09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5020 í B-deild Alþingistíðinda. (4292)

164. mál, kerfisbundin skráning á upplýsingum

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður talaði um í sambandi við endurskoðun þessara laga, að á þessu sviði á sér stað gífurlega hröð þróun og ég held að það sé nauðsynlegt að unnið sé skipulaga að slíkri endurskoðun í stað þess að vera að koma með breytingar sem oft og tíðum ná þá ekki til heildarlaganna heldur einstakra atriða.

En það er eitt sem ég vildi nefna í þessu sambandi þó að það eigi ekki heima í þessum lögum. Ég held að það hljóti að koma að því að kannað verði að setja löggjöf um tölvuvinnslu í sambandi við bókhald og annað slíkt. Það er einmitt á því sviði sem einkum og sér í lagi efnahagsbrot á tölvusviðinu eiga sér stað. Það hafa þegar komið upp mál hér þar sem ýmsum slíkum ráðum hefur verið beitt, jafnvel forritun breytt á þann veg að falsa bókhald. Það eru einkum og sér í lagi þeir sem starfa að því að búa til slíkt bókhaldsforrit sem þarf að vernda fyrir slíkum aðgerðum. Það verða að vera skýr ákvæði um hvar ábyrgð liggur í slíkum tilvikum. Ég vil beina því til réttra aðila að þau mál verði tekin til athugunar með það fyrir augum að löggjöf verði sett um það efni.