09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5022 í B-deild Alþingistíðinda. (4297)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Á þskj. 883 flytjum við hv. 8. landsk. þm. og sá sem hér stendur brtt. við frv. til laga um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Þessi brtt. er ekki viðamikil. Hún fjallar eingöngu um það að úr þessum lögum verði felld 10. gr. laganna. 10. gr. er í II. kafla núgildandi laga og í henni segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú næst ekki einróma samkomulag í Verðlagsráði um verð í einstökum atriðum eða um verð sjávarafla í heild fyrir tilskilinn tíma og skal þá vísa ágreiningsatriðum til sérstakrar yfirnefndar með grg. um þau atriði sem samkomulag er um.“

Síðan segir um skipan þessarar nefndar að hún skuli skipuð fimm mönnum, tveimur tilnefndum af fiskseljendum, tveimur tilnefndum af þeim aðila sem ágreiningurinn er við og að lokum einum oddamanni sem skal vera forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar eða fulltrúi hans. Þannig skipuð fellir yfirnefndin fullan úrskurð um ágreiningsatriði og ræður meiri hl. atkvæða úrslitum.

Þessi grein þessara laga hefur valdið því síðan að lögin voru samþykkt með þessum ákvæðum að ákvörðun fiskverðs hefur verið ákvörðun ríkisins, ákvörðun þess fulltrúa sem í þessari yfirnefnd situr fyrir hönd þjóðhagsstofnunar og þar af leiðandi fulltrúi ríkisins. Að formi til hefði í raun og veru mátt halda því fram að skipan þessarar yfirnefndar væri óþörf að því leyti að hið endanlega ákvörðunarvald lá hjá oddamanninum úr Þjóðhagsstofnun og Þjóðhagsstofnun hefur þess vegna alveg eins getað gefið út verð á fiski með ákveðnu millibili og fullnægt þannig þeim skyldum sem þessum lögum er gert að uppfylla.

Þessi ákvörðun, sem þannig er tekin, hefur ekki sýnt sig að okkar mati — og ég held reyndar að við séum ekki alveg ein um það — að taka það tillit til hagsmuna viðskiptaaðila á þessu sviði, þ. e. fiskkaupenda og fiskseljenda, að þessi aðgerð hafi getað viðhaldið eðlilegri þróun og eðlilegum viðgangi viðskipta á þessu sviði. Þvert á móti held ég að það megi leiða að því nokkuð sterk rök að þessi afskipti ríkisins, í samhengi við önnur afskipti þess af þeim málum sem snerta sjávarútveg, hafi í tímans rás haft mjög óheillavænleg áhrif og séu að nokkru leyti, ef ekki að öllu leyti, ein aðalorsök þess vanda sem við búum við í dag.

Það að fella þessa grein úr lögunum þýðir að nokkru leyti að koma á því sem sumir menn kalla „lögmál frumskógarins“ í þessum málum, þ. e. að með því er sett fram sú krafa að samningsaðilar semji um verð sín á milli án íhlutunar eða þátttöku ríkisvaldsins. Nú geta menn komið hér upp sem reynsluna hafa og sagt: Þannig var það einu sinni og það gekk svo illa. Þá erum við aftur komin að umr. með mjög svipuðum hætti og fór fram hér í þessari hæstv. deild í gær, þ. e. um Sölustofnun lagmetis, þ. e. að aðilar, sem eiga að vera — og að öllu jöfnu víðast hvar í okkar nágrannalöndum gera þeir það — fullfærir um að semja um hlutina sín á milli, gefast upp fyrir þeim vandamálum sem þeir eiga að berjast við og biðja um ríkisforsjá, biðja nánast um það að vera handjárnaðir og leiddir af hinni mildu hönd ríkisins í þessu máli.

Ég sat í morgun á nefndarfundi í þessari hv. deild og við fjölluðum þar um lög um kirkjusóknir og sóknarnefndir. Þessi lög eru að því leyti algerlega hliðstæð þeim lögum sem hér er verið að tala um að þar er kirkjuþing að biðja Alþingi að taka ábyrgð á nánast öllum þeim málum sem manni með eðlilegum hætti finnst að kirkjan ætti sjálf að sjá um. Það er mjög greinilegt í dag, hvort sem það má kalla ríkisforsjá eða einfaldlega skort á þreki til að sjá um sín eigin mál, að tilhneiging er mjög almenn til að hnýta saman hagsmuni sína og hagsmuni ríkisins.

Í ræðu minni í gær um Sölustofnun lagmetis benti ég á að allar starfsstéttir á þessu góða landi geta krafist þess með mjög svipuðum rökum og yfirleitt eru færð í málum sem þessum, hvort sem um er að ræða íslenska kirkju eða íslenskan sjávarútveg, að ríkið taki að sér að ákveða og stjórna þessum málaflokki eins og það telur best og hafa þar með eftirleiðis engar áhyggjur af því hvernig þessum málum reiðir af aðrar en þær að geta hugsanlega gagnrýnt öðru hvoru ákvarðanir ríkisvaldsins þegar svo býður við að horfa en að öllu jöfnu taka þeim með þegjandi samþykki og algerlega láta hjá líða að gera minnstu tilraun til að breyta þeim.

Við þm. BJ höfum tvisvar sinnum flutt frv. til l. um breytingu á þessum lögum, þ. e. lögum nr. 81 frá 23. júlí 1974, þar sem við leggjum til að 10. gr. laganna verði felld niður og þar með tekið fyrir bein afskipti ríkisvaldsins af verðákvörðunum á sjávarafla og þá tekið fyrir ábyrgð ríkisins á þessari ákvörðun. Þessi hlutdeild ríkisins í verðákvörðuninni hefur á undanförnum árum — og það er ómótmælanlegt — leitt til gengisfellinga, upptöku gengismunar, dreifingu uppsafnaðs söluskatts og allrar þeirrar leikfimi og hundakúnsta sem ríkisvaldinu hefur þótt skynsamlegt að við hafa til að halda rekstri sjávarútvegs einhvers staðar í kringum núllpunktinn.

Frsm. n. gat þess í framsögu sinni að Kolbrún Jónsdóttir hv. þm. væri að öðru leyti samþykk öðrum greinum þessa frv. Út af fyrir sig er fátt í þeim sem er gagnrýnivert. Það kemur manni eins og brandari fyrir sjónir þegar menn koma betlileiðina til n. og biðja um að fá að vera þátttakendur í verðákvörðun á þeim afla sem þeir sjálfir afla. Að það skuli yfir höfuð vera ágreiningsatriði eða hafa verið það hingað til. En ég fyrir mitt leyti vil láta það koma fram hér að ég tel þessa 10. gr. vera algert kjarnaatriði í þessu frv. og að frv. standi og falli með henni í raun og veru. Ef þessi 10. gr. er ekki fyrir hendi þarf þetta frv. ekki og ef brtt. fellur mun ég þess vegna greiða atkvæði gegn frv. í heild.