31.10.1984
Neðri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, enda geri ég ráð fyrir að þessi frv., sem er verið hér að ræða samtímis, muni koma í þá nefnd sem ég á sæti í.

Erindi mitt hingað er fyrst og fremst að vekja athygli á því að ég held að ekki sé beitt eðlilegum vinnubrögðum þar sem hér liggur fyrir stjfrv. um sama efni og þmfrv. sem er lagt fram. Því ekki að flytja brtt. við stjfrv. þar sem það er í sjálfu sér alveg sama efnið sem er um fjallað, enda óskaði forseti deildarinnar eftir að frv. væru rædd samhliða? Ég verð að segja að ég hef lesið þessi frv. yfir og ég sé ekki að það sé eðlilegt að leggja fram heilt frv., heldur mætti flytja brtt. við nokkrar greinar stjfrv. Sumar greinarnar í þmfrv. eru alveg orðrétt teknar upp.

Ég hef hlustað með athygli á þær umr. sem hér hafa farið fram og ég verð að segja það að ef einhverjir hv. þm. halda að hægt sé að útrýma misrétti í heiminum með lagasetningu, eins og væri hægt að álíta eftir sumar þær ræður sem hafa verið fluttar, þá væri gaman að lifa, ef það væri svo einfalt. Það er sjálfsagt í þessum málum eins og öðrum að með lögum verður misrétti því miður aldrei útrýmt. Hins vegar er e.t.v. hægt að taka smáskref, eins og er verið að reyna að gera.

Þessi frv. verða skoðuð og ég hef ekki trú á öðru en að allir alþm. vilji reyna að gera sitt til þess að minnka mismunun í þjóðfélaginu. Ég vonast til þess að félmn. taki þessi frv. til athugunar með því hugarfari.