31.10.1984
Neðri deild: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Afstaða Kvennalista hefur þegar komið fram í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur á þessu þingi og í máli mínu um bæði þessi frv. í fyrra.

En ég gat nú ekki orða bundist við að hlusta á umræðuna. Mig langaði aðeins til að segja nokkur orð og eiginlega finnst mér leitt að ég skuli ekki hafa fleiri gögn undir höndum til þess að auðga mál mitt með. En ósköp er það nú ríkt í mannlegu eðli að þeir sem hafa öðlast vald reyna af alefli að varðveita aðgang sinn að valdinu. Og blessaðir karlarnir verja þau forréttindi, sem þeir hafa tryggt sér, með öllum ráðum. Einhver hefði nú sagt „með kjafti og klóm“, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, hvar sem þú ert staddur. Alveg er ég nú sammála hv. þm. að daglegt mál okkar er allt of mengað og illa skotið stríðsyrðum, en hv, þm., hver skyldi nú hafa stráð þessum orðum í málið? Skyldu það vera stríðsmennirnir sjálfir?

Ég ætla ekki að ræða ítarlega jákvæða mismunun núna. Við höfum tekið afstöðu til hennar og rætt hana. En ég má til með að ítreka fyrir hv. þm. að megintilgangur jafnréttisfrv. er einmitt að jafna rétt kynjanna og það er vegna þess að á annað kynið hallar. Og er þá ekki besta leiðin að lyfta því kyninu upp sem lægra er sett og hefur minni tækifæri og möguleika til að sjá sér farborða í lífinu?

Ég skil ekki alveg hvers vegna hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni er svo mikið í nöp við jákvæða mismunun. Mér datt reyndar í hug ágætt dæmi um jákvæða mismunun. Ég átti einu sinni frænda sem fékk sjúkdóm þegar hann var barn. Þannig varð annar fóturinn styttri en hinn. En til þess að báðir mættu jafnlangir verða þá var aukið undir skóinn. Þetta finnst mér vera lýsandi dæmi um jákvæða mismunun.

Hv. 3. þm. Reykv. brá sér yfir í sagnfræði í máli sínu áðan, og það vildi ég að ég hefði við hendina þær umr. sem fram fóru hér á hv. Alþingi, og ég vil benda þm. á að kynna sér þær, þegar var verið að knýja það í gegn með lagaboði, með lagasetningu, hv. 2. þm. Reykv., að veita konum kosningarrétt. Það voru furðuleg hugskot sem opnuðust þá og karlar óttuðust mikið hvað verða mundi í þjóðfélaginu ef konum yrði öllum sleppt lausum í einu að kosningarrétti. Ég ráðlegg hv. 2. þm. Reykv. að kynna sér þessar umr. (JS: Það hefur verið lesið upp hér í þingsal.) Ja, það veitti ekki af því að lesa þær aftur og aftur og enn einu sinni því að þar hrundu mörg gullkorn sem hefðu getað varpað ljósi á fordóma nútímans.

Ég er sammála hv. 2. þm. Reykv. að það er erfitt að setja löggjöf um siðferði eða hugarfar. Og víst væri betra að ekki þyrfti að setja lög í þessum efnum. En nú spyr ég eins og fávís kona: Eru ekki lög sett einmitt m.a. til þess að koma í veg fyrir siðleysi? Er það ekki siðleysi að karlar skuli hafa rúmlega 50% hærri laun en konur þrátt fyrir mikið vinnuframlag beggja aðila, er það ekki siðleysi?

Ég vona síðan að í meðferð n. og meðferð Alþingis komi eitthvað út úr þessum báðum frv. sem breytir í einhverju því ástandi sem nú er því annars væri það ekki mikils virði að hafa flutt þau.