09.05.1985
Neðri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5063 í B-deild Alþingistíðinda. (4356)

480. mál, greiðslujöfnun fasteignaveðlána

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki mjög miklu við ágætar ræður tveggja síðustu hv. ræðumanna að bæta. Þó eru það örfá atriði sem ég hefði viljað drepa á og inna hæstv. félmrh. ofurlítið eftir í tengslum við frv. sem hann hér flytur um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

Þetta er, herra forseti, svo sorgleg saga, saga húsnæðismálanna í tíð hæstv. ríkisstj., að það jaðrar við að draga þurfi fána í hálfa stöng og leika sorgarlög í útvarpi þá daga sem hv. Alþingi hefur þau til meðferðar. Orðhagur maður af landsbyggðinni komst svo að orði í grein sem hann ritaði um húsnæðismál fyrir skömmu að öll hefðu hin glæstu loforð verið svikin, loforðin um 80% lánin og allt það, sum þeirra jafnvel áður en þau hefðu verið gefin. Ég hygg að það sé fullmikið sagt, en þau voru a. m. k. ekki orðin mjög gömul, lánin, þegar fyrstu vanefndirnar á framkvæmdum þeirra litu dagsins ljós og síðan hefur þetta verið ein skriða niður brekkuna hjá hæstv. ríkisstj.

Nú rofar örlítið til, að segja má, a. m. k. fyrir sjónum hæstv. félmrh., og batnandi manni er auðvitað best að lifa þó að batinn sé hægur. Hann hefur m. a. tekið mið af þeim tillöguflutningi stjórnarandstöðunnar hér á hv. Alþingi að það sé ein óhæfa að ætlast til þess að launþegar, sem tekið hafa á sig mikla kjaraskerðingu, greiði allar sínar fjárskuldbindingar, þar með talin húsnæðislán, skv. „ránskjaravísitölu“ sem mæli á fullu þrátt fyrir hina lögbundnu skerðingu á kaupi. Að því leyti til er sú hugsun góð, sem liggur til grundvallar þessu frv. hæstv. félmrh., að í því felst nokkur viðurkenning á því að þetta misræmi gangi ekki, svona sé ekki hægt að fara með fólk. Þetta er e. t. v. fyrsta vísbendingin um að ríkisstj. sýni lit og viðurkenni í verki að henni skjátlaðist. Sú aðferð, sem hún ætlaði að nota við grundvallarstjórnun efnahagsmála, er röng og hún gengur ekki upp. Og það má segja hæstv. félmrh. til hróss að hann er þó fyrsti ráðh. í hæstv. ríkisstj. sem áttar sig á þessu eða a. m. k. sýnir það í verki.

Hitt er svo annað mál að útfærslan í þessu frv. er gölluð og engan veginn nóg. Ránskjaravísitalan, eins og við höfum nefnt þá vísitölu sem verðtryggt hefur það fjármagn sem bundið er í húsnæðislánum, heldur í raun og veru áfram, hún mælir á fullu lánin, fjármagnið er áfram verðtryggt skv. „ránskjaravísitölu“. Á endanum verða menn látnir gjalda þess misgengis sem orðið hefur milli kaupgjalds og lánskjaravísitölu. Það er alveg ljóst. Og það sem gerist er það að þeirri kynslóð, þeim mönnum sem voru svo óheppnir, sem urðu fyrir þeim ósköpum vil ég segja að vera með lán þegar þessi ríkisstj. kom til valda og taka lán í hennar tíð, þessari kynslóð verður fórnað. Hún verður áður en lýkur látin greiða þennan mismun. M. ö. o.: hennar eignir, þessir hennar peningar, hafa verið teknir af henni þegar upp verður staðið. (FrS: Hver samþykkti ránskjaravísitöluna í upphafi? Hvaða ríkisstj.?) Hver afnam vísitölubindingu launa með lögum og skerti kaup um 25–30 % , hv. 2. þm. Reykv? Hvaða ríkisstj. stóð fyrir því á sínum fyrstu dögum? Það eru hennar verk sem við erum hér að tala um.

Þetta er ekki ný hugsun í sjálfu sér, að það gangi ekki til að liða slíka þyngingu á greiðslubyrði lána. Hæstv. fyrrv. félmrh. hafði gert sér grein fyrir þessu fyrir alllöngu og var með frv. hér í þinginu sem ákveðnir menn komu fótum fyrir og væri nú betur að það hefði ekki gerst. Þá væri staða þessara mála önnur. Sá sem hér talar hefur fyrir alllöngu flutt frv. um að afnema þetta misrétti og væri betur að hæstv. ríkisstj. hefði haft manndóm í sér til að viðurkenna mistök sín fyrr og taka undir með þeim þm. stjórnarandstöðu sem þegar hafa lagt fyrir Alþingi tillögur til úrbóta í þessum efnum. (JBH: Gerðum það strax 1982.) Hér segir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að þegar á árinu 1982 hafi fleiri vitkast. Þá hafi þeir Alþfl.-menn verið búnir að átta sig á því að raunvaxtastefnan eða hávaxtastefnan svonefnda gekk ekki upp hvað þetta varðaði, hún var hættuleg, og það er auðvitað gott að Alþfl. var svo fljótur að átta sig á því hvaða afleiðingar hans eigið afkvæmi gæti haft fyrir m. a. húsbyggjendur.

Þetta ákvæði er einnig þekkt frá nálægum löndum og þó að við Íslendingar séum stolt þjóð er ekkert að því að þiggja stundum góð ráð frá nágrönnum okkar. Það eru í húsnæðismálalöggjöf nágrannaþjóðanna ýmis rauntekjuákvæði skyld því sem hér er til umfjöllunar og því ekkert eðlilegra en að við hefðum litið til þess, enda skilst mér að hv. þm. Svavar Gestsson hafi í sinni félagsmálaráðherratíð haft slík ákvæði til viðmiðunar þegar hann stóð að tillöguflutningi í þessum efnum sem ekki náði fram að ganga, því miður, eins og ég hef áður sagt.

Þetta frv., eins og ég áður sagði, er þessi viðurkenning á því að ríkisstj. er að átta sig, en að öðru leyti er naumast nokkuð jákvætt hægt um það að segja. Ég treysti mér a. m. k. ekki til að gera það. Það gengur allt of skammt að mínu viti. Það hefur þennan megingalla, í því felst þetta óréttlæti að ég tel, að þeirri kynslóð, sem orðið hefur fyrir þessari skerðingu, þessum mismun, verður fórnað. Hún á ekki, þegar upp verður staðið, að fá leiðréttingu sinna mála. Auðvitað tekur þetta frv. eingöngu til þeirra lána sem eru hjá byggingarsjóðunum, en það er vitað og viðurkennt að vandi húsbyggjenda liggur að verulegu leyti annars staðar og ríkisstj. sýnir hvað þetta varðar engan lit á því að bregðast við því. Það er a. m. k. allt ófrágengið.

Það er þó að mörgu leyti alvarlegast, ef þetta frv. á að vera það einasta sem kemur frá hæstv. ríkisstj. í húsnæðismálum á yfirstandandi þingi, að ekkert er tekið á þeim fjárhagsvanda sem byggingarsjóðirnir og húsnæðiskerfið allt á í. Ríkisstj. sýnir ekki lit í þeim efnum. Það er meira að segja ekki, að mér skilst, gert á nokkurn hátt ráð fyrir þeim afleiðingum sem þetta frv. mun hafa á fjárhag byggingarsjóðanna. Ég spyr hæstv. félmrh. að því: Verða gerðar breytingar til að mynda á þeim tölum sem í lánsfjáráætlun eru og snerta húsnæðismál til að leiðrétta þá fyrir þeim áhrifum, sem samþykkt þessa frv., ef að lögum verður, hefur óhjákvæmilega á afkomu byggingarsjóðanna? Lágmark er að hæstv. félmrh. svari þessu.

Síðan er það í fjórða lagi að mínu viti mjög slæmt og sýnir hversu skammt á að ganga að það skuli þurfa að sækja sérstaklega um að fá að greiða af lánum með þessu nýja greiðslumarki. Það á m. ö. o. ekki að leiðrétta þetta misrétti fyrir alla eða létta undir með öllum, heldur einungis þeim sem koma á sínum fjórum og sækja sérstaklega um það og sýna fram á það sem Húsnæðisstofnun eða hæstv. ríkisstj. metur nægjanlega mikla erfiðleika til þess að þeim skuli hjálpað. Menn þurfa að sanna fátækt sína enn einu sinni fyrir þessari hæstv. ríkisstj., sanna örbirgð sína til þess að hún lyfti litla fingri þeim til hjálpar. Slík eru vinnubrögðin hjá hæstv. ríkisstj. í þessum málum sem fleirum. Það væri fróðlegt að hæstv. félmrh. skýrgreindi það fyrir hv. alþm. hverjir eru að hans mati verulegir greiðsluerfiðleikar. Hverjir eru verulegir greiðsluerfiðleikar einstaklings, hæstv. félmrh.? Hvenær eru greiðsluerfiðleikarnir nógu miklir á einu heimili til þess að geta talist verulegir að mati hæstv. ríkisstj.? Þær byrðar sem hún hefur lagt á herðar almennra launamanna á Íslandi benda ekki til þess að skilningur hennar á þessu hugtaki sé mjög næmur, ég verð að segja það alveg eins og er. Að mínu viti hefur hæstv. ríkisstj. lagt á herðar allra almennra launþega á Íslandi verulega greiðsluerfiðleika og það á ekki að þurfa að draga menn í sundur í þeim efnum að mínu viti, en það er greinilegt að hæstv. félmrh. og hæstv. ríkisstj. leggja annan skilning í þetta hugtak, orðið „verulegir“, en ég geri, það er alveg morgunljóst.

Síðan er, herra forseti, búin til ein vísitalan, einn bastarðurinn enn í þessum frumskógi vísitalnanna, launavísitala, eitt hugarfóstur enn. Við skulum vona að hún nái að verða nokkurra mánaða gömul áður en hún verður bönnuð með lögum eða bannað verður að reikna hana út. Hún er samsett af atvinnutekjum að hálfu á móti launatekjum eða kauptöxtum og hún felur einnig í sér ákveðna mismunun og ákveðið óréttlæti í þessu máli. Hún gerir það vegna þess að þeir sem á botninum sitja, þeir sem eru á strípuðum töxtunum, svo ég noti kunnugt tungutak, herra forseti, fá miklu minni leiðréttingu sinna mála en þeir ættu að gera, þeir verða eftir úti í kuldanum.

Inn í þessa nýju vísitölu verða sem sagt tekin þau áhrif sem t. d þensla á vinnumarkaði á einum stað á landinu hefur, þær yfirborganir og yfirvinna og annað slíkt sem þensla hér á Reykjavíkursvæðinu hefur á tekjur hér. Eftir liggja þá þeir óbættir hjá garði sem t. d. vinna á Eyjafjarðarsvæðinu á helmingi lægra kaupi, að talið er, en hinir hér á Reykjavíkursvæðinu. Ég nefni iðnaðarmenn sem dæmi. Mér er tjáð að það sé ekki óalgengt að iðnaðarmenn hér á Reykjavíkursvæðinu vinni fyrir launum sem séu talsvert á þriðja hundrað krónur á klst., en menn með hliðstæða menntun og hliðstæða starfsreynslu sem eru í störfum norður á Akureyri, svo ég taki dæmi, kunnugt okkur báðum, herra forseti, séu tæpast hálfdrættingar þeirra í launum. Og hver er nú aðstöðumunur þessara tveggja manna til að borga af sínum húsnæðislánum? Það gefur auga leið að eina sanngjarna viðmiðunin hér voru kauptaxtarnir til þess að tryggt væri að þeir sem verst sitja í þessum efnum fengju sanngjarna leiðréttingu.

Það hefur komið fram að talsmenn áhugafólks um úrbætur í húsnæðismálum telja þetta frv. allsendis ónóga lausn á þeim gífurlegu erfiðleikum sem húsbyggjendur um allt land eiga nú í og eru þeir sennilega einna best í stakk búnir til þess að leggja mat á það sökum þess að þúsundir og aftur þúsundir húsbyggjenda hafa á síðustu vikum sett sig í samband við þessi nýju samtök og rakið þar stöðu sinna mála, reifað þar sína erfiðleika. Ég hygg að talsmenn þessa hóps séu best í stakk búnir allra Íslendinga í dag til að leggja mat á ástandið og þau vandamál sem hér er við að etja. Mér er stórlega til efs að hæstv. félmrh. hafi hlýtt á eða verið í símasambandi við mörg þúsund húsbyggjendur á undanförnum dögum, eins og talsmenn þessa hóps hafa sannarlega verið. Ég hygg því að þrátt fyrir það jákvæða sem um þetta frv. megi segja sé það allsendis ónógt eitt og sér og ég tel ekki viðunandi að hv. Alþingi ljúki svo störfum hér í vor að ekki verði betur að gert en til stendur af hálfu hæstv. ríkisstj. með því að leggja fram þetta frv. og reyna að fá það samþykkt hér.

Út af fyrir sig get ég tekið undir það, sem hv. ræðumaður hér á undan mér sagði, að þetta er spor í rétta átt. Ef ekki er annað í boði af hálfu hæstv. ríkisstj. til handa húsbyggjendum en þessar skóbætur þarf sjálfsagt að þiggja þær, en ég geri það ekki með glöðu geði, að kyngja því að þetta sé það eina sem til standi að gera til að leiðrétta hlut þeirra manna sem orðið hafa fyrir þessu mikla ranglæti.

Ég, herra forseti, er 1. flm. að frv. til laga um ráðstafanir í húsnæðismálum sem ég mælti fyrir og komið er til n. hér á hv. Alþingi. Þar er í 6. gr. þess frv. ósköp einfalt ákvæði sem ég tel að sé það sem réttast og sanngjarnast sé að gera í þessum efnum. Það er ósköp einfaldlega að setja það inn í lög, t. a. m. inn í lög um Húsnæðisstofnun ríkisins, að verðtrygging vaxta og afborgana verðtryggðra húsnæðislána skuli ætíð bundin við þá af vísitölunum tveimur, kaupgjaldsvísitölu samkv. útreikningum kjararannsóknarnefndar og lánskjaravísitölu, sem lægri er hverju sinni þannig að misgengi skapist aldrei á hvorugan veginn.

Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan, að það er ekki nema að hæstv. ríkisstj. ætli sér að ganga enn lengra í kjaraskerðingarátt sem veruleg trygging felst í þessu frv. fyrir fólk í framtíðinni og kannske er það það sem er verið að boða með þessu, að ríkisstj. þyki engan veginn nóg gert, hún geti vel hugsað sér að þetta misgengi haldi þannig áfram á komandi mánuðum og komandi misserum að nauðsynlegt sé að hafa svona tryggingu inni í lögum. Þá væri auðvitað æskilegast að hæstv. félmrh. segði það hér því til hvers er þetta annars?

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til að hafa um þetta fleiri orð hér. Ég vona svo sannarlega að það takist enn að hafa góð áhrif á hæstv. félmrh. og þoka honum til réttrar áttar í þessum málum. Það er greinilegt að hann er að nokkru leyti að ganga inn á stefnu og málflutning stjórnarandstöðunnar í húsnæðismálum. Hann viðurkennir það að nokkru leyti með þessu frv. Ég vona að það takist þá á næstu dögum að fá hann til samstarfs um að laga til þetta frv., þennan króa sinn, þannig að hægt sé að gera úr því einhverja skaplega, þolanlega lausn fyrir húsbyggjendur. Í því trausti mun ég að sjálfsögðu leggja mitt af mörkum til að greiða götu þessa máls áfram hér í gegnum þingið. En ég vil leggja á það áherslu að lokum að hér er á engan hátt um heildarlausn í þessum húsnæðisvanda að ræða. Það er aðeins verið að klóra í bakkann á einu afmörkuðu sviði. Og það er auðvitað mjög dapurlegt að hæstv. ríkisstj. skuli taka þannig á málum og vinna þannig að í þessum málaflokki, þar sem hún hafði nú svo fögur fyrirheit uppi, að hún skuli nú vera að hörfa inn í það vígi að klóra aðeins í bakkann og taka á einum hluta af þessum miklu vandamálum.

Ef þetta frv. eða þau lög sem úr því verða eiga að hafa einhver áhrif til hagsbóta fyrir húsbyggjendur þýða þau aðeins eitt. Það hægir á innstreymi fjármagns til byggingarsjóðanna. Ef það gerist ekki gerir þetta frv. ekkert gagn. Það er ósköp einfaldlega þannig, hæstv. félmrh. Ég vil trúa því að þetta frv. sé flutt til að gera eitthvert gagn, það eigi að létta eitthvað greiðslubyrðina á húsbyggjendum. Hæstv. félmrh. ætti t. d. að skilgreina hugtakið „verulegir greiðsluerfiðleikar“ þannig að þetta frv. verði að einhverju gagni fyrir það fólk sem á í mestum vandræðum. Þá þýðir það að það hægir á innstreymi til byggingarsjóðanna. M. ö. o.: fjárhagsvandi byggingarsjóðanna vex ef ekki verður brugðist við því á móti með öðrum hætti. Þetta bið ég hæstv. félmrh. að athuga að lokum og heiti honum stuðningi mínum við það að reyna t. d. að breyta lánsfjáráætlun eða með öðru móti standa þannig að fjármögnun húsnæðissjóðanna að fyrir þessu og reyndar miklu, miklu meiru verði séð í þeim gífurlega vanda sem þar er sannarlega við að glíma.