09.05.1985
Efri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5031 í B-deild Alþingistíðinda. (4310)

209. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Mér koma dálítið ókunnuglega fyrir sjónir þær fullyrðingar sem hv. 8. landsk. var með hér í ræðustól um það að formaður þeirrar nefndar, sem vann að undirbúningi þessa frv., hefði lagt það til að oddamaður yrði (Gripið fram í: Fulltrúi Alþfl.) Fulltrúi Alþfl., Sighvatur Björgvinsson, jæja, þá liggur sú skýring á hreinu. En ég kannaðist ekki við að það hefði komið frá formanni nefndarinnar.

Það er búið að spjalla það mikið um þessa brtt. hér að það er varla á bætandi. En um það að fyrst og fremst sé verið að hverfa frá eða losna við ríkisafskipti með því að leggja Verðlagsráð niður eða fella þessa 10. gr. úr þá held ég að það sé byggt á ansi miklum misskilningi vegna þess að lögin eru fyrst og fremst samkomulagsplagg milli útvegsmanna, sjómanna og ríkisins um hvernig þessir hlutir skuli framkvæmdir. Það er ekki verið að gera þessa hluti fyrst og fremst að ósk ríkisvaldsins heldur sem samkomulagsatriði milli þessara þriggja aðila vegna þess að þessir þrír aðilar gera sér vel grein fyrir því að ef eitthvert slíkt form væri ekki fyrir hendi mundi í mörgum tilfeilum skapast vandræðaástand í sambandi við verðlagningu fisks. Ég sé ekki hvers lags vandræðaástand þá mundi skapast. Eins og hér kom fram áðan mundi það fyrst og fremst bitna á aðilum sem gera út úti um land. Það er auðveldara að leysa þessi mál á þéttbýlissvæðinu, koma fyrir afla við hinar breytilegustu aðstæður, en að leysa þau mál á landsbyggðinni.