13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5133 í B-deild Alþingistíðinda. (4413)

488. mál, orkulög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég get verið afar stuttorður um þetta mál. Mér sýnist að þetta sé heldur skynsamleg breyting, að gera þær ráðstafanir sem gera það kleift að koma í verð þeirri miklu þekkingu og reynslu sem er fyrir hendi hér á landi á þessum sviðum, og ég held raunar að þetta hefði fyrr mátt gerast. Mér sýnist við fyrstu skoðun málsins að þetta sé mál sem vert sé að styðja og eðlilegt sé að hafi greiðan framgang.

Það er aðeins eitt sem ég vildi beina til þeirrar nefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar og sem ég hef hnotið um hér og það er þetta orð „að markaðsfæra“ sem er orðskrípi og ekki íslenska að mínu mati. Þetta er vond danska. Ég mundi leggja til að það yrði tekið til íhugunar að nema þetta orð brott úr frv. og leita annarra leiða til að koma þeirri hugsun á framfæri sem þarna býr á bak við.