09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5042 í B-deild Alþingistíðinda. (4337)

146. mál, sjómannalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til sjómannalaga. Þetta frv. var lagt fram á síðasta Alþingi og þá vísað til samgn. í Ed.

Fyrstu almennu siglingalög Íslendinga eru frá árinu 1913, en voru ári síðar, 1914, endurútgefin sem lög. Þar er að finna allítarleg ákvæði um réttarstöðu sjómanna. Árið 1930 voru ákvæði um kjör skipshafnar og skipstjóra numin úr siglingalögum og þau endurskoðuð og sett í sjómannalög það ár.

Núgildandi sjómannalög eru frá árinu 1963. Þau eru að mörgu leyti unnin að fyrirmynd laga annarra Norðurlandaþjóða, en breyting var gerð á 18. gr. þeirra laga árið 1980 þar sem aukin voru réttindi sjómanna til greiðslu launa í veikinda- og slysatilfellum til samræmis við aukin réttindi landverkafólks á þessu sviði.

Á síðustu tveimur áratugum hefur orðið talsverð þróun í kjaramálum sjómanna sem og annarra launþega og hafa aðrar Norðurlandaþjóðir þegar endurskoðað sín sjómannalög. Þar sem ljóst þótti að gildandi sjómannalög þyrftu endurskoðunar við skipaði fyrrv. samgrh. nefnd 8. sept. 1981 til að endurskoða gildandi siglingalög og sjómannalög, aðallega um réttindi og skyldur sjómanna og útvegsmanna í veikinda- og slysatilfellum sjómanna, svo og líf- og öryggistryggingu sjómanna og gildissvið þeirra trygginga.

Í þessari nefnd áttu sæti fulltrúar tilefndir af Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda og Vinnuveitendasambandi Íslands vegna kaupskipaútgerðar, en Páli Sigurðsson dósent var skipaður formaður nefndarinnar.

Því frv. sem lagt var fram á síðasta þingi og aftur nú í haust og hefur legið fyrir Ed. í vetur er skipt í sex kafla. Í l. kafla eru almenn ákvæði um gildissvið laganna og skýrð eru meginhugtök sem notuð eru í frv. II. kaflinn fjallar um ráðningarsamninga o. fl. Ákvæði kaflans eiga sér að nokkru leyti fyrirmynd í gildandi sjómannalögum. III. kaflinn er um rétt skipverja til að krefjast lausnar úr skipsrúmi. Þar eru nokkrar breytingar og nýmæli frá gildandi lögum. Í IV. kafla er fjallað um rétt skipstjóra til að víkja skipverja úr skiprúmi. Um þetta eru nú ákvæði í lögunum frá 1963, en það er nýmæli í síðari hluta að sá sjómaður sem starfað hefur í 15 ár eða lengur í þjónustu sama útgerðarmanns á rétt til sérstakrar uppbótar sem nemur eins mánaðar launum. V. kaflinn fjallar um kaup skipverja, en ákvæði þessa kafla fjalla að nokkru leyti um það sama og nú er í 18.–25. gr. laganna frá 1963. VI. kaflinn er um umönnun og kaup sjúkra skipverja og er ítarlegur kafli um þessi atriði.

Í Ed. varð samkomulag um afgreiðslu þessa frv. og voru gerðar á því nokkrar breytingar, við 6., 8., 18., 23., 36. og 64. gr. frv. Þessar brtt. koma fram á þskj. 850. Það er ekki um efnismiklar breytingar að ræða að undanskilinni 6. gr.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um þetta frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.