13.05.1985
Efri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5125 í B-deild Alþingistíðinda. (4380)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Frsm. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um þetta frv. á fundum sínum og fengið til viðtals við sig skólastjóra Þroskaþjálfaskólans og fulltrúa Félags þroskaþjálfa. Hér er um að ræða lögfestingu þessa skóla sem hefur átt sína tilvist í reglugerð sem byggð er á gömlum og úr gildi föllnum lögum um fávitastofnanir sem blessunarlega hafa nú að fullu horfið án þess að ég ætli að gera lítið úr gildi og þýðingu þeirra laga á liðinni tíð. Að sjálfsögðu ætti þessi skóli að falla eðlilega inn í menntakerfi landsins og heyra undir menntmrn. sem aðrar skólastofnanir, en það rn. mun ekki ýkja hrifið af því og þess ber að geta að heilbrigðisráðuneytið hefur hlúð að skólanum og hann um sumt notið þess að vera rekinn á þess vegum.

Við í nefndinni gerum aðeins tvær brtt. við frv. Sú fyrri er við 1. gr. og hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta: „Síðari málsliður orðist þannig: „Enn fremur skal skólinn annast símenntun þroskaþjálfa í samráði við Félag þroskaþjálfa.“"

Þarna er sú símenntun, svo sem hún hefur verið í framkvæmd, lögfest sem slík eins og segir í athugasemdum um 1. gr.: Skólinn hefur staðið fyrir símenntun og haft um hana samráð við Félag þroskaþjálla.

Í 4. gr. breyttum við orðalagi og þar með í raun og veru merkingu. Annar málsliður 1. mgr. hljóðar þá svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Skólastjóri skal hafa lokið háskólaprófi í uppeldisog sálarfræði eða sambærilegu prófi frá viðurkenndum háskóla.“

Það komu fram óskir frá Félagi þroskaþjálfa um að ákvæði yrði um það að skólastjóri yrði með sérstaka menntun og þjálfun í meðferð fatlaðra. Á þessu var fullur skilningur í nefndinni en það þótti ekki fært að setja það út af fyrir sig inn í lagatexta. Svo sjálfsagt þykir okkur í nefndinni að við skipan skólastjóra sé tekið fullt mið af þessu ef menn uppfylla menntunarkröfur að öðru leyti. Það hlýtur að vera sjálfsagt eðli málsins samkvæmt að þeir, sem uppfylla þær menntunarkröfur sem hér er um að ræða og hafa til viðbótar sérstaka þjálfun að baki varðandi þessa einstaklinga, njóti forgangs í þeim efnum.

Aðra breytingu leggur nefndin ekki til á frv. en mælir með samþykki þess svo breyttu. En breytingin er aðallega fólgin í 4. gr., þar sem áður stóð: „Skólastjóri skal hafa lokið háskólaprófi í uppeldis- og sálarfræði eða hafa lokið sérkennaraprófi frá viðurkenndum háskóla.“ Rétt er að fara um þá breytingu örlítið fleiri orðum. Orðalagið sem við leggjum nú til, „sambærilegu prófi frá viðurkenndum háskóla“, kemur í stað þess sérkennaraprófs sem var í frv. og gæti átt við sérkennarapróf á allt öðru sviði en það sem tengist starfssviði þessa skóla. Því er eðlilegra að tala um það svo sem nú segir, „sambærilegt próf frá viðurkenndum háskóla“.

Við 1. umr. ræddi ég um skólastjórn þessa skóla og um tilnefningar í hana. Annar höfundur þessa frv., Ingimar Sigurðsson lögfræðingur og deildarstjóri, upplýsti nefndina um það að ráðh. hefði a. m. k. allt frá árinu 1980 haft samráð um sína tilnefningu eða skipan við Landssamtökin Þroskahjálp og fulltrúi frá þeim ævinlega setið í skólastjórn síðan, þ. e. eftir að þau samtök urðu gildandi aðili í þessum málum.

Hér tala ég fyrir sjálfan mig. Ég hefði gjarnan viljað sjá það lögfest að samtökin ættu tilnefningarrétt en þó sætti ég mig við þessa framkvæmd í trausti þess að svo megi áfram verða. Nefndin er einnig þeirrar skoðunar að eðlilegast sé að ráðh. leiti samráðs við þessi landssamtök um skipan í stjórn skólans. Ég áskil mér hins vegar allan rétt til þess að flytja breytingu síðar inn í þingið ef misbrestur kynni að verða á framkvæmd.

Um þetta málefni í heild mætti margt segja. Hlutur þroskaþjálfa í bættri aðstöðu og auknum möguleikum fatlaðra á öllum sviðum er mjög þýðingarmikill og afgerandi. Að þeirri stétt ber því að hlynna vel. Lögfestingu skólans teljum við skref í þá átt sem fagna ber. Ég legg því til samþykki við þetta frv. með þeim brtt. tveim sem ég kynnti hér áðan.