31.10.1984
Neðri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Stundum gerist málflutningur svo sérstæður að maður veit satt best að segja ekki hvort maður er staddur í löggjafarsamkomu þjóðarinnar eða hvort um einhverja undirnefnd á Íslandi er að ræða sem er að halda fund og hefur fengið fyrirmæli að ofan og er að þrjóskast við að fara eftir þeim. Fær það staðist að Alþingi Íslendinga geti með lögum falið hóp úti í þjóðfélaginu vald til þess að sá hópur geti eftir 10 eða 15 ár sent tillögur inn á Alþingi um hvernig eigi að breyta lögum og það Alþingi sem þá situr sé að brjóta lög ef það fer ekki eftir tillögunum? Höfum við rétt til að ráða málum á þennan hátt fram í tímann? Hvaðan kemur mönnum sú reginfirra að láta sér detta þetta í hug? Það má hafa verið meiri hálkan á götunum undanfarið ef menn hafa dottið svo illilega á höfuðið að þetta sé afleiðingin.

Hvernig dettur mönnum í hug að það sé hægt að ganga frá því í lagasetningum, einum eða tveimur, að fela einhverjum öðrum hópum úti í þjóðfélaginu ráðgjafar- og fyrirskipunarvald og svo kæmu bara tilkynningar inn á Alþingi um að það ætti að breyta þessum lögum á þennan veg og öðrum á hinn og Alþingi ætti að hlýða og það væri ósvífni ef Alþingi hlýddi ekki. Auðvitað vita þeir hv. þm. sem svona tala að þetta er rakalaust kjaftæði. Það er meira að segja svo vitlaust að þeim dettur varla í hug að trúa því að þeirra umbjóðendur geri sér ekki grein fyrir blekkingunum sem verið er að veifa. Ég held að með fullri virðingu fyrir 10. gr. í núgildandi lögum detti engum Íslendingi í hug að Alþingi hafi afsalað sér löggjafarvaldi til einhverrar nefndar. (JS: Ráðgefandi aðili.) Ráðgefandi aðili sem í túlkun hv. 2. landsk. þm. á ekki aðeins að vera ráðgefandi heldur raunverulega fyrirskipandi aðili gagnvart ráðherrum og Alþingi. (JS: Þetta er útúrsnúningur hjá hv. þm.) Þetta er ekki útúrsnúningur. Hv. þm. getur lesið sína eigin ræðu og áttað sig á því hvað hún var að segja. Það vekur undrun þegar menn halda uppi svona málflutningi og það er síst í þágu jafnréttis sem mönnum dettur í hug að halda uppi svona málflutningi.

Þá komum við að öðru hugtaki, sem mjög hefur verið notað hér í umr., hugtakinu „jákvæð mismunun“. Út af fyrir sig er það hugtakabrengl ef menn rugla saman jafnrétti og jákvæðri mismunun. Það er út af fyrir sig heil hugsun á bak við það að tala um jákvæða mismunun, en það er bara ekki jafnrétti. Það er mismunun. Annaðhvort eru menn að tala um jafnrétti eða þeir eru að tala um mismunun. (SvG: Það er mismunun til að ná jafnrétti.) Mismunun til að ná jafnrétti, sagði hv. 3. þm. Reykv. og löngum slunginn að snúa sig út úr hlutunum.

Ef menn vilja taka til efnislegrar gagnrýni það frv. sem hér er hljóta menn að verða að taka þar ákveðnar greinar og halda því fram að þær brjóti í bága við jafnrétti. Ef menn vilja flytja lög og lagafrv. á Alþingi um jákvæða mismunun á líka það nafn að vera á frv. Þá á ekki að vera að tala um jafnrétti. Þá á frv. að heita: Frumvarp um jákvæða mismunun og menn eiga að vera menn til að flytja það undir réttu nafni.

Stundum gerist það að yfir dynur notkun á orðum sem eiga öll uppruna sinn í stríði. Menn hertaka byggingar hér í Reykjavík. Menn berjast fyrir málefnum. Mig undrar það andrúmsloft ófriðar sem liggur til grundvallar þeirri notkun á æsingarorðum styrjalda sem telja, ef taka má mark á þessu, stríðið öllu E.t.v. endurspeglar það innra sálarlíf þeirra manna sem telja, ef taka má mark á þessu stríðið öllu skemmtilegra tímabil en þegar friður ríkir. Mér finnst að hver og einn sem kynnist íslensku þjóðlífi hljóti að gera sér grein fyrir því að hér á sér stað hröð þróun á mörgum sviðum. Hér á sér stað mjög hröð menntunarþróun á þann veg að konur stundi sama nám og karlmenn. Þetta er af hinu góða. Uppskeran af þessari þróun verður m.a. sú, að það verður æ algengara að konur nemi land í nýjum starfsgreinum sem áður voru aðeins starfsgreinar karlmanna. Þetta er af hinu góða. Þetta er hin jákvæða framrás sem orðið hefur í jafnréttismálum á Íslandi. Þess vegna getum við vissulega státað af því að hér hafa verið að gerast góðir hlutir og hér eru að gerast góðir hlutir á sama tíma og, því miður, mjög víða í heiminum er ástandið ægilegt í orðsins fyllstu merkingu. Hvers vegna telja þá ræðumenn rétt, þegar þeir eru að flytja hér boðskap um jafnrétti, að reyna að mála skrattann á vegginn og gera hlutina miklu svartari en þeir eru? Hver er tilgangurinn með slíkum málflutningi? Er tilgangurinn sá að reyna að auglýsa sig upp sem einhverjar sérstakar jafnréttishetjur? Er það hugsunin á bak við? Kannske stríðshetjur sem vinni stríðið í jafnréttisbaráttunni miklu? Ég tel að það sé æskilegt að Alþingi Íslendinga nái friði um málefni eins og þetta og að við ruglum ekki saman hugtökum. En mér þætti vænt um það ef menn gerðu þá grein fyrir því hvaða efnisatriði það eru í þessu frv., sem hér er lagt fram, sem vinna gegn jafnrétti. Það stendur hvergi að þetta frv. sé um jákvæða mismunun. Það hefur ekki verið lagt fram neitt frv. á þinginu um jákvæða mismunun. Þingmannafrumvarpið ber sama heiti. Það frv. er lagt fram í nafni jafnréttis.

Ég hef ekki löngun til að halda uppi málþófi um þetta mál. En mig undrar það þegar í krafti hugtakablekkinga er verið að reyna að mála hvítt svart hér í þingsölum.