08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5005 í B-deild Alþingistíðinda. (4262)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 3. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint spurningum sem ég hef að vísu þegar svarað vegna þess að afstaða Alþfl. í þessu máli er deginum ljósari og var rækilega gerð grein fyrir henni áðan. Hún er sú að við erum reiðubúnir til að styðja till. um heimildir til að selja auglýsingar í nýjum stöðvum, er stofnaðar yrðu, gegn ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin eru í fyrsta lagi að á þeim reynslutíma sem hér um ræðir verði þessar gjaldskrár undir verðlagseftirliti. M. ö. o.: gjaldskrár skulu háðar samþykki úfvarpsréttarnefndar. Þetta er fyrra skilyrðið.

Hið síðara og miklu mikilvægara er að nái þetta fram að ganga erum við því aðeins reiðubúnir að styðja það til enda að till. okkar um boðveitukerfi í eigu sveitarfélaga nái fram að ganga. Í máli mínu kom þetta mjög skýrt og skilmerkilega fram og ég eyddi miklum tíma í að rifja upp fyrir hv. þm., þ. á m. hv. 3. þm. Reykv., hvers vegna þetta skiptir sköpum. M. ö. o.: ef við ætlum að gera tilraun sem felur í sér að aflétta einokun Ríkisútvarpsins viljum við tryggja að í staðinn komi ekki forræði einhverra fjölmiðlarisa, fjármagnsins á máli hv. 3. þm. Reykv., heldur verði með þessum félagslega eignarrétti boðveitukerfisins sjálfs tryggður aðgangur sem flestra sem vilja koma á framfæri í gegnum þetta veitukerfi dagskrárefni. Þetta er m. ö. o. hin lýðræðislega þróun sem við viljum móta og þetta er um leið grundvallarstefnumótandi ákvörðun að því er varðar þróun fjölmiðlasamfélags og tölvuvæðingu í þessu þjóðfélagi. Þannig er þetta allt ákaflega skýrt og skilmerkilegt.

Hv. þm. spyr: Er Alþfl. þar með að knýja fram skilyrði sem landsfundur sjálfstæðismanna setti? Það má orða það svo að með þessum tillöguflutningi séum við að gefa Sjálfstfl. kost á að fylgja eftir og standa við hluta af samþykktum sínum á landsfundi sem var um afnám einokunar Pósts og síma á dreifikerfinu. Till. okkar eru um heimildir sveitarfélaga, sveitarfélögin ráði þessu, og styðst við ákveðin efnisleg rök og um það hafa verið gerðar ákveðnar ályktanir á landsfundi Sjálfstfl. Að því leyti er þetta, eins og ég sagði, tilefni til að gefa Sjálfstfl. kost á að sýna að hann standi nú við sannfæringu sína í verki.

Það er merkilegt nokk. Það virðist ekki vera neinn ágreiningur milli flokka um það að af tæknilegum ástæðum sé æskilegt að einn aðili eigi þetta boðveitukerfi og í annan stað virðast allir flokkar hafa uppi einhverjar hugmyndir — ég veit ekki um Kvennalistann — um að æskilegt sé að þetta sé með einhverjum hætti í opinberri eigu. Það sjónarmið er stutt af BJ, það sjónarmið er stutt af Alþb., það sjónarmið er stutt af Alþfl., mér er tjáð að það sjónarmið eigi miklu fylgi að fagna í Framsfl. og þó ekki liggi fyrir um afstöðu Sjálfstfl. er hann a. m. k. á móti núverandi kerfi og mér er tjáð að mjög margir þm. gætu hugsað sér að styðja slíka till.

Ég leyfi mér þess vegna að vona, miðað við þessi rök, að þessi till. fái framgang og tel hana vera úrslita- og lykilatriði.

Ég minni á að hér liggur fyrir till. frá BJ sem er um það að setja sérstakar skorður við því að eigendum fjölmiðla, við skulum segja Morgunblaðið, Dagblaðið, SÍS eða aðrir slíkir aðilar, sé heimilt að eiga líka útvarpsstöðvar/sjónvarpsstöðvar samkv. heimildum í þessum lögum. Ég hef einhvern veginn ekki mikla trú á því að þetta ákvæði haldi, strangt tekið. Ég held það séu til ótal ráð til þess fyrir þessa aðila að mynda dótturfyrirtæki og fara fram hjá merkingu þessa lagaákvæðis. Hitt er annað mál að ef eignarrétturinn á sjálfu dreifikerfinu er ótvírætt í höndum eins aðila og ef það er félagslegur aðili eins og við gerum ráð fyrir, þá kemur það síður að sök vegna þess að með þessum tillögum um boðveitukerfið er verið að tryggja lýðræðislegan aðgang hinna mörgu og hugsanlega hinna smáu aðila, sem ekki hafa yfir miklu fjármagni að ráða, að þessari fjölmiðlabyltingu. Tækið er þá ekki einokað, það er opinn miðill.

Þetta á efnislega við um okkar tillöguflutning og er reyndar ekkert annað en einföld endurtekning á því sem ég sagði áðan og hefði þess vegna verið óþarfi að ítreka það ef hv. 3. þm. Reykv. hefði fylgst með því. Afstaða okkar er skilyrt. Við erum reiðubúnir að gera þetta að uppfylltum þeim skilyrðum að auglýsingataxtar verði undir verðlagseftirliti og að eignarrétturinn á boðveitukerfinu verði í félagslegri eign. Þess vegna hefði hv. 3. þm. Reykv. alveg getað sparað sér hjárænulegar glósur sínar um pólitíkina í málinu, þ. e. að boða hér einhvern stjórnarmyndunarmeirihluta.

Hins vegar skil ég ákaflega vel af hverju þetta er honum svona ofarlega í huga. Ástæðan fyrir því er sú að þegar hv. 3. þm. Reykv., formaður Alþb., fór hér um daginn knékrjúpandi á fund forseta Alþýðusambands Íslands á þar til gerðan sáttafund, þá gerði hann það ekki ótilneyddur og á bak við það liggja ákaflega augljósar forsendur. Upplausnin í Alþb. er nú komin á það stig að Alþb. er sá af flokkum stjórnarandstöðunnar sem má ekki hugsa til þess að til kosninga komi, að hér verði breytingar á stjórnarmeirihluta. Það er dagskipan flokksins, þó þetta lið sé tvístrað og sundrað, að undir engum kringumstæðum megi Alþb. halda þannig á málum að þeir atburðir kunni að gerast, jafnvel í kjarabaráttu vinnandi fólks, að þessi stjórn hrökklist frá völdum. Í krafti þessarar sameiginlegu kenningar er sáttargjörðin við forseta Alþýðusambandsins gerð. Í því skyni að réttlæta þetta fyrir erindrekum og áróðursmönnum flokksins hefur þeim rökum verið beitt að miðað við fylgisleysi og stefnuringulreið Alþb. nú liggi það alveg ljóst fyrir að ef gengið yrði til kosninga, ef þessi stjórn hrökklaðist frá völdum væru ákaflega litlar líkur á því að Alþb. hefði nokkra burði og nokkurt fylgi til þess að ná nokkurri valdaaðstöðu, jafnvel líklegt að það hryndi niður í þá félagslegu stöðu að vera jafnvel ekki kvensterkt eða jafnoki Kvennalista.

M. ö. o. er hv. 3. þm. Reykv. mesti áhugamaður um að þetta stjórnarsamstarf haldi áfram og gerir um það samkomulag víðs vegar um bæinn. Sá sem hér talar, formaður Alþfl., er hins vegar enginn áhugamaður um áframhaldandi stjórnarsamstarf og er reiðubúinn að ganga til kosninga sem og flokkur hans hvenær sem er. Þeim mun fyrr, þeim mun betra. Hitt er annað mál að það hefur engin ákvörðun verið tekin og liggur ekkert fyrir um það hvers konar stjórn yrði mynduð að þessu stjórnarsamstarfi loknu og er reyndar ekki hér á dagskrá, herra forseti. En mikið má það vera slæmt stjórnarmyndunarmynstur ef það væri ekki ögn skárra en þetta.

Þetta er sagt að gefnu tilefni og til þess að vísa þessum glósum til föðurhúsa. Það er vitað að innan Alþb., þó það skrifi bréf til stjórnarandstöðuflokka um landsstjórnarafl stjórnarandstöðuflokka, fylgir ekki hugur máli. Það er alveg vitað að verkalýðsforustan innan Alþb. á sér draum um sögulegar sættir og um aðild að nýrri nýsköpunarstjórn. Ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn að stuðla að því að raunsæir menn og róttækir og einlægir verkalýðssinnar í Alþb. ættu aðild að slíkri stjórn, reyndar reiðubúinn að stuðla að því að þeir fái að njóta sín í öðrum stjórnmálasamtökum, þ. e. sem róttækir sósíaldemókratar og verkalýðssinnar. Þá er það að verða berar með degi hverjum að þeir eiga litla samleið með hv. 3. þm. Reykv. og flokksforustu Alþb. Og það kann að vera að þeir ættu að stíga skrefið til fulls og hasla sér völl annars staðar en í því typpilsinna millistéttarbandalagi sem nú er að leysast upp fyrir augunum á okkur.

Þetta hefur hins vegar verið aukaatriði að því er varðar útvarpslögin. Aðalatriði málsins er að Sjálfstfl. er hér í nokkrum vanda. Honum er það mikið hugsjónamál að hinar nýju útvarpsstöðvar verði reknar á jafnréttisgrundvelli út á samkeppnishæfni, þ. e. hafi heimild til að afla auglýsinga. Nú standa mál þannig að Sjálfstfl. á völina og kvölina. Hann getur hugsanlega fengið þessu máli framgengt gegn því að taka afstöðu til þess, sem er aðalatriði málsins, að miðillinn sjálfur, dreifikerfið, verði í höndum sveitarfélaga sem tryggi lýðræðislega þróun fjölmiðlamála hér á næstu árum. Nú reynir á hvort Sjálfstfl. tekur því að styðja við þetta mál, koma þessu máli fram að þessum skilyrðum fullnægðum. Hvaða áhrif það hefur svo á stjórnarsamstarfið hef ég nú ekki miklar áhyggjur af. Ég veit hins vegar að þó að Framsfl. yrði eitthvað beygður í þessu máli, sem er ekki útséð um, mun hann halda fast við stefnu sína eftir sem áður. Framsfl. er stefnufastur flokkur og stefna hans er aðeins ein. Hún er sú að lafa í ríkisstjórn hvenær sem er, með hverjum sem er, um hvað sem er, svo fremi að hagsmunir SÍS séu tryggðir. Þannig eru litlar líkur á að Framsfl. hlaupi nokkuð út úr ríkisstj., jafnvel þótt hann yrði að sæta því að málið fengi hér þann framgang að auglýsingar yrðu heimilaðar undir verðlagseftirliti.

Hann ætti hins vegar að sjálfsögðu kost á því að styðja við það félagslega sjónarmið að boðveitukerfin yrðu að veruleika í eigu sveitarfélaga.