09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5018 í B-deild Alþingistíðinda. (4288)

403. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er skilað nál. um fjallar um breyt, á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála. Meginefni þess er að lögum verði breytt á þann veg að mál vegna meiri háttar skatta- og efnahagsbrota skuli að jafnaði sæta meðferð í Reykjavík. Eins og fram kemur í grg. er tilgangurinn með því að stefna þessum málum fyrir sakadóm Reykjavíkur og er því gert ráð fyrir í lögunum að hann skuli efldur og getur dómur kvatt einn eða tvo kunnáttumenn til dómstarfa með sér í málum þar sem sérkunnáttu þykir sérstök þörf. Það er ríkissaksóknari sem getur kveðið á um þessi atriði.

Hér er fyrst og fremst um að ræða mál vegna meiri háttar skatta- og efnahagsbrota og segir í frv. að þau skuli að jafnaði sæta meðferð í Reykjavík. Þessi mál, skattabrot og efnahagsbrot, eru mjög flókin mál og þykir rétt að svo sé gengið frá að sérfróðir menn í þeim efnum fjalli um þau og er þá sérhæfing dómara skilyrði fyrir því að unnt sé að fjalla um þessi mál á viðunandi hátt.

Nefndin hefur rætt þetta mál allítarlega og fengið álit formanns Sýslumannafélagsins, Jóhannesar Árnasonar sýslumanns, sem er samþykkur þessari skipan mála. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.