13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5134 í B-deild Alþingistíðinda. (4415)

488. mál, orkulög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. hefur hér lagt fram frv. til l. um breytingu á orkulögum sem m. a. felur það í sér að ráðh. verði veitt heimild til að stofna hlutafélag sem hafi það hlutverk að selja á erlendum markaði þekkingu sem Orkustofnun hefur byggt upp úr sínum fórum og ræður yfir á hinum ýmsu sviðum jarðhitarannsókna og vatnsorkurannsókna. Ég vil láta það sjónarmið í ljós þegar við 1. umr. málsins að ég tel að það sé skynsamlegt mál á ferðinni og að eðlilegt sé að standa að málum með þeim hætti sem hér er gert. Ég er sem sagt ekki alls kostar sammála þeim frjálshyggjusjónarmiðum sem að jafnaði koma fram hjá talsmönnum Bandalags jafnaðarmanna. Ég tel þvert á móti að það sé nauðsynlegt og sjálfsagt að ríkisvaldið hafi forustu með þeim hætti, sem hér er lagt til, að nýta í þágu íslensks efnahagslífs þá miklu reynslu og þekkingu sem við höfum öðlast á undangengnum árum.

Oft hafa orðið harðar og miklar umræður um Kröfluvirkjun og oft hefur því verið haldið fram að sú virkjun muni ekki standa undir sér, en það er sannarlega mjög umdeilanlegt og reynslan á eftir að skera úr um það. En eitt veit ég, að þeir menn sem unnið hafa að jarðhitarannsóknum hafa sannarlega öðlast mikilvæga reynslu og þekkingu í glímunni við þau einstæðu og sérstæðu vandamál sem við hefur verið að glíma við Kröflu og það er enginn vafi á því að sú mikla og langvinna glíma hefur einmitt skapað okkur hér á landi meiri og merkilegri þekkingu á þessu sviði en unnt er að finna víðast annars staðar. Ég tel því að það sé svo sannarlega rétt að málum staðið þegar reynt er að gera sér þessa reynslu og þekkingu, sem við svo sannarlega höfum orðið að gjalda töluvert fyrir, að söluvöru á erlendum vettvangi.

Ég vil í þessu sambandi láta þess getið að í tíð fyrrv. iðnrh. var unnið að undirbúningi allmargra laga á sviði orkumála. Það var unnið að frumvarpsgerð og frv. til laga um Orkustofnun, Orkusjóð og Rafmagnsveitur ríkisins voru tilbúin af hálfu rn. þegar fyrrv. ríkisstj. fór frá. Ég hygg að þessi frumvörp hafi auk þess verið lögð fram hér í þinginu og hafi verið lögð, eins og ég hef þegar rakið, mikil vinna í að undirbúa þau og virtist ekki vera mikið því til fyrirstöðu að unnt væri að gefa þinginu færi á að endurskoða þessa mikilvægu málaþætti. En síðan hefur lítið heyrst frá þessum frumvörpum og ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. iðnrh., úr því að tilefni gefst hér, hvað orðið hefur um þau frv. sem hér um ræðir og þá miklu vinnu sem í þau hefur verið lögð og hvort ekki sé von á því að frv. um þessi efni komi fyrir þingið þó ekki væri fyrr en á næsta hausti. Það er sennilega ekki á bætandi stjfrv. sem koma hér inn á seinustu stundu. Ég er ekki að biðja um að fá að sjá hér ný stjfrv. þessa seinustu þingdaga, það er víst nóg af slíkum fráleitum vinnubrögðum, en það væri vissulega fróðlegt að vita hvað þessari frumvarpssmíð líður og hvort ekki sé von á því að þingið fái á næsta vetri að fjalla um þessi mál.