13.05.1985
Efri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5127 í B-deild Alþingistíðinda. (4385)

384. mál, varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. félmn. um frv. til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og fengið til viðræðna Ásgeir Ólafsson framkvæmdastjóra Viðlagatryggingar Íslands, Hafþór Jónsson frá Almannavörnum ríkisins og Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Nefndin leggur til tvær breytingar á þessu frv. um snjóflóð og skriðuföll, í fyrsta lagi við 4. gr. frv., 1. mgr. þar sem stendur, með leyfi virðulegs forseta: „Sérstök nefnd, Ofanflóðanefnd, skal vera Almannavörnum ríkisins til aðstoðar.“ Í stað „aðstoðar“ leggjum við til að standi: ráðuneytis.

Nefndin leggur jafnframt til breytingu á 3. mgr. sömu greinar þar sem stendur, með leyfi forseta: „Verkefni Ofanflóðanefndar er að fjalla um till. sem berast og gera till. til o. s. frv.“ Þar leggjum við til að standi: gera endanlegar till.

Segja má að báðar þessar brtt. séu gerðar með tilliti til þess að auka eilítið myndugleika þessarar Ofanflóðanefndar sem lagt er til í frv. að verði sett á fót. Það er hins vegar tekið fram í frv. að Ofanflóðanefnd sé fyrst og fremst til halds og trausts Almannavörnum — þessi mál heyra jú undir almannavarnir eins og kunnugt er ekki síst með tilliti til þess að hér er um nokkuð sérstætt svið að ræða. Þeir fulltrúar, sem sæti munu eiga í Ofanflóðanefnd, gefa það nokkuð til kynna. Þar verða fulltrúar frá Almannavörnum ríkisins, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Skipulagsstjórn ríkisins, Veðurstofu Íslands og Viðlagatryggingu Íslands.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. Það bar á góma í félagsmálanefnd, eins og raunar tekið er fram í athuga semdum um 10. gr. frv., að þetta frv. leiddi af sér þörf fyrir breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands með vísan til þess að í 10. gr. frv. er gert ráð fyrir því að 5% af álögðum heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands falli í hlut Ofanflóðasjóðs sem gert er ráð fyrir að komið verði á fót skv. þessu frv. Hins vegar vil ég minna á það að í gildandi lögum um Viðlagatryggingu Íslands er stjórn stofnunarinnar heimilað að styrkja framkvæmdir sem eiga að varna tjóni af völdum náttúruhamfara. Stjórn Viðlagatryggingar getur því að þessu frv. samþykktu stofnað til fjárútláta til Ofanflóðasjóðs, það er ekkert sem hindrar það. Það er tekið fram í athugasemdum með þessu frv. að sá kostnaður, sem hlotist getur og mun hljótast af þeim ráðstöfunum sem væntanlega verður farið í á komandi árum til þess að varna því að mannvirki eyðileggist af völdum ofanflóða, sé allverulegur. Þar er minnst á lauslegt kostnaðarmat og getið um að sá kostnaður verði á bilinu 250 til 400 millj.

Með þessu frv. er ekki lögð fram nein framkvæmdaáætlun enda um að ræða verkefni sem að meira eða minna leyti koma við sögu hjá sveitarstjórnum. En endanlegur umfjöllunaraðili er að sjálfsögðu Almannavarnir ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki um þetta fleiri orð. Félagsmálanefnd leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem ég hef gert grein fyrir.