09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5038 í B-deild Alþingistíðinda. (4331)

47. mál, barnalög

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það er rétt hjá tveim hv. síðustu ræðumönnum að þetta ákvæði sem hér er til umræðu er algjört undantekningarákvæði og heimildarákvæði. Annað í málflutningi þeirra er dálitið málum blandað. Þetta er sérstakt ákvæði sem ég hygg að þeir sem sömdu barnalögin hafi gert sér fulla grein fyrir. Ef ég man rétt er þetta ákvæði aðeins til í dönsku barnalögunum frá 1960.

Það dylst engum að barnalögin gengu í þá átt að halda fram rétti barnsins og að jafna rétt barna. Um það verður ekki deilt. Þau voru samin af færustu mönnum þar sem hver grein var hugsuð út af fyrir sig svo og lögin í heild í náinni samvinnu við bestu fræðimenn í þessum efnum á Norðurlöndum.

Eins og ég sagði áðan eru þessi ákvæði barnalaganna samtvinnuð ákvæðum almannatryggingalaga og þau eru þó í endurskoðun hvenær sem henni lýkur. Ég vona að það verði sem fyrst. Þó að barnalögin séu ekki eldri en frá 1. janúar 1982, þá væri sannarlega full ástæða til þess að mínum dómi að kveðja til þá nefnd, sem samdi barnlögin, til að skoða greinar þeirra hverja fyrir sig enn og aftur og bera saman við reynslu af framkvæmd þeirra nú á síðustu árum, því að sannarlega eru þessi lög erfið í framkvæmd. Og erfitt er að semja svona lög.

Ég vil að síðustu taka það fram að það er einnig mjög erfitt og jafnvel varhugavert að taka eina grein út úr svona lagabálki og krefjast breytinga á henni. Lögin þarf að skoða öll í heild.