4251)

329. mál, lausafjárkaup

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur athugað það frv. sem hér um ræðir og er samþykk því að það efnisatriði sem er undirrót frv., varðandi skaðabætur vegna galla í varanlegri fjárfestingarvöru eins og steinsteypu, þarfnist sérstakrar athugunar, enda sé með öllu óviðunandi að seljendur slíkrar vöru beri ekki raunverulega ábyrgð á vöru sinni, sbr. dóm Hæstaréttar frá 27. júní 1983.

Hins vegar getur nefndin ekki fallist á frv. í núverandi mynd og telur að málið þarfnist sérstakrar athugunar. Með tilliti til þess að málið er brýnt telur nefndin að vinna eigi þegar sérstakt frv. um þetta atriði, án tillits til endurskoðunar kaupalaganna að öðru leyti, og leggur því til að málinu sé vísað til ríkisstj.