13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5157 í B-deild Alþingistíðinda. (4451)

5. mál, útvarpslög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Kjarninn í tillögum okkar Alþfl.-manna við afgreiðslu á þessu lagafrv. var um boðveitukerfi í eigu sveitarfélaga. Þær tillögur lögðum við fram strax á s. l. hausti. Þetta teljum við vera lykilatriði og þýðingarmesta atriði þessarar lagasetningar og reyndar forsenda fyrir lýðræðislegri þróun fjölmiðla og boðmiðlunar í upplýsingaþjóðfélagi framtíðarinnar.

Með vísan til þess að með þessari atkvgr. hefur þessum kjarna málsins verið hafnað teljum við það slíka missmíði á frv. að ég mun ekki greiða atkvæði.