13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5142 í B-deild Alþingistíðinda. (4423)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Gyðingaofsóknir eru fyrir nokkru aflagðar og upp teknar bankastjóraofsóknir. Ég segi þetta ekki vegna þess að ég sjái ekki ofsjónum yfir launum bankastjóra eins og margir hverjir í þessu landi, heldur vegna þess hvaða leiðir menn fara til þess að komast hjá því að tala um aðalatriði þessa máls. Þessi till. er á yfirborðinu till. um það að flytja ákvarðanatöku um laun bankastjóra frá bankaráðum til Kjaradóms. Sé horft til þess frá hverjum till. kemur — hún kemur sem sé frá fulltrúa þess flokks sem hér hefur talið sig vera talsmann verkalýðsins í landinu — er hún út frá grundvallarsjónarmiðum nokkuð einkennileg.

Ef þeir telja Kjaradóm vera það tæki, sem leiðrétt getur kjör manna á þann veg sem þeir helst æskja, í þessu tilviki að draga úr launum og kjörum manna, þá hlýtur Kjaradómur líka að geta virkað á hinn veginn fyrir þá sömu höfunda, þ. e. geta bætt kjör þeirra sem bætt kjör þurfa. Næsta till. væri þá eðlilega sú að flytja frv. um að kjör alls launafólks á Íslandi yrðu ákveðin af Kjaradómi.

Einhverra hluta vegna grunar mig samt sem áður að þessir sömu aðilar séu ekki á því að gefa eftir þann litla skika af samningsrétti sem launþegar þó enn þá halda (Gripið fram í.) Nei, þessi till. er í raun og veru allt annað. Þessi till. er hrein vantrauststillaga á bankaráð. Hún er vantrauststillaga á hlutverk og verkefni bankaráða. Þetta er raunverulega eitt af þeim fáu verkefnum sem bankaráðum eru falin með lögum, að ákveða kjör bankastjóra. Þeir eru samninganefndin við bankastjóra — (Gripið fram í: Er það eðlilegt?) Hvers vegna er það óeðlilegt að það sé einhver aðili sem semur við bankastjórana? Ég er ekki að segja að ekki mætti koma þessum málum fyrir öðruvísi. Ég er að segja að þetta er fyrst og fremst vantrauststillaga á bankaráðin. Þau eru ekki talin hæf til að taka þetta hlutverk að sér og þá er orðið tiltölulega mjög lítið eftir af hinu eiginlega hlutverki þeirra og umboði.

Hvers vegna ekki að ganga bara þetta skref til fulls og segja einfaldlega: Burt með bankaráðin? Þau hafa í raun engu hlutverki að gegna. Þeirra hlutverk á vegum löggjafans innan veggja bankanna var að mestu leyti þetta litla, að hafa umsagnir og ákvarðanatöku um ráðningu bankastjóra og ákveða kjör þeirra. Það er orðið afskaplega lítið eftir af hinu eiginlega umboði þessara bankaráða sem þau þarna hafa af hendi löggjafans. Segja má að gagnsleysi þeirra sé þar með orðið algjört með þessari till. Þar með erum við hv. flm. Skúli Alexandersson — þó að hann hafi ekki sagt það hér berum orðum — líklega í hjarta okkar orðnir sammála. En ég verð að viðurkenna að ég hef ekki þá trú á stöðu og hlutverki Kjaradóms að ég geti stutt þessa till. frekar en aðrar sem fram eru hér komnar um að flytja samningsrétt frá fólki, hvort sem það eru bankastjórar eða verkamenn, til Kjaradóms.