09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5049 í B-deild Alþingistíðinda. (4351)

363. mál, lagmetisiðnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur fengið meðferð í hv. Ed. Það fjallar um breytingar á lögum nr. 58 frá 4. júní 1981, um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins með síðari breytingum, en þær hafa verið tvær að segja. Á tveggja ára fresti hafa þessi lög verið framlengd og renna sitt skeið á enda hinn 31. des. n. k.

Með frv. þessu er lagt til að framlengdur verði gildistími þeirra ákvæða laga um lagmetisiðnað og Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins er varðar Sölustofnun lagmetis. Frv. er flutt skv. tilmælum sölusamtaka lagmetisiðnaðarins, en stjórn Sölustofnunar lagmetis telur mikilvægt að stofnunin hafi áfram einkarétt til að annast sölu á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum til landa þar sem er ríkiseinokun, þar sem ríkið sjálft eða aðili fyrir þess hönd er aðalkaupandi og raunar eini kaupandi.

Rök fyrir einkarétti eru m. a. þau að í löndum Austur-Evrópu þar sem eru mikilvæg markaðssvæði fyrir íslenskt lagmeti er hvarvetna einn kaupandi og því ekki um neina samkeppni að ræða kaupandamegin. Slíkur kaupandi væri því, ef ekki nyti við einkaréttar Sölustofnunar lagmetis, í aðstöðu til að fara milli seljenda á Íslandi og freista þess að fá verðið lækkað. Slík tilhögun mundi verða íslenskum seljendum í óhag.

Þykir því rétt að bregðast við þessu með áframhaldandi einkarétti og jafna þar með samningsaðstöðuna.

Ég hafði lagt til við frv.-fiutninginn í Ed. að breytt yrði um tilnefningu í stjórn sjóðsins, en á það var ekki fallist. Enn fremur að lögin yrðu framlengd um fimm ár. Því breytti hv. Ed. í þrjú ár. Ég hafði lýst því yfir við umræðuna að ég hefði ekkert af minni hálfu við þá meðferð að athuga.

Ég legg svo til, herra forseti, að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.