13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5140 í B-deild Alþingistíðinda. (4422)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Flm. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Á þskj. 694 hef ég ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds og Helga Seljan lagt fram frv. til laga um launakjör bankastjóra og ráðherra. Hinar tvær efnisgreinar frv. eru svohljóðandi með leyfi forseta:

„1. gr. Þrátt fyrir ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og laga um ríkisbankana skulu launakjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ákveðin af Kjaradómi, sbr. lög nr. 46/1973. með síðari breytingum. Sama gildir um forstjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins.

2. gr. Hvers konar hlunnindi bankastjóra og ráðh., sem fela í sér að greiddur sé tollur af innflutningi einkabifreiða, eru bönnuð, svo og hvers konar launauppbætur í staðinn fyrir þessi hlunnindi.“

Í grg. með frv. segir einnig, með leyfi forseta:

„Þetta frv. er flutt í framhaldi af umræðum um bílafríðindi bankastjóra undanfarna daga. Frv. gerir ráð fyrir því að Kjaradómur ákveði framvegis öll kjör bankastjóra í stað bankaráðanna eins og nú er.

Þingflokkur Alþb. gerði miðvikudaginn 10. apríl eftirfarandi samþykkt um þessi mál:

„Þingflokkur Alþb. lýsir fullri andstöðu við bílafríðindi bankastjóra og ráðh. Þingflokkurinn minnir á að Alþb. hefur beitt sér fyrir því að þessi bílafríðindi verði felld niður til handa ráðherrum og ráðherrar flokksins í síðustu ríkisstj. notfærðu sér ekki þessi hlunnindi og slíkar greiðslur til þeirra því ekki tilefni til neinna fríðinda bankastjóra. Þingflokkur Alþb. leggur áherslu á eftirfarandi aðgerðir vegna bílafríðinda bankastjóra:

1. Kaup og öll launakjör bankastjóra verði ákveðin af Kjaradómi og afgreiðsla þeirra mála tekin frá bankaráðum.

2. Bílagreiðslur til bankastjóra verði með öllu stöðvaðar frá 1. janúar 1985 enda verður ekki séð að störfum bankastjóra fylgi nokkur sérstök þörf á bifreiðaakstri.““

Eins og hv. þm. er í fersku minni upplýsti eitt af dagblöðum borgarinnar 3. apríl s. l. að bankastjórar ríkisbankanna og forstjórar Framkvæmdastofnunar ríkisins hefðu fengið launaauka sem næmi 450 000 kr. á ári. Sem eðlilegt var upphófust nú miklar umr. um þennan launaauka, bæði hér á hv. Alþingi svo og í fjölmiðlum og meðal almennings. Svo virtist sem allir væru yfir sig hneykslaðir og andvígir þessum launafríðindum. Viðskrh. fór fram á grg. aðila og fjmrh. lýsti því yfir að þetta yrði að stöðva. Þingflokkar hver af öðrum gáfu út yfirlýsingar um málið þar sem þessum fríðindum var mótmælt.

Ekki lá jafnframt á hreinu hver eftirleikurinn skyldi vera, hvernig þessum málum yrði fyrir komið í framtíðinni. Frv. okkar er flutt í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að það komi fyrir aftur að teknar séu ákvarðanir um launagreiðslur til nokkurra hæst launuðu starfsmanna í ríkiskerfinu án nokkurra tengsla við þróun launa í landinu. Það að bankaráðin skuli ákveða launakjör bankastjóra ber í sér og framkallar óréttlæti og vafasamar ákvarðanatökur svipaðar þeim sem nú um stund hafa verið hvað mest til umræðu.

Um leið og NT birti fréttina um vísitölutryggðu 450 þúsundin til hvers bankastjóra kom strax í ljós hversu hvert bankaráð var vanmegnugt til afdráttarlausrar ákvarðanatöku út af fyrir sig. Það var farið að metast á um það hvaða bankaráð hefði samþykkt þetta fyrst. Fljótlega kom í ljós að bankaráð sjálfs Seðlabankans hafði riðið á vaðið. Eftir umræðum að dæma virtist svo að bankaráð Landsbanka. Útvegsbanka og Búnaðarbanka hafi druslast á eftir að samþykkja kröfur sinna bankastjóra sem voru færðar þeim bankastjórum á silfurfati af bankastjórn Seðlabankans. Hér í hv. Ed. Alþingis hefur það verið undirstrikað og margoft yfirlýst að seðlabankastjóri Jóhannes Nordal sé snillingur við samningagerð, mjög góður samningamaður og haldi þar vel á sínum hlut. Því miður hefur það sannreynst með meðferð þessa máls í bankaráði Seðlabankans.

Hvernig færi það á vinnumarkaðnum ef hver semdi fyrir sig, hver skipstjóri væri á sérsamningi, hver menntaskólarektor semdi við sína skólanefnd? Thorlaciusinn í Hamrahlíðarskólanum næði út úr sinni skólanefnd svipuðum kjörum og Nordalinn í Seðlabankanum náði út úr sínu bankaráði? Almenningur mundi að vísu una því að Thorlaciusinn fengi svipuð kjör og Nordalinn en við vitum að því verður bara ekki að heilsa með því kerfi sem við búum við. Samþykktir bankaráða ríkisbankanna um kaupauka og fríðindi bankastjóra og hvernig að því var staðið fyrir forgöngu bankastjóra og bankaráðs Seðlabankans sýnir að það er fráleitt að láta fjögur bankaráð um það að ákveða launakjör bankastjóra. Eins og í ljós hefur komið getur hvert bankaráð fyrir sig verið leiðandi og gert samþykktir sem önnur bankaráð taka síðan sem fyrirmyndir að sínum ákvörðunum.

Fyrst slíkt hefur átt sér stað nú og með þeim fádæmum sem varla þarf frekar um að ræða getur það endurtekið sig nema lögum verði breytt. Því ber að nema úr gildi heimild bankaráða ríkisbankanna til að ákveða launakjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra og fela það vald Kjaradómi. Sömu rök hníga að því að Kjaradómur ákveði laun bankastjóra og ráðuneytisstjóra. Alþb. hefur beitt sér fyrir því að bílafríðindi ráðh. og þar með bankastjóra verði felld niður. Ráðh. Alþb. í síðustu ríkisstj. notfærðu sér ekki þessi hlunnindi.

Bifreiðahlunnindi bankastjóra voru hin sömu og ráðh. og hafa verið óbreytt í 15 ár frá 1. ágúst 1970. Nokkrar atrennur hafa verið gerðar að þessum fríðindum til að afnema þau en ríkisstj, og Alþingi hafa ekki komið sér saman um afnám á þeim ef frá er skilin yfirlýsing hæstv. fjmrh. um að hann hafi breytt þessum fríðindum nú fyrir nokkrum dögum næstum í það sama form og var fyrir 15 árum og þá var talið illt við að búa. Fríðindin eru því í gildi enn þá, þó í annarri mynd sé, en með skattfrjálsri tollaeftirgjöf eða með 450 þús. kr. lánskjaravísitölutryggðri uppbót á ári.

Síðasta umfjöllun, sem ég hef tekið eftir í fjölmiðlum um launasamninga Jóhannesar Nordals við bankaráð Seðlabankans sá ég í Morgunblaðinu 7. þessa mánaðar og er samþykkt frá félagsfundi Iðju, félags verksmiðjufólks. Mig langar til að lesa þessa samþykki. með leyfi virðulegs forseta:

„Aðalfundur Iðju, félags verksmiðjufólks, haldinn 24. apríl 1985 lýsir yfir undrun sinni á ákvörðun bankaráða um 450 þús. kr. bifreiðastyrk til bankastjóra ríkisbankanna á ári hverju og þar á ofan verðtryggt með lánskjaravísitölu meðan verðtrygging launa er bönnuð með lögum. Þessi greiðsla til bankastjóranna svarar til 28 meðalmánaðarlauna iðnverkafólks. Fundurinn telur þetta furðulega ósvífni þar sem bankastjórar eru með yfir 80 þús. kr. mánaðarlaun, en í allri umræðu um kjaramál þeirra lægst launuðu telur forsrh. höfuðnauðsyn að ná þjóðarsátt um sem lægstar launahækkanir í krónutölu. Þetta sannar að ekki er sama hver í hlut á. Því skorum við á stjórnvöld að láta þessar greiðslur ekki koma til framkvæmda og afnema greiðslur á aðflutningsgjöldum og rekstri bifreiða bankastjóra þar sem þeir þurfa ekkert meira á bifreið að halda en aðrir launþegar.“

Þessi samþykkt Iðju, félags verksmiðjufólks, fellur í einu og öllu að þeim till. sem við Alþb.-menn flytjum hér og tek ég undir þessa samþykki. Mál er að slíku fyrirkomulagi linni. Frv. okkar felur í sér afnám hlunninda og bann á launauppbótum í staðinn fyrir hlunnindi. Frv. ætlar Kjaradómi að taka að sér hlutverk bankaráða í sambandi við launakjör bankastjóra. Með samþykkt þessa frv. verður komið í veg fyrir ákvarðanatöku með svipuðum aðdraganda og afgreiðsla bankaráðanna var í sambandi við kaupauka bankastjóra á nýliðnum vetri.

Ég legg svo til að lokinni þessari umr. að frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.