08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4998 í B-deild Alþingistíðinda. (4260)

5. mál, útvarpslög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt hef ég verið áhugamaður um framgang þessa máls og sér í lagi verið þeirrar skoðunar að tímabært væri að afnema einkarétt ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Eftir að menntmn. hafði fjallað um málið og lagt fram sínar brtt. runnu á mig tvær grímur og ég verð satt að segja að játa að mér var til efs hvort skynsamlegt væri að afgreiða frv. að samþykktum brtt. menntmn. vegna þess að mér sýndist og sýnist raunar enn að þær breytingar muni gera það frjálsræði, sem að er stefnt með frv., að engu, a. m. k. draga svo mjög úr því svigrúmi sem öðrum er ætlað að það væri borin von að nokkur gæti farið af stað með rekstur útvarps eða sjónvarps skv. þeim lögum sem þá mundu gilda.

Nú hefur málið verið lagt fram að nýju og tekið til umr. eftir langt og raunar óskiljanlegt hlé og það kemur í ljós að menntmn. hefur nú fallið frá þeirri fyrirætlan sinni að leggja nefskatt á þjóðina til greiðslu afnotagjalds til Ríkisútvarpsins og tel ég þá breytingu til bóta. Mér skilst að Ríkisútvarpið hafi afþakkað þetta góða boð. En enn þá stendur í frv. ákvæði um svokallað menningarsjóðsgjald, menningarskatt, sem ég hef ekki enn áttað mig á hvaða tilgangi eigi að þjóna. Eftir því sem ég hef best hlerað er þessi skattur í óþökk Ríkisútvarpsins, þeirra aðila sem hann á að renna til. Forsendur hans eru vægast sagt mjög veikar og ef úr honum verður er það vísasti og greiðasti vegurinn til að drepa frjálsræðið aftur í dróma. Ég hefði þess vegna talið langæskilegast að ákvæðið um menningarskatt yrði fellt niður. En menntmn. hefur ekki stigið það skref enn sem komið er.

Hér liggja fyrir, auk tillagna frá menntmn., nokkrar aðrar tillögur. M. a. er þar um að ræða tillögur frá Alþfl. Veigamestar þeirra eru ákvæði um svokallaðar boðveitur. Ég skil þessar tillögur Alþfl. svo að þar sé um að ræða aðferð til að koma í veg fyrir að í staðinn fyrir einokun ríkisins komi einokun einkaaðila á þessu veitukerfi. Mér finnst það eðlilegt sjónarmið, enda ástæðulaust að færa einokun frá einum til annars ef menn á annað borð eru að tala um aukið frjálsræði á þessum vettvangi. Ég get vel skilið að menn hafi áhyggjur af því að ef veitukerfið, kapalkerfið er í eign einhvers eins aðila muni ríkja óeðlilegt ástand. Að þessu leyti tek ég undir skoðanir og till. Alþfl. Hvort boðveitur eigi að vera í eigu sveitarfélaga eða hvort eigi að setja þannig ákvæði að tryggt sé að enginn einn aðili einoki þær er annað mál og það læt ég liggja á milli hluta, enda finnst mér það kannske ekki á þessu stigi málsins vera aðalatriði. Þessar tillögur finnst mér þess vegna vel hægt að skoða og tel þær engan veginn frágangssök.

Að öðru leyti fjalla ég ekki um tillögur Alþfl., enda ráða þær að mínu mati ekki úrslitum um tilurð þessara laga og skiptir ekki meginmáli hvort þær eru samþykktar eða felldar, og mun ég þess vegna taka afstöðu til þeirra eftir atvikum.

Þær till. sem mest hefur verið fjallað um eru till. um breytingar frá Bandalagi jafnaðarmanna annars vegar og tillögur frá hv. 2. þm. Reykv. hins vegar og fjalla þær báðar um auglýsingar, um aukið svigrúm til handa rekstraraðilum að væntanlegum útvarps- og sjónvarpsstöðvum til að afla sér tekna með auglýsingum. Ég þarf varla að taka fram að ég er hlynntur þessum tillögum og mun greiða þeim atkv. Hér bar á góma í dag að ég, sem nefndarmaður í þeirri nefnd sem útbjó þetta frv. á sínum tíma, hefði fallist á að frv. væri úr garði gert eins og það er lagt hér fram og hefði ekki gert tillögu um að auglýsingaákvæðin væru eins og brtt. gera ráð fyrir. Vil ég í því sambandi vekja athygli þingheims á því og þá sérstaklega athygli hv. 5. þm. Vestf., sem fjallaði um þetta atriði, að á bls. 21 í grg. með þessu frv. er skýrt frá séráliti sem ég lagði fram í lok nefndarstarfsins og þar fjalla ég einmitt um þetta tiltekna atriði. Í þessu séráliti mínu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í áliti nefndarinnar og frumvarpsdrögunum eru stórmerk nýmæli. Mikilvægast er að einkaréttur ríkisins er afnuminn og gert ráð fyrir að fleiri aðilar geti stofnað og starfrækt útvarpsstöðvar í framtíðinni. Ég er eindreginn stuðningsmaður þessara breytinga, sem marka tímamót á Íslandi. Ég hef hins vegar verið andvígur ýmsum skilyrðum og skorðum sem slíkum stöðvum eru settar, einkum og sér í lagi 2. mgr. 4. gr. og 3. tölul. 5. gr. sem báðar fjalla um takmörkun á auglýsingum í þargreindum stöðvum. Ég óttast að þessar takmarkanir muni hefta getu stöðvanna til að bjóða upp á frambærilegt efni. Ég tel þá reglu farsælasta að láta stöðvunum sjálfum eftir að ákveða magn og umfang auglýsinga um leið og það er ósanngjarnt að banna auglýsingar alfarið í tilteknum stöðvum.“

Ég vísa ekki frekar í þetta sérálit mitt, en þarna ætti mönnum að vera ljóst hver mín skoðun hefur verið frá upphafi og hún stendur enn þá óhögguð.

Nú skil ég vel ef menn eru alfarið á móti því að rýmka útvarpsréttinn og að taka einkaréttinn af ríkinu. Það er sjónarmið út af fyrir sig og hefur einn hv. þm. lýst andstöðu sinni gegn þessu frv. og við því er ekkert að segja. Að öðru leyti hafa þeir þm. sem tekið hafa til máls ekki lýst andstöðu sinni við það að einkaréttur Ríkisútvarpsins skuli afnuminn og enginn flokkur hefur tekið þá afstöðu. Hins vegar hefur Alþb. mjög beitt sér gegn þeim ákvæðum sem kveða á um rétt væntanlegra útvarpsstöðva til að hafa auglýsingar í sinni dagskrá og afla sér tekna með þeim hætti.

Í nál. sem undirritað er af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, minnihlutaáliti úr menntmn., segir m. a., með leyfi forseta, að Alþb. telji með öllu óeðlilegt að útvarpsstarfsemin sé gerð að markaðsvöru í gróðaskyni. „Því leggst flokkurinn ákveðið gegn því að handhöfum útvarpsheimilda verði leyft að selja þriðja aðila aðgang að senditíma með hvers kyns viðskiptaauglýsingum eða annarri verslun með dagskrártíma í svæðisbundnum útvarpsstöðvum.“

Þessari skoðun hefur hv. þm. fylgt eftir með ræðum sínum í þessari umr. með því að úthella sér yfir svokölluð gróðaöfl sem hann telur að séu að þrýsta á um framgang þessa máls. Ég held að það sé mikil tvískinnungur í því að þykjast vera hlynntur því að einkaréttur Ríkisútvarpsins sé afnuminn og vera hlynntur því að aðrir fái tækifæri til að reka útvarps- og sjónvarpsstöðvar, en hafa á sama tíma á móti því að þessir aðilar geti aflað sér tekna til að standa undir rekstrinum. Ég gæti í sjálfu sér flutt hér langar innihaldslitlar ræður um þessi gífuryrði um gróðaöflin og um alla þá vondu aðila sem þar, að mér skilst, eigi að liggja í leynum eins og einhverjir púkar til að sölsa undir sig markaðinn. En ég hef ekki áhuga á því að karpa við hv. þm. Hjörleif Guttormsson á þeim nótum og vil ég heldur reyna að ræða lítillega málefnalega um þetta sjónarmið Alþb., þetta sífellda tal þess um að hættulegt sé að hleypa gróðaöflum að og þess vegna verði menn að vera á móti því að auglýsingar séu leyfðar í öðrum útvarpsstöðvum ef til kemur. Dettur mönnum í hug að virkilega sé hægt að setja á laggirnar fyrirtæki eða rekstur af þessum toga án þess að heimila viðkomandi fyrirtækjum að hafa tekjur af auglýsingum úr dagskrá sinni? Og dettur þeim í hug að hægt sé að reka þessi fyrirtæki með hagnaði til langs tíma? Ég minnist þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson tók þannig til orða að hann ætlaðist til að menn stunduðu þennan útvarpsrekstur af áhuga, sjálfboðaliðastarfi skilst mér. Það má vel vera að einhverjir hugsjónamenn séu til sem vilji gera það, en það endist enginn til þess I langan tíma, ekki ef þetta á að vera alvöruútvarp. Ég held að þessi endurtekna bábilja um að gróðaöflin séu hættuleg sé ádeila á grundvallaratriði í allri uppbyggingu þjóðlífsins. Auðvitað verða menn að hafa hagnað af rekstri fyrirtækja. Auðvitað verða menn að hefja útvarpsrekstur með það í huga að það skili einhverjum arði. Nú er ég ekki að segja að það eigi að vera aðalsjónarmiðið, aðalforsendan fyrir því að menn fari af stað með útvarp. Auðvitað hljóta menn að hafa áhuga og væntanlega að vilja koma einhverjum boðskap á framfæri. Kannske hafa þeir áhuga á fjölbreytni í fjölmiðlun. Kannske hafa þeir áhuga á því að auka tilbreytinguna í tilverunni. Það er alveg útilokað að átta sig á því á hvaða forsendum menn fara af stað og hafa áhuga á útvarpsrekstri. En það getur enginn búist við því að á þessum vettvangi setji menn peninga í stofnkostnað og kaupi tæki og aðstöðu, fái fólk til að starfa, öðruvísi en að einhverjar tekjur komi á móti.

Ég held að það bréf sem hæstv. forsrh. las upp í dag frá kvikmyndagerðarmönnum sé besta sönnunin fyrir því hvaða þýðingu það hefur að þessar stöðvar, sem vonandi fara af stað, verða öflugar, hvaða þýðingu það hefur fyrir íslenska kvikmyndagerð, fyrir íslensk auglýsingafyrirtæki og fyrir íslenska menningu í það heila tekið. Ef menn vilja stefna að því að opna fyrir fleiri stöðvar án þess að tekjur skapist á móti er verið að bjóða því heim að menn opni svokölluð „musicbox“, stöðvar eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur verið að fjölyrða um að einn nafngreindur viðskiptamaður hér í borg ætli að taka sér fyrir hendur — sem er kannske ekki sérstaklega spennandi sjónvarpsefni ef það á að vera á léttu nótunum og eintómt afþreyingarefni. Forsendan fyrir því að menn geti rekið hér menningarlegar og sterkar stöðvar er auðvitað sú að það skapist tekjur til þess að hægt sé að búa út innlenda menningarlega dagskrá. (HBl: Og banna það sem er ómenningarlegt.)

Hv. þm. gerir því skóna að ég hefði verið að reka á eftir þessu máli af því ég væri ritstjóri á tilteknu dagblaði hér í borg. Þetta er út af fyrir sig aukaatriði, en ég get ekki séð hvernig það geti talist gagnrýnisvert þó ég, starfa minna vegna, hafi áhuga á fjölmiðlun og hafi áhuga á því að framfarir eigi sér stað á þessum vettvangi. Mér er ljóst, og það er væntanlega öllum þm. ljóst, að það er að verða mikil bylting á sviði fjölmiðlunar, gervihnettir, myndbönd, kapalvæðing o. s. frv., o. s. frv., og það getur enginn séð fyrir hvað gerist næst. Auðvitað er annað útilokað fyrir Íslendinga en að reyna að halda í þessa þróun og nýta hana sér til ánægju og sér til gagns. Ég held að það sé, eins og hæstv. menntmrh. sagði í dag, lífsnauðsyn fyrir Íslendinga af menningarástæðum og lífsástæða af lýðræðislegum ástæðum að tjáningarfrelsið sé virt og að leiðir séu opnaðar fyrir allan almenning til að nýta sér fjölbreytni og nýjungar á þessu sviði.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson hafði áhyggjur af framgangi þessa máls af félagslegum ástæðum og vísaði í því sambandi til kjósenda sinna í Norðurlandskjördæmi eystra. Ég held að reynslan þar fyrir norðan af útvarpsrekstri, að vísu er sá útvarpsrekstur á vegum Ríkisútvarpsins, sýni okkur það svart á hvítu að kjósendur og íbúar í því ágæta kjördæmi hafa fullan skilning á því og hafa fullan áhuga á því að nýta sér þá möguleika að fá til sín nýjar stöðvar. Ég held einmitt að það sé félagslegur styrkur fyrir hinar dreifðu byggðir að stofna staðbundnar útvarpsstöðvar. Þar fær fólkið sjálft að spreyta sig í útvarpsrekstri. Þar fær það sjálft fréttir af því sem er að gerast í kringum það og það tengist böndum á öldum ljósvakans. Þar fá menn sem sagt nýtt tækifæri til að spreyta sig og þjappa sér saman og efla allt menningarlíf, allt samlíf á viðkomandi stöðum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ganga í þann flokk manna sem er að tefja fyrir þessu máli með löngum ræðuhöldum. Það hefur nóg verið gert af því að þvælast fyrir þessu máli, löng bið og mikið málskraf. Mér finnst hins vegar frekar ógeðfellt að hlusta á það þegar þm. koma hér í dag og eru með hálfgildings hótanir. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson segir að ef einhverjar tilteknar brtt., málefnalegar, skiljanlegar og réttlætanlegar brtt. á þessu frv., nái fram að ganga sé málinu tefit í tvísýnu. Og fulltrúi Alþb. kemur hér og segir að ef þessar till. verði samþykktar geti Alþb.-menn ekki greitt götu þessa máls þannig að það fái endanlega afgreiðslu. Þetta eru ekkert annað en hótanir. Hér er ekki um að ræða neina málefnalega afstöðu. Hér er bar sagt:

Ef eitthvað er samþykkt sem okkur líkar ekki ætlum við að þvælast fyrir og koma í veg fyrir að málið sé afgreitt. — Þetta finnst mér vera ógeðfelldur og óviðeigandi málflutningur.

Það hefur komið ljóslega fram og öllum kunnugt um það að ágreiningur er um einstök ákvæði þessa máls og í þessari lotunni beinist athyglin fyrst og fremst að auglýsingum og hversu rúmar þær eiga að vera. Mér finnst alls ekkert óeðlilegt við það þó þingið gangi til atkv. og tjái hug sinn um það eftir sannfæringu sinni. Menn þurfa ekki nokkurn skapaðan hlut að gera samkomulag um það eða gera samkomulag um það að vera ósammála eða gera samkomulag um að samkomulagið gildi, eins og hér var verið að tala um og í tíunda í umræðunni í dag, á milli einstakra ráðherra.

Ég held að það virki hálfankannalega og hálfhlægilega fyrir allan almenning, ef hann fylgdist með þeirri umr. þegar menn koma og ræða fram og til baka hvort þeir hafi gert samkomulag um einhverja málamiðlun um svona mikilvæg atriði. Þetta mál hefur verið í brennidepli. Það er fylgst með því hvort það nái fram að ganga. Það er fylgst með því hvort þingið meinar eitthvað með því, stjórnmálamenn, að hér eigi að vera virkt lýðræði, tjáningarfrelsi. Ég held að fólk hefði ekki sérstaklega mikið álit á Alþingi ef það spyrst að hér sé verið að afgreiða mál annaðhvort undir hótunum eða samkvæmt samkomulagi sem stríðir kannske gegn vilja og sannfæringu meiri hluta þingmanna.