09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5030 í B-deild Alþingistíðinda. (4308)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta ekki löng athugasemd. Þegar ég kom hér fyrst á þing upplifði ég það að einn hv. þm. óskaði eftir því að gera örstutta athugasemd og talaði í klukkutíma. Þetta er því ansi stutt.

Út af þessari brtt. snýst þetta mál allt saman. Ég játa að mér finnst margt ekki svaravert af því sem hv. síðasti þm. sagði. Ég skil ekki hvaða samhengi er á milli þess hvað formaður Alþfl. segir í blöðum og skoðunum manna á fiskverði eða fyrirkomulagi Verðlagsráðs. Þarna er verið að bera saman allt aðra hluti sem ekkert samhengi er á milli.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig stendur á því að menn bera fram frumvörp og brtt. um málefni sem þeir geta ekki útskýrt. Ég hef ekki fengið neinar útskýringar á því hvað á að koma í staðinn fyrir það sem verið er að tala um hér. Ég hef ekki fengið neinar útskýringar á því, það hefur enginn fengið hér. Það er furðulegt að tala svona út og suður.

Þar fyrir utan undrast ég svona málflutning BJ almennt. Í blöðum kemur það t. d. fram að þeir vilja afnema þingræðið. Nú vilja þeir afnema Verðlagsráð. Hvað verður næst? Þetta eru mál sem menn þurfa að hugsa um hvað úr hverju.

Ég lýsti því yfir áðan að við viljum mjög gjarnan skoða það hvernig hægt er að breyta þessum málum og koma því þannig fyrir að þetta sé ekki njörvað í það kerfi sem verið hefur. En ég sé ekki fyrir mér hvernig má breyta þessu á þann hátt sem hér er gerð till. um. Það er ekki nóg að rugla fram og til baka um einhverja útópíu án þess að gera sér grein fyrir því hvort verið er að gera þjóðfélaginu rangt til eða gera það að verkum að þeir sem hagsmuna hafa að gæta, sjómanna, útvegsmanna, verkafólk, þurfa að líða fyrir það. Ég er nefnilega sannfærður um að ef Verðlagsráð yrði lagt niður eða svokallaður oddamaður þá yrði það til þess að þessir aðilar mundu bíða stórtjón af, einkum þeir sem eiga heima úti á landsbyggðinni, einkum þeir sem ekki eru hér á aðalbankasvæðinu. Það er kannske það sem menn vilja. Það verður þá að vera ljóst. Það verður að vera ljóst því fólki; sem hefur orðið þess valdandi að svona skoðanir komast hingað inn í þingið, að það er einmitt hugsunin að fólkið úti á landi, sjómennirnir, verkafólkið, útvegsmennirnir, þurfi að gjalda þeirra gerða hér inni á Alþingi.