31.10.1984
Neðri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Síðan fyrri hluti þessarar umr. fór fram hefur borist álit Jafnréttisráðs á þeim frv. sem hér eru á dagskrá sem 7. og 16. mál þessa fundar og ákveðið hefur verið að rædd verði bæði í senn. Álit Jafnréttisráðs barst með bréfi sem dagsett er 23.10. 1984 og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Hæstv. félmn. Nd. Alþingis hefur beðið Jafnréttisráð um umsögn með tveimur frv. til l. um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Annað, 243. mál 106. löggjafarþings, er stjfrv. sem félmrh. Alexander Stefánsson flutti, en hitt, 259. mál 106. löggjafarþings, er þmfrv. þar sem flm. eru Svavar Gestsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín S. Kvaran, Guðrún Helgadóttir, Kjartan Jóhannsson og Guðmundur Einarsson. Bæði frv. hafa verið lögð fram að nýju á 107. löggjafarþingi. Jafnréttisráði þykir eðlilegt að gefa umsögn sína um bæði frv. í einu þar sem þau eru bæði byggð á sömu till. endurskoðunarnefndar sem skipuð var í apríl 1981 af þáv. félmrh. Svavari Gestssyni. Þessi umsögn var samþykkt af meiri hl. Jafnréttisráðs. Einar Árnason fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands í ráðinu sat hjá við afgreiðslu málsins en óskaði þó ekki eftir að gera sérstakar athugasemdir né skila séráliti.

Virðingarfyllst,

f. h. Jafnréttisráðs,

Elín Pálsdóttir framkvæmdastjóri.“

Ég mun nú, herra forseti, gera grein fyrir þessu áliti Jafnréttisráðs vegna þess að það tekur fyrir hverja grein þessara frv. beggja fyrir sig og mun ég láta umsögn ráðsins verða uppistöðuna í minni ræðu hér.

Í umsögn Jafnréttisráðs segir svo:

„l. kafli. Helstu nýmæli og samanburður á frumvörpum. Af þeim tveimur frv. sem hér er um fjallað telur Jafnréttisráð að frv. það er þm. fluttu — hér á eftir nefnt þmfrv. — gangi lengra í breytingum frá núgildandi jafnréttislögum. Helstu nýmæli eru:

a. Tilgangur laganna er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla og beinlínis að bæta stöðu kvenna en ekki einungis að stuðla að jafnrétti eins og er í núgildandi lögum, 1. gr. Þannig brjóta aðgerðir, sem sérstaklega eru ætlaðar til að bæta stöðu kvenna, ekki í bága við tilganginn né það að taka sérstaklega tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar. Einnig er hugtakið mismunun skilgreint nákvæmlega í 3. gr. þingmannafrv.

b. Atvinnurekendum eru lagðar ýmsar skyldur á herðar, m.a. er þeim gert að vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og gert er ráð fyrir öfugri sönnunarbyrði ef brotið er gegn ákvæðum þeim er fjalla um jafnrétti í atvinnulífinu.

c. Ríki, sveitarfélög og félagasamtök skulu leitast við að hafa sem jafnasta stöðu kynja í stjórnum, nefndum og ráðum á sínum vegum. Ákveðin regla skal gilda um tilnefningar í þau. Sveitarstjórnum í kaupstöðum og annars staðar sem því verður við komið er ætlað að skipa jafnréttisnefndir á sínum vegum.

d. Fulltrúum í Jafnréttisráði er fjölgað úr fimm í sjö og við bætast fulltrúar þeirra félagasamtaka sem hafa jafnréttisbaráttu á dagskrá. Verkefni ráðsins eru og útlistuð nánar.

e. Ákvæði um refsiábyrgð eru ítarlegri, bæði er bætt við hlutlægri refsiábyrgð, reglum um tilraun og hlutdeild og Jafnréttisráði heimilað að höfða einkarefsimál í sérstökum tilvikum.

f. Gert er ráð fyrir að ríkisstj. geri framkvæmdaáætlun um jafnréttismál til fimm ára í senn og ákvæði er um að lögin skuli endurskoðuð að fimm árum liðnum frá setningu þeirra.

Það frv. sem félmrh. flytur — hér á eftir nefnt stjfrv. - gengur skemmra í breytingum frá núgildandi lögum en þmfrv. Þau atriði sem breytt eru eru nánast samhljóða breytingum í þmfrv. Eftirfarandi atriðum er helst breytt í stjfrv. frá núgildandi lögum:

a. Atvinnurekendur skulu leitast við að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í karla- eða kvennastörf. Ekki eru reglur um öfuga sönnunarbyrði, sbr. b.-lið hér að ofan.

b. Ákvæði er um að ríki, sveitarfélög og félagasamtök skuli leitast við að hafa sem jafnasta tölu kynjanna innan stjórna, nefnda og ráða. Ekki eru hér reglur um hvernig að því skuli staðið, sbr. c. hér að ofan.

c. Jafnréttisráð skal skipað sjö mönnum, sbr. b. hér að ofan. Auk verkefna sem upp eru talin í þmfrv. er Jafnréttisráði ætlað að vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér og vinna að framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félmrh.

d. Ákvæði er um hlutlæga refsiábyrgð en ekki um tilraun og hlutdeild né um heimild Jafnréttisráðs til að höfða einkarefsimál.

e. Framkvæmdaáætlun skal gerð til fjögurra ára í senn í stað fimm í þmfrv. og lögin skal endurskoða að fimm árum liðnum frá setningu.“

Síðan segir hér í II. kafla umsagnarinnar:

„Lög nr. 78/1976, um jafnrétti kvenna og karla, eru hlutlaus með tilliti til kynja. Konum og körlum er gert jafnhátt undir höfði, annað kynið fær ekki forgang fram yfir hitt. Ekki er tekið tillit til þess að staða kvenna í þjóðfélaginu er mun lakari, m.a. hvað varðar atvinnulíf, launakjör, menntun, stjórnmálaþátttöku o.fl. Jafnréttisráð telur tilgang jafnréttislaga eiga að vera þann að það kyn sem verr er sett í þjóðfélaginu skuli beinlínis fá stöðu sína bætta með þeim, enda er ekki ágreiningur um að jafnréttislög voru sett á Íslandi árið 1976 vegna ójafnrar stöðu kynjanna að miklu leyti vegna þrýstings frá kvennaári Sameinuðu þjóðanna 1975 og þá ekki síst kvennadeginum eða kvennaverkfallinu 24. okt. 1975.

Í aths. með núgildandi jafnréttislögum kemur fram“ — væntanlega með frv. að núgildandi jafnréttislögum — „að þrátt fyrir lagalegan rétt skipi konur ekki sama sess og karlar á mörgum sviðum. Þar með er viðurkennt að löggjöfin sé sérstaklega sett til hjálpar konum til að ná jafnrétti og jafnri stöðu á við karla. Þegar löggjafinn viðurkennir þannig lakari stöðu kvenna í aths. hlýtur það að sama skapi að vera í anda jafnréttishugsjónar að viðurkenna slíkt hið sama í lögum og heimila þá aðgerðir til að breyta þessari stöðu.

Sú nefnd, sem vann að endurskoðun núgildandi jafnréttislaga, hefur gert sér grein fyrir því að algjörlega kynhlutlaus lög, jafnréttislög, ná ekki tilgangi sínum. Þau stuðla ekki að breytingu á stöðu kynjanna ef þau kveða ekki fastar á um tilgang. Þessi atriði er að finna í þmfrv., 1. gr., 3. mgr., sbr. 3. gr. Jafnréttisráð telur það miður að þetta grundvallaratriði hefur verið fellt niður í stjfrv. Þar með telur ráðið að meginávinningurinn við að breyta núgildandi jafnréttislögum sé fallinn brott.

Jafnréttisráð starfar skv. lögum nr. 78/1976 um jafnrétti kvenna og karla. Ráðinu hefur ekki veist létt að stuðla að jafnrétti kvenna og karla eins og segir í 1. gr. laganna. Jafnréttisráði eru ekki veittir möguleikar til að hafa áhrif á raunverulega stöðu kvenna nema á mjög takmarkaðan hátt. Ráðið telur skv. reynslu sinni að kynhlutlaus lög séu áhrifalítil og breyta ekki ríkjandi ástandi í þjóðfélaginu. Á sínum tíma var setning núgildandi jafnréttislaga spor í rétta átt en þau hafa nú runnið sitt skeið og geta jafnvel veikt jafnréttisbaráttu þar sem þau ýta ekki undir nýja umr. um jafnréttismál, hlífa valdhöfum við að hafast að í jafnréttismálum og breyta stöðu kvenna lítið. Þess vegna telur Jafnréttisráð grundvallaratriði að í lögum um jafnrétti kvenna og karla séu bein ákvæði sem gefa kost á að bæta stöðu kvenna.

Öll Norðurlönd utan Finnlands hafa sett almenn jafnréttislög, ýmist um öll svið þjóðlífsins eða eingöngu um atvinnulíf. Ísland er eina landið sem ekki hefur í lögum sínum ákvæði sem veita ráðrúm til jákvæðra aðgerða til að bæta stöðu þess kyns sem verr er sett. Ekki er ágreiningur um að jafnréttisbaráttu hefur betur miðað í þeim löndum sem hafa þannig jákvæða mismunun í jafnréttislögum sínum.

Ísland hefur gerst aðili að ýmsum alþjóðasamningum og samþykktum þar sem opnaðir eru möguleikar á jákvæðum aðgerðum stjórnvalda til að bæta stöðu ákveðinna þjóðfélagshópa. Nærtækasta dæmið er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum, Convention on Elimination of all Forms of Discrimination against Women, en sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 1980.“

Í 4. gr. sáttmálans, sem er birt í umsögn Jafnréttisráðs, kemur fram að tímabundnar, jákvæðar aðgerðir til þess að bæta stöðu þess hóps sem er lakar settur eru heimilar og geta verið æskilegar. „Af framansögðu má sjá að sú regla er almennt viðurkennd, m.a. í sáttmála sem Ísland hefur þegar undirritað, að sérstakar aðgerðir til að koma á raunverulegu jafnrétti gangi ekki gegn jafnréttishugsjóninni. Í lögum á Íslandi hafa verið samþykktar reglur sem beinlínis veita ákveðnum þjóðfélagshópum forgang fram yfir aðra þegna þjóðfélagsins,“ segir hér í áliti Jafnréttisráðs. „Því fer fjarri að um sé að ræða nýja stefnu í lögum í þessu lagafrv. þegar rætt er um jákvæða mismunun í jafnréttislögum. Sem dæmi má nefna lög nr. 41/1983 um málefni fatlaðra, en í 24. gr. þeirra segir að þeir sem notið hafa endurhæfingar eigi öðrum fremur rétt á atvinnu hjá ríki og sveitarfélagi ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn annarra sem sækja um starfið.“

Í ræðu minni hér á dögunum nefndi ég annað dæmi um jákvæðar aðgerðir eða mismunun af þessu tagi sem okkar löggjöf gerir ráð fyrir, en það eru kosningalögin. Menn hafa allir atkvæðisrétt en misjafnlega þungan atkvæðisrétt eftir því hvar þeir búa í landinu. Þar með eru þau grundvallarlög, sem stjórnskipun okkar í raun og veru hvílir að verulegu leyti á, og starf Alþingis, byggð á þessari forsendu sem hér er gerð till. um að verði tekin upp að því er konur varðar sérstaklega.

Síðan heldur Jafnréttisráð áfram:

„Jafnréttisráð telur að ákvæði þau, sem sett eru skv. 1. gr. sbr. 3. gr. þmfrv., þar sem segir að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna, og aðgerðir, sem sérstaklega eru ætlaðar til þess, gangi ekki gegn frv., sé grundvallarregla, alþjóðlega viðurkennd og víða þegar lögleidd. Ráðið telur að eftir níu ára slæma reynslu af kynhlutlausum lögum á Íslandi geti Alþingi ekki staðið gegn breytingum í þá átt er hér að framan er greint með neinum rökum.“

Síðan, herra forseti, fer Jafnréttisráð yfir einstakar greinar þessara tveggja frv. sem hér liggja fyrir til umr., annars vegar þmfrv. á þskj. 109 og hins vegar frv. hæstv. félmrh. á þskj. 48. Í umsögn um einstakar greinar frv. segir svo um 1.–3. gr. beggja frv.:

„Í þessum greinum er fjallað um tilgang laganna, en í núgildandi lögum segir að tilgangur þeirra sé að „stuðla að“ jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla en í báðum frv. segir „koma á“ í staðinn og telur Jafnréttisráð það til mikilla bóta. Áður hefur verið rætt um þau atriði sem fram koma í þmfrv. um þann tilgang þess að bæta stöðu kvenna og aðgerðir tengdar því í 3. gr. og vísast í því sambandi til þess sem sagt var hér á undan.

Í 3. gr. þmfrv. er hugtakið „mismunun“ skilgreint. Sömu skilgreiningu er að finna í aths. með 3. gr. í stjfrv.“ — þ.e. þó að þetta ákvæði hafi verið fellt út úr stjfrv. þá helst það í aths. Einhverra hluta vegna virðast þeir í ríkisstj. því aðeins hafa litið á frv. en þeim hefur hins vegar láðst að breyta aths. um leið og þeir breyttu frv. Mér sýnist að þeir séu með aths. frá gamla frv., þ.e.a.s. þmfrv. og er það nokkur nýlunda í lagasmíð eða tillögugerð af hálfu ríkisstj. En látum það nú vera. — „Í þessari skilgreiningu er skýrt tekið fram að mismunun teljist atriði sem skapa mismunandi stöðu kynjanna í raun þótt lagaleg réttarstaða þeirra sé sú sama. Jafnréttisráð telur mjög þarft að hafa afgerandi skilgreiningu í sjálfum lögunum svo ekki fari milli mála hjá þeim sem lögin lesa hvert gildissvið þeirra er.“ Um 4. gr. beggja frv. segir svo:

„Þessi grein er miklum mun ítarlegri en seinni hluti 2. greinar núgildandi laga. Hér er bætt við hugtakaskilgreiningum um „jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf“ og „kjör“ í báðum frv., en ekki er skilgreiningu að finna á hugtakinu „laun“ í stjfrv. eins og í þmfrv.“ Hér er um mjög stórt atriði að ræða. — „Í þeim eina hæstaréttardómi, sem dæmdur hefur verið á grundvelli laga nr. 78/1976, þar sem byggt var á ákvæðum laganna um jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, var grundvallarkrafan viðurkennd en meiri hluti Hæstaréttar taldi ekki unnt að krefjast í dómi sömu launa en ekki annarra kjara. Tapaðist því málið á formsatriði.

Í þeirri skilgreiningu, sem er að finna á hugtakinu „laun“ í þmfrv., er skýrt tekið fram að það gildi ekki eingöngu um hið venjulega grunn- eða lágmarkskaup heldur einnig um hvers konar frekari þóknun sem greidd er, beint eða óbeint, hvort heldur í fé eða fríðu, og atvinnurekandi greiðir starfsmanni fyrir vinnu hans. Með þessari skilgreiningu er komið í veg fyrir að unnt sé að skýla sér á bak við formsatriði eins og gert var í hæstaréttardómnum. Það er skoðun Jafnréttisráðs að skilgreining á hugtakinu „laun“ sé nauðsynleg í sjálfum lagatextanum til þess að ekki geti orðið ágreiningur um þýðingu hugtaksins.“

Um 7. gr. beggja frv. segir Jafnréttisráð:

„Ákvæði þetta er samhljóða í báðum frv. og einnig samhljóða 5. gr. núgildandi laga. Jafnréttisráð telur ákvæðið ganga skammt en breytingar þó óþarfar þar sem því er fylgt eftir með gr. 18, sbr. 19. gr. þmfrv., en 16., sbr. 17. gr. stjfrv., og enn fremur 21. gr., 4. mgr þmfrv., sem veitir heimild til höfðunar einkarefsimáls sbr. síðar.

8. gr. beggja frv. Jafnréttisráð er sammála þeirri breytingu sem gerð hefur verið á 6. gr. í núgildandi lögum og er samhljóða í báðum frv. Hér er ákvæðið víkkað út með þeim hætti að ekki er skilyrði að um sama atvinnurekanda sé að ræða.

9. gr. beggja frv. Hér er um nýtt ákvæði að ræða og fagnar Jafnréttisráð því að það er að finna í báðum frv., en ákvæðið er beinlínis í anda 1. gr. þmfrv. Jafnréttisráð telur ákvæði þetta mjög mikilvægt vegna kyngreinds vinnumarkaðar hér á landi sem og annars staðar. Líkt ákvæði er að finna í sænsku jafnréttislögunum, en þess má geta að víða fer nú fram mikil umræða um kyngreindan vinnumarkað sem á stóran þátt í að viðhalda mismunun kynjanna í atvinnulífinu. Sem dæmi má nefna að Jafnréttisnefnd norrænu ráðherranefndarinnar er að hefja stórt verkefni til nokkurra ára í þeim tilgangi að reyna að uppræta þetta vandamál.“

Um 10. gr. þmfrv. segir svo:

„Hér er innleitt nýtt ákvæði um öfuga sönnunarbyrði á þá lund að atvinnurekandi skal sýna fram á að ekki hafi verið um mismunun að ræða eftir kynferði í þeim atvikum sem ákvæði um vinnumarkaðinn fjallar um. Svipað ákvæði er að finna í sænsku jafnréttislögunum. Jafnréttisráð telur að verði ákvæði þetta lögleitt bæti það réttarstöðu aðila sem brotið er á, auk þess sem ákvæðið mundi auðvelda störf Jafnréttisráðs til muna við að komast að niðurstöðu í máli.“

Síðan segir svo:

„Ráðinu þykir miður að sama ákvæði er ekki að finna í stjórnarfrv.“ sem hæstv. félmrh. mælti hér fyrir á dögunum.

Síðan segir um 10. gr. stjfrv, og 11. gr. þmfrv.: „Við ákvæði þetta er bætt ábyrgðaraðila, sem er mjög nauðsynlegt að mati Jafnréttisráðs. Menntunarákvæði í núgildandi lögum hefur verið örðugt viðfangs fyrir ráðið, einkum vegna þess að ekki er kveðið á um að fræðsluyfirvöld séu ábyrg fyrir framkvæmd ákvæðisins. Augljóst er að það er ekki í valdi ráðsins að koma á fræðslu um jafnréttismál. Þess má þó geta að ráðgjafarnefnd, sem starfað hefur á vegum Jafnréttisráðs, hefur talsvert unnið að menntamálum, m.a. við endurskoðun námsefnis með tilliti til jafnréttis.“

Um 11. gr. stjfrv. og 12. gr. þmfrv. segir hér:

„Hér er ákvæði sem efnislega er samhljóða 8. gr. núgildandi laga. Í frumvörpunum er þó sú breyting gerð að fleiri eru gerðir ábyrgir, og er það mjög mikilvægt að mati Jafnréttisráðs, þar sem afar erfitt hefur reynst að framfylgja ákvæðinu í núverandi mynd. Með ákvæðinu í frumvörpunum eru tekin af öll tvímæli um að t.d. dagblöð eru gerð ábyrg fyrir birtingu slíkra auglýsinga.“

Um 12. gr. stjfrv. og 13. gr. þmfrv. segir svo: „Ákvæði þetta er nýtt og að mati Jafnréttisráðs mjög jákvætt að það er að finna í báðum frv. Svipað ákvæði, sem sett var inn í norsku jafnréttislögin, hefur gefist vel. Í þingmannafrv. er sett sérstök regla um hvernig að tilnefningum skuli staðið, en það er ekki að finna í stjfrv. sem veikir gildi ákvæðisins þar.“

Um 14. gr. þmfrv. segir svo, með leyfi forseta, í umsögn Jafnréttisráðs:

„Jafnréttisráð fagnar ákvæði um skipan jafnréttisnefnda, en það telur mjög mikilvægt að sveitarfélög haldi vöku sinni í jafnréttismálum. Það er og reynsla ráðsins að erfitt reynist að fá jafnréttisnefndir til starfa, þótt þær sé að finna, nema tryggt sé að í þeim sitji áhugafólk um málefnið.“

Um 13. gr. stjfrv. og 15. gr. þmfrv. segir svo: „Ákvæði þetta er nánast samhljóða í báðum frv. Hér er gert ráð fyrir breyttri skipan Jafnréttisráðs á þá lund að í ráðinu sitji sjö manns í stað fimm nú og við bætist fulltrúar frá Kvenréttindafélagi Íslands og Kvenfélagasambandi Íslands, sem tryggir að í ráðinu sitji aðilar sem hafa jafnrétti kynja á stefnuskrá félaga sinna. Jafnréttisráð er sammála þessu ákvæði og telur það mjög til bóta.“

Um 14. gr. stjfrv. og 16. gr. þmfrv. segir síðan:

„Á vegum Jafnréttisráðs hefur starfað ráðgjafarnefnd, sem sérstaklega hefur fjallað um langtímaverkefni, meðan mestur tími Jafnréttisráðs hefur farið í afgreiðslu mála. Ráðið telur ómetanlegt að hafa slíka nefnd á sínum snærum, en hún tók við verkefnum kvennaársnefndar á sínum tíma og er einungis ætlað að sitja út kvennaáratuginn, þ.e. til enda ársins 1985. Með þessari grein er tryggt að Jafnréttisráð njóti áfram starfa ráðgjafarnefndarinnar.

15. gr. stjfrv., 17. gr. þmfrv. Í þessum ákvæðum er fjallað um verkefni Jafnréttisráðs og er bætt við þau sem fyrir eru. Áður er nefnt að í stjfrv. er verkefni sem ekki er að finna í þmfrv., en skv. því skal Jafnréttisráð vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum og vinna að framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn fyrir félmrh. Jafnréttisráð telur ákvæði þetta jákvætt. Í þmfrv. 23. gr. er að finna ákvæði um að framkvæmdaáætlun verði gerð til fimm ára, sbr. það sem síðar verður sagt. Í báðum frv. er því verkefni bætt við að Jafnréttisráð sjái um fræðslu og upplýsingar til félagasamtaka og almennings. Ráðið hefur frá upphafi séð um slíka fræðslu, m.a. í Félagsmálaskóla alþýðu í Ölfusborgum, námsflokkum á ýmsum stöðum og á fræðslufundum félagasamtaka. Ráðið hefur einnig aukið upplýsingastarfsemi sína til muna hin síðari ár, m.a. með útgáfu og ráðstefnum. Bætt er við því verkefni Jafnréttisráðs að hafa samband við jafnréttisnefndir sveitarfélaga, en þetta ákvæði er einnig til áréttingar, því ráðið hefur samband við þær eftir föngum. Með breytingum þeim á starfssviði, er hér að ofan hafa verið nefndar, telur Jafnréttisráð sjálfsagt að með auknum verkefnum verði fjárveiting aukin og starfsliði fjölgað á skrifstofu þess. Þess skal geta að eins og þeim málum er háttað núna getur ráðið ekki sinnt nema broti af þeim verkefnum sem þegar eru lögfest.“

Um 17.—20. gr. stjfrv. og 19.-22. gr. þmfrv. segir svo:

„Í þessum ákvæðum er fjallað um viðurlög og réttarfar og eru þau efnislega samhljóða núgildandi lögum, en flest eru þau ítarlegri og þá aðallega 21. gr. þmfrv. sem rakið er í II. kafla e-lið breytinga þmfrv. hér að framan. Jafnréttisráð telur mjög mikilvægt að ákvæði þessi séu sem ítarlegust, því það auðveldar alla starfsemi ráðsins í heild, ekki síst ef til málshöfðunar kemur á vegum þess. Þá telur ráðið sérstaklega mikilvæga þá breytingu sem fram kemur í 17. gr. stjfrv. og 19. gr. þmfrv. um heimild Jafnréttisráðs til að höfða mál til viðurkenningar á rétti aðila þótt ekki sé um skaðabótakröfu að ræða. Ekki er alltaf um skaðabótakröfu að ræða hjá aðila og getur ráðið þá krafist viðurkenningar á rétti án tillits til þess. Heimildin til höfðunar einkarefsimáls er mjög mikilvæg að mati Jafnréttisráðs, þar sem það getur þá sjálft höfðað refsimál ef um sérstök atriði er að ræða sem haft geta fordæmisgildi.“

Um 21.– 24. gr. stjfrv. og 23.-26. gr. þmfrv. segir svo:

„Hér er mikilvægt atriði í báðum frv. um framkvæmdaáætlun ríkisstj., til fjögurra ára í stjfrv., en fimm ára í þmfrv. Jafnréttisráð telur að árafjöldinn skipti ekki máli, svo framarlega sem ríkisstj. er gerð ábyrg fyrir framkvæmdaáætluninni. Í báðum frv. er ákvæði um endurskoðun laganna að fimm árum liðnum og er Jafnréttisráð sammála að þannig verði tryggt að lög sem þessi verði ekki úrelt.“

Í lok þessarar umsagnar segir Jafnréttisráð:

„Í upphafi var vikið að endurskoðunarnefnd þeirri sem fyrrv. félmrh. Svavar Gestsson skipaði í aprílmánuði 1981. Jafnréttisráð átti þess kost að fylgjast rækilega með störfum þeirrar nefndar, þar sem það átti bæði fulltrúa í henni og fullt samráð var haft við ráðið meðan á endurskoðun stóð.

Það þarf því ekki að koma á óvart þótt Jafnréttisráð mæli eindregið með samþykki þess frv. er nefndin samdi og flutt er af þm., enda nær það mun lengra í átt til raunhæfra breytinga að mati ráðsins heldur en frv. það sem flutt eru af félmrh.“ Eins og kemur fram í þessari setningu, herra forseti, er ljóst að ef Jafnréttisráð ætti að velja á milli þessara tveggja frv. þá tæki það frekar þmfrv. en stjfrv. — „Í fyrrnefnda frv. er að finna tímabæra stefnubreytingu frá núgildandi lögum sem er í samræmi við reynslu Jafnréttisráðs á undanförnum níu árum. Eins og fram hefur komið telur Jafnréttisráð lög nr. 78/1976, um jafnrétti kvenna og karla, hafa reynst áhrifalítil, sérstaklega vegna kynhlutleysis laganna og því sé stefnubreytingar þörf.

Vekja má athygli á jákvæðri reynslu af svipuðum jafnréttislögum á öðrum Norðurlöndum, sem fulltrúar Jafnréttisráðs hafa fengið tækifæri til að kynnast og fylgjast með í norrænu samstarfi. Þar fara nú fram umr. um að breyta þargildandi jafnréttislögum enn frekar til samræmis við góða reynslu af jákvæðum aðgerðum til að flýta fyrir raunverulegu jafnrétti. Benda má á að er lagafrv. nefndarinnar var kynnt á ráðstefnu um jafnréttislöggjöf á vegum jafnréttisnefndar norrænu ráðráðherranefndarinnar, töldu sérfræðingar þar að fremur væri gengið of skammt til jákvæðrar mismununar en of langt.

Það hefur komið fram að nefndin, sem sá um endurskoðun laga nr. 78/1976 um jafnrétti kvenna og karla, hafði m.a. samband við fjölda félaga og samtaka sem hafa jafnréttismál á stefnuskrá sinni og þekkja mismunun í þjóðfélaginu. Af því má ráða að það frv. sem hér er lagt fram af þm. endurspegli álit fulltrúa mikils hluta kvenna hérlendis.

Eins og áður er rakið byggist stjfrv. að stofni til á tillögum títtnefndrar endurskoðunarnefndar, en þótt margt af því sem hún lagði til hafi fengið að halda sér í frv. telur Jafnréttisráð að þar sé of skammt gengið. Ráðið mælir því með samþykkt þmfrv., að viðbættri 15. gr. 2. tölul. stjfrv. um stefnumótun.“ — En þar segir svo í stjfrv. að ráðið hafi það hlutverk að vera stefnumótandi aðili í jafnréttismálum hér á landi. Skal ráðið vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn og leggja fyrir félmrh. Þar skal kveðið á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Síðan segir svo í áliti Jafnréttisráðs:

„Ráðið mælir því með samþykkt þmfrv. að viðbættri 15. gr. 2. tölul. stjfrv. um stefnumótun. Telur ráðið að nái það ekki fram að ganga sé jafnvel betra að una lengur við núgildandi lög en að stjfrv. verði samþykkt.“

Hér er kveðinn upp nokkuð harður dómur yfir stjfrv. Að mati Jafnréttisráðs væri það frá sjónarmiði þess betra að láta stjfrv. liggja en að samþykkja það, en ráðið leggur alla áherslu á að þmfrv. verði samþykkt.

„Breytingar, sem gert er ráð fyrir í stjfrv.,“ segir hér, „eru aðallega lagfæringar, sem Jafnréttisráð telur að Alþingi gæti gert á einstökum greinum án nýrrar heildarlagasetningar, en þmfrv. markar hins vegar nýja stefnu sem Jafnréttisráð samþykkir.“

Ég hef, herra forseti, leyft mér að lesa þessa umsögn Jafnréttisráðs um þessi tvö frv. vegna þess að hún segir að mínu mati allt það sem segja þarf á þessu stigi málsins. Ég held að það sé þess vegna óþarfi að lengja umr. með ítarlegum frekari ræðuhöldum. Á síðasta þingi flutti ég mjög ítarlega ræðu um þessi frv. bæði og gerði grein fyrir sjónarmiðum mínum. Má í þeim efnum vísa til þess sem þar var sagt, það er ekki svo langt síðan sú umr. fór fram. Ljóst er að frv. hæstv. félmrh. dugir mjög skammt í þessum efnum og ég held að það væri skynsamlegt fyrir ríkisstj. og meiri hl. hér á hv. Alþingi að reyna í þessu máli að ná samkomulagi. Ef stjórnarmeirihlutinn hér í þinginu legði sig fram um það ætti að vera unnt að ná samkomulagi um breytingar á lögum um jafnrétti karla og kvenna, breytingar sem væru Alþingi til sóma miðað við þá stöðu sem nú er í þeim málum öllum. Það væru mistök af ríkisstj. að knýja á um sitt frv. algerlega óbreytt. Með tilliti til umsagnar Jafnréttisráðs ætti það að vera öllum ljóst, einnig ríkisstj. sem þetta frv. flytur.

Nú er það svo að frv. Jafnréttisráðs sem þm. hér flytja fyrst og fremst til sýningar þannig að þm. geti haft hliðsjón af því, er samkomulagstexti. Það felur í sér samkomulag mjög margra aðila, bæði áhugamannasamtaka, jafnréttissamtaka og stjórnmálasamtaka. Hérna er þess vegna ekki orðið við ýtrustu kröfum eins eða neins. En hérna er gengið eins langt og ætlað var að unnt yrði að ná samkomulagi um. Ég held að allt áhugafólk um jafnréttismál, karlar og konur, ættu að hjálpast að við að fá sem mest út úr þessari lagabreytingu og styðjast þar mjög verulega við þær ábendingar sem frá Jafnréttisráði hafa komið. Þetta er að mínu mati, hvað sem aðrir segja og hvað sem þingmannafjölda hér í salnum líður nú, eitt af stærri málum þingsins. Ég tel ekki að jafnrétti verði komið á eingöngu með lögum. En ég tel að þetta sé einn hornsteinn í jafnréttisbaráttu og þess vegna beri að sýna þessu máli fulla virðingu og tryggja að það fái eðlilega afgreiðslu og umr. á þessu þingi.