09.05.1985
Efri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5015 í B-deild Alþingistíðinda. (4284)

106. mál, tannlækningar

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. 8. landsk. þm. að fæðing þessa máls í nefndinni hefði verið erfið og áreiðanlega á við erfiðasta tanndrátt án allrar deyfingar. Ég get fyllilega tekið undir þau orð, enda er hér um að ræða mál sem mér var orðið skapi næst að leggja í salt eða blásýru til þess að því ótrúlega þrasi um smámuni, sem þar hefur verið á ferðinni, mætti linna, en nú kemur til Nd. að taka þar upp þráðinn vafalaust og verði þeim að góðu þar.

Ég vil taka það fram að í öllu þessu máli hefur formaður hv. heilbr.- og trn. lagt sig í framkróka um að reyna að samræma öll sjónarmið í þessari nefnd. Þau voru auðvitað mismunandi um sumt, sumt smátt, annað nokkru stærra, en kannske að miklu leyti, eins og kom fram í máli hv. 8. landsk. þm., spurning um skilning á ákveðnum hlutum og hugtökum í þessu frv.

Ég hafði satt að segja vonast til þess að öll sú mikla vinna sem í þetta hefur verið lögð af hálfu n., sem er ófáir klukkutímar með ekki stærra frv., yrði til þess að við gætum öll gengið einn veg, en við því er að sjálfsögðu ekkert að segja þó að einstakar brtt. komi fram og skal ég síst hafa á móti því.

Ég ætla ekki að fara út í efnislegar umr. um brtt. þær sem hér eru komnar fram frá hv. 8. landsk. þm., en segja það þó aðeins varðandi 1. brtt. að hér er að mínu viti um að ræða leifar gamalla reglugerðarákvæða um skyldu lækna til þess að gegna starfi í héraði sem blessunarlega hefur ræst úr með uppbyggingu heilsugæslukerfisins um landið allt og er orðið óþarft hvað þá stétt snertir, enda ekki lengur talið hæfilegt eða mögulegt að ganga þá braut. Ég held að við eigum ekki heldur að gera þetta varðandi tannlæknana þó að ég leggi áherslu á það að að sjálfsögðu ber heilbrrn. á hverjum tíma að reyna að sjá til þess að alls staðar þar sem aðstaða er fyrir hendi sé tannlækningum sinnt, enda gert verulega mikið í því af rn. að gera slíkt. Ég tel því þessa heimild fyrir ráðh. um skilyrði fyrir leyfi, þ. e. skilyrði fyrir tannlækningaleyfi, ansi stíft skilyrði og miðað við það hvernig þessi mál hafa þróast varðandi lækna vona ég að til þessa þurfi ekki að koma og till. sé þar af leiðandi óþörf.

Varðandi 2. brtt., þá ræddum við ákaflega mikið um þessa gífurlega þýðingarmiklu stétt sem hér var nefnd áðan, sem heita tannfræðingar og hefur tröllriðið þessari nefnd aliverulega í allri umfjöllun málsins. Ég geri ekki lítið úr starfi þessa fólks, síður en svo. Mér skilst að það séu skv. upplýsingum rn. 2–3 slíkir hér á landi. Eflaust á þeim eftir að fara fjölgandi eins og öllum öðrum fræðingum. Ég tel sjálfsagt að þeir njóti þess réttar sem þeir eiga skv. sínu starfi og fái þann rétt að miklu leyti með því frv. sem við vorum að fjalla um í gær varðandi starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, hljóti reyndar að fá hann þegar þeir hafa myndað sitt stéttarfélag og sótt á um heimildir til ráðh. um það.

Ég segi hins vegar alveg eins og er að það er ekkert spaug fyrir okkur nm., — sem öll höfum lagt í það þann skilning að þessi heimild væri fyrir hendi og að þetta sérhæfða aðstoðarfólk gæti vissulega annast fræðslu og varnir gegn tannsjúkdómum, gæti annast hana í dag, það væri ekkert sem meinaði þeim það, — að þurfa svo að fara að fella till. um að því skuli heimilt að annast þetta. Ég treysti mér ekki til þess. Ég sé mig tilneyddan til að greiða þessari till. atkv. og lýsti því yfir í nefndinni að ég teldi ekki fært að fella þetta hér í þinginu því að þar með værum við auðvitað að snúa skilningi okkar nm. allra annarra við í þessu efni. Það er einfaldlega þess vegna. En mér þykir miklu miður að við skyldum ekki ná saman um þann skilning sem kæmi þá skýrt fram eins og kom að hluta til greinilega fram í máli frsm. n. á sínum tíma um hvað í þessu fælist. Ég held að hv. flm. þessarar brtt. taki þá áhættu með þessu að þessi heimild verði felld og ég skil ekki hvað vakir fyrir hv. flm., þegar skilningur var svo almennur í nefndinni fyrir túlkun þessa, að stuðla að því að heimild af þessu tagi verði felld sem ég óttast að muni verða hérna en ég mun ekki treysta mér til að standa að sem slíku.

Mér er nú ansi skylt málið varðandi 4. og 5. brtt. því að ég sótti það mjög fast á sínum tíma við þáv. hæstv. heilbrrh. að í rn. hans væri ráðinn yfirtannlæknir. Það var og gert, en með mjög takmörkuðu erindisbréfi, ef nokkru þá, og mjög takmarkaðri stöðu þar einnig. Ég undirstrika það hver þessi staða eða réttara sagt stöðuleysi yfirtannlæknisins er sem eins konar deildarstjóra í rn. Hann hefur ekki sjálfstæði þar sem slíkur, heldur þarf að bera allt undir ráðuneytisstjóra og ráðh. varðandi hvert mál sem hann fjallar um, ég tala nú ekki um ef koma upp þau mál sem hér er um að ræða þar sem er um að ræða vanrækslu í starfi og annað því um líkt. Miðað við stöðu yfirtannlæknis er þetta algerlega út í bláinn. Ég hefði hins vegar virkilega viljað sjá það, og gæti tekið undir þá hugsun sem ég veit að felst að baki þessarar brtt. hjá hv. 8. landsk. þm., að yfirtannlæknir hefði ákveðna stöðu í heilbrigðiskerfinu, kannske ekki alveg eins sterka og landlæknir, kannske við hlið hans, og þá hefði ég getað stutt þessa till. ef þar hefði verið um sjálfstætt embætti að ræða sem hefði með slík mál að gera eins og þarna er um fjallað og hefði þar eitthvert valdsvið eins og landlæknir. En það er algerlega vonlaust, að mínu viti, eins og þessi málastaða er. Það er algerlega vonlaust að setja landlækni og yfirtannlækni, landlækni með sitt sjálfstæða gróna embætti og sitt sjálfstæða valdsvið og yfirtannlækni sem deildarstjóra, ef má þá kalla hann það, í rn. með jafntakmörkuð völd og jafntakmarkað verksvið og hann er með þar enn þá og jafnóákvarðað og það er, — vonlaust að setja þessa tvo aðila þarna saman. Það er útilokað.

Hv. 8. landsk. þm. kom með till. í n. um sjúkraskrárnar. Ég taldi að við hefðum þar gert málamiðlun sem ég héli að hefði verið stórt spor í þessa átt. Hv. 8. landsk. vill ganga lengra. Ég tel ákvæðið sem við samþykktum fullnægjandi og mun þar af leiðandi ekki greiða þeirri till. atkv.