08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4982 í B-deild Alþingistíðinda. (4253)

5. mál, útvarpslög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það sem kom mér til að standa upp og hefja hér tölu við 3. umr. voru fsp. um það hvað hefði dvalið svo mjög að þetta mál kæmi aftur á dagskrá. Satt best að segja hafa menn verið að reyna að átta sig á því hvort sögusagnir um samkomulag væru réttar. Aðaltalsmaður þeirrar kenningar, að samkomulag hefði verið gert á milli hæstv. forsrh. og hæstv. menntmrh., hefur verið 2. þm. Reykv. Ekki veit ég hvort hann er viðstaddur að staðaldri þegar þessir tveir ráðherrar eiga stefnumót eða hvort hann hefur einhverja aðstöðu til að fylgjast sérstaklega með undir slíkum kringumstæðum. Ég fer mér ákaflega hægt í fullyrðingar en eftir þeim upplýsingum, sem við framsóknarmenn höfum í þessu máli, liggur ekki fyrir samkomulag. Forsrh. kannast ekki við að hafa staðið að samkomulagi um þessi mál. Hann kannast við það að hafa átt mjög vinsamlegar viðræður við menntmrh. þar sem viss misskilningur hafi átt sér stað. Ég verð að segja eins og er, að mig undrar það, í ljósi þeirra upplýsinga sem ég kem hér á framfæri, hve harður hv. 2. þm. Reykv. hefur verið við að fullyrða að samkomulag hafi verið gert.

Ég vil aftur á móti undirstrika það að í menntmn. var gert samkomulag á milli stjórnarflokkanna. Að því samkomulagi stóð ég annars vegar og hins vegar öll stjórn þingflokks Sjálfstfl. Það skyldi enginn efa að hv. 2. þm. Norðurl. e. er harður samningamaður og hans forsjá í þessum efnum var það hagstæð fyrir Sjálfstfl. að þegar ég flutti mitt mál og mitt samkomulag í Framsfl. mátti ég þakka fyrir að vera ekki gersamlega skotinn í kaf. E. t. v. halda einhverjir að hér sé verið að smyrja á sneiðina en svo er ekki. Það er ágreiningur um þetta mál, mikill ágreiningur. Í mínum flokki hafa margir verið það harðir að þeir hafa annars vegar viljað leyfa útvarp án allra auglýsinga og hins vegar viljað leyfa þessa starfsemi með þeim ákvæðum um auglýsingar sem eru í frv. Þessu veit ég að hv. 6. þm. Reykv., sem starfaði í þeirri nefnd sem samdi frv. á sínum tíma, gerir sér mjög vel grein fyrir því að þeir tveir framsóknarmennirnir, sem störfuðu með honum í nefndinni, tóku einmitt mismunandi afstöðu til þessa máls. Annar þeirra vildi engar auglýsingar en hinn stóð að því að semja um þessi mál eins og gert var. Ég vil undirstrika að hv. 6. þm. Reykv. stóð að því að semja um þessa hluti á þennan veg þrátt fyrir það að ég veit að hann hefði viljað ná lengra.

Nú er svo komið að hv. 2. þm. Reykv. vill ekki una þessari túlkun — (FrS: Hún er of löng.) — og undirstrikar að hann hafi haft fyrirvara. Engu að síður vildi hann semja um þessi mál á þessum grunni og þannig var frv. skilað. Hefði hann ekki viljað semja um þessi mál er trúlegt að engin niðurstaða hefði fengist.

Hv. 2. þm. Reykv. hefur komist í sömu stöðu og Jóhannes úr Kötlum forðum þegar hann var óánægður með þjóðina, stjórnina og flokkinn. Hann hefur á fundum mjög víða komið sínum boðskap á framfæri þar sem helst má ráða af hans málflutningi að ráðherrar flokksins séu ónothæfir, stjórnin sé óhæf og þingflokksstjórnin var dæmd á einu bretti alls óhæf í þessu máli. Þegar menn sigla svona bjart spyr maður sjálfan sig hvort ekki fari fyrir þeim eins og Erlingi Skjálgssyni á Sóla forðum þegar hann sigldi af sér sinn eigin flota. En kannske er hér um meiri gætni að ræða.

Ég hygg aftur á móti að með sinni skörulegu framgöngu hafi hv. 2. þm. Reykv. komið því á framfæri við þjóðina alla að hann er hiklaus baráttumaður og semur ekki um neinar millileiðir. Slíkur maður hlýtur náttúrlega að verða settur í ráðherrastól ef Sjálfstfl. fær hreinan meiri hluta í kosningum á Íslandi. En það er spurning hvort hann hentar í samsteypustjórnir þar sem menn þurfa stundum að gefa örlítið eftir og semja sig áfram. (Gripið fram í: Framsókn er að hafna honum.) Framsókn er ekki að hafna einum né nemum. Ég set spurningarmerki við hvort hann muni henta. Það er viss traustsyfirlýsing gagnvart þeim ráðherrum sem Sjálfstfl. hefur skipað og eru það lífsreyndir að þeir gera sér grein fyrir því að málamiðlun getur oft verið nauðsyn. (GE: Þú verður nú að gera Friðriki þennan greiða.) (Heilbr.- og trmrh.: Það má kannske temja hann.) Ég vil sérstaklega taka undir þetta síðasta hjá 1. þm. Vestf., að ég hygg að þess sé ærin þörf og veit ekki nema sjálfstæðismenn muni vinna dyggilega að því verki.

En ég vil ljúka orðum mínum með því að geta þess að fari svo að það samkomulag, sem ekki hefur verið gert, verði áfram boðað sem hið sanna og rétta er verið að tefla þessu máli í mikla tvísýnu. Ég hef aldrei vitað til þess að eftir að forsrh. hefur lýst því yfir að hér sé um misskilning að ræða sé enn verið að undirstrika að samkomulag hafi verið gert og þess vegna gildi ekki þeir samningar sem gerðir hafi verið í menntmn. Má vera að þeir séu til í þingflokki Sjálfstfl. sem telji að stjórn þingflokksins hafi ekki náð þeim samningum sem þeir telji viðunandi. Ég hygg aftur á móti að það verði ekki til farsældar fyrir framgang málsins að fylgja þeim sem telja að svo hafi til tekist.