13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5158 í B-deild Alþingistíðinda. (4457)

5. mál, útvarpslög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Í allan vetur hefur þetta útvarpslagafrv. verið til meðferðar, bæði hér í hv. deild og í menntmn. og við þessa atkvgr. í dag hafa menn tekið málefnalega afstöðu til einstakra ákvæða og brtt. eins og gengur og gerist.

En nú á síðasta stigi málsins í þessari deild, lokastigi 3. umr., virðist sú stund vera að renna upp að afturhaldsöflin hafa sameinast í því að bregða fæti fyrir þetta útvarpslagafrv., bregða fæti fyrir frjálsræði á þessum vettvangi. Þetta er náttúrlega eins og hver annar skrípaleikur sem ekki mun auka virðingu Alþingis. Ég hef meiri trú á frjálsræðinu en svo að ég óttist það hvort einhverjir menn kunni hugsanlega að hagnast á útvarpsrekstri eða ekki í framtíðinni. Það skiptir mig minna máli en hitt, að veita frelsinu brautargengi á sviði fjölmiðlunar. Ég segi því já.