13.05.1985
Efri deild: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5143 í B-deild Alþingistíðinda. (4424)

422. mál, launakjör bankastjóra og ráðherra

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar, en vil segja hér örfá orð við 1. umr. þessa máls.

Ég vil lýsa mig andvíga 1. gr. þessa frv. og láta það koma hér fram að mér finnst að verið sé að hlaupast frá vandanum með því að vísa launamálum bankastjóra til Kjaradóms umsvifalaust. Ég teldi langeðlilegast að bankastjórar, aðstoðarbankastjórar og forstjórar Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem 1. gr. tekur til, tækju laun skv. launasamningum opinberra starfsmanna, að í slíkum samningum væru laun þeirra ákveðin eins og annarra opinberra starfsmanna.

Það segir sig sjálft að með því að að skilja hæst launuðu ríkisstarfsmennina frá öðrum opinberum starfsmönnum með þeim hætti að vísa launakjörum þeirra fyrrnefndu án nokkurs formála beinustu leið í Kjaradóm er í rauninni verið að fága enn eitt verkfærið til að halda almennum opinberum starfsmönnum niðri í launasamningum. Hæst launuðu ríkisstarfsmennirnir eru, ef svo einfaldlega má að orði komast, mikilvægur þrýstihópur í samningum um kaup og kjör opinberra starfsmanna. Ef samningar um kaup og kjör opinberra starfsmanna stranda er þeim vitaskuld vísað til Kjaradóms og þá mundu bankastjórar, aðstoðarbankastjórar og forstjórar Framkvæmdastofnunar ríkisins fylgja með til Kjaradóms ásamt öðrum opinberum starfsmönnum og laun þessara starfsmanna allra metin saman í heild.

Ég vil vekja athygli á að á síðasta þingi kom hér fram frv. og var afgreitt um breytingu á lögum nr. 46, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þetta var 276. mál síðasta löggjafarþings og það gekk í stuttu máli út á það að þar var fjölgað þeim embættismönnum sem taka laun skv. Kjaradómi, þeim embættismönnum sem ekki þurfa að hlíta samningum við opinbera starfsmenn heldur eru ákvarðanir um þeirra kaup og kjör færðar til Kjaradóms. Hv. fjh.- og viðskn. Ed. klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls. Meiri hl. nefndarinnar, sem samanstóð af fulltrúum Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb., lagði til að þetta mál yrði samþykkt hér í Ed. en minni hl., sem fulltrúi Kvennalistans í nefndinni skipaði ásamt hv. þm. Stefáni Benediktssyni sem er áheyrnaraðili að nefndinni, lagði til að frv. yrði fellt á þeirri forsendu að eðlilegast væri að þeir aðilar, sem þetta frv. tók til, tækju sín laun skv. kjarasamningi opinberra starfsmanna en væri ekki vísað til Kjaradóms.

Þetta frv. var samþykkt hér í Ed. óbreytt. En síðan gerðust þau tíðindi að þegar þetta frv. kom til meðferðar í Nd. sameinaðist stjórnarandstaðan í hv. fjh.- og viðskn. Nd. um að fella niður 1. og 2. gr. frv. sem eru megingreinarnar, þ. e. þær greinar sem taka til hvaða opinberir starfsmenn skuli taka laun skv. Kjaradómi. Þarna urðu því viðhorfsbreytingar hjá fulltrúum Alþb. og Alþfl. á milli deilda.

Enn önnur viðhorfsbreyting eða kollsteypa hefur átt sér stað eftir því sem best verður séð því að allir þm. Alþb. í þessari hv. deild standa að því að flytja það frv. sem hér er nú til umr. sem efnislega hljóðar upp á það að vísa launakjörum bankastjóra, ráðherra og forstjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins í Kjaradóm. Ekki hefur enn komið fram við þessa umr. hver er afstaða Alþfl.manna til þessa máls, hvort þar hefur einnig átt sér stað kúvending. En ég vek athygli á því að þarna er um dálítið kyndugt mál að ræða. Ég endurtek það að ég hef ekki skipt um skoðun frá því í fyrra, ég er andvíg því að launakjörum hæst launuðu ríkisstarfsmanna sé vísað til Kjaradóms. Ég tel að þau eigi tvímælalaust heima í almennum samningum við opinbera starfsmenn.

2. gr. þessa frv., sem hér er til umr., er ég hins vegar samþykk. Þær upplýsingar, sem fram komu hér fyrir ekki svo löngu síðan, um að 450 þús. kr. ættu að greiðast á ári til bankastjóra vegna bílakaupa komu vitaskuld eins og löðrungur framan í þjóð sem hefur mátt búa við gífurlegar kjaraskerðingar á undanförnum misserum. Þingflokkur Kvennalistans gerði á sínum tíma ályktun um þetta og hefur þegar verið gerð grein fyrir henni hér á hæstv. Alþingi og ætla ég ekki að endurtaka það. Ég ítreka aðeins að á meðan ég er andvíg 1. gr. frv. er ég sammála 2. gr. þess þótt ég telji að þar með sé engan veginn nóg að gert. Bílahlunnindi tíðkast miklu víðar í hinu opinbera kerfi en meðal þeirra aðila sem þetta frv. nær til og það er kominn tími til að taka á þessum málum öllum í heild, þessum skollaleik, sem ég vil kalla svo, í launamálum verði hætt, að hver og einn fái einfaldlega sín laun metin eftir venjulegum aðferðum skv. starfsmati þar sem allir þættir starfsins eru teknir með í reikninginn en þar sem aukahlunnindi, styrkir og uppbætur koma ekki til greiðslu aukalega umfram það sem umsamið er sem launakjör.