13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5159 í B-deild Alþingistíðinda. (4462)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Þó að nokkuð sé nú búið að ræða þetta dagskrármál sé ég ástæðu til að fara um það nokkrum orðum hér í Nd. við lokaumr., ekki síst vegna þess að ýmislegt hefur komið fram í umr., og þá ekki síst hjá hæstv. félmrh., sem aths. þarf við að gera. En áður en ég kem að því vil ég fara nokkrum orðum um brtt. sem ég flyt ásamt hv. þremur þdm. öðrum. Þessar brtt. eru fyrst og fremst fram bornar vegna þeirra umræðna sem átt hafa sér stað að því er varðar málið bæði nú og eins á fyrra þingi þegar það var hér til meðferðar.

Efnislega eru tillögurnar á þá lund að ekki hafi verið tekið tillit til sjónarmiða launþega og verkalýðshreyfingar í þessum tilvikum.

Á þskj. 803 er brtt. við 4. gr. b-lið og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við b-lið bætist: ríkisábyrgðin tekur einnig til kröfu launþega í bú banka eða sparisjóðs um greiðslu orlofsfjár sem vinnuveitandi hefur greitt bankanum eða sparisjóðnum til varðveislu skv. sérstökum orlofsfjárvörslusamningi síðustu tólf starfsmánuði launþega hjá vinnuveitanda, að því leyti sem það tímabil fellur innan tímamarka þeirra sem orlofsfjárkröfu fylgir forgangsréttur í búið.“

Eins og ég hef áður gert grein fyrir hér í umr. um þetta mál og oftar en einu sinni er hér um að ræða brtt. til að taka af öll tvímæli um að ríkisábyrgð nái til orlofsfjár sem greitt er inn skv. sérstökum samningum sem gerðir voru á sínum tíma á Vestfjörðum um innborgun og ávöxtun orlofsfjár.

Nú þarf ekki, held ég, að deila um að í póstgírókerfinu er þetta nánast ríkistryggt, um það hygg ég að þurfi ekki að deila. Með þessari brtt. er lagt til að orlofsþegar á Vestfjörðum, sem hafa gert samninga skv. gildandi lögum um orlof, njóti sama réttar til ríkisábyrgðar á innborguðu orlofsfé í sparisjóðum og tíðkast í póstgírókerfinu. (GJG: Er það bara á Vestfjörðum?) Nú ætlaði ég að hlífa hv. 7. þm. Reykv. við því að tala um hans þátt í þessu máli, en hann vekur það upp strax í upphafi umr. þannig að nauðsynlegt er að koma að því. Hv. þm., sem er jafnframt formaður Verkamannasambands Íslands og á þar að gæta þessara hagsmuna, ekkert síður okkar Vestfirðinga en annarra, á sæti í þeirri nefnd sem um málið fjallaði, en klikkaði þar. Hann hefði ekki átt að grípa fram í í sambandi við þetta mál. Ég tala ekki um þegar verkalýðshreyfingin sem heild, nefnd undir forsæti hv. þm. sem á sínum tíma átti að fjalla um þetta, var sammála um að þessa breytingu þyrfti að gera. Ég kem síðar að áliti starfshóps sem settur var á fót af miðstjórn ASÍ einmitt vegna þessa. En hitt er svo rétt hjá hv. þm. að það er sem betur fer víðar en á Vestfjörðum sem samningar hafa verið gerðir í þessa átt, en þó hygg ég hvergi sem uppfylla tryggingu orlofslaganna gagnvart launþegunum eins og í Vestfjarðasamningunum. (GJG: Borgarnes, Vestmannaeyjar.) Nei, Borgnesingar og Vestmanneyingar eru ekki með þá tryggingu. Það er rangt hjá formanni Verkamannasambandsins og þarf hann að lesa sér betur til í þeim efnum. Það samkomulag er fyrir hendi, en þar er ekki tryggður réttur launþegans eins og orlofslögin gera ráð fyrir. Þetta hygg ég að hv. þm. komist að raun um ef hann les þessa samninga og hefur lögin til hliðsjónar. Ég held að hann hljóti að hafa gert það í hv. nefnd sem um þetta fjallaði.

Nú skal það tekið fram að trúlega eru litlar líkur á því sem betur fer að til þess komi að sparisjóðir fari á hausinn t. d. En það er þó hugsanlegur möguleiki. Með þessari brtt. er verið að setja fyrir þann leka, að ef slíkt hendi sé orlofsfé viðkomandi launþega tryggt. Ég trúi því ekki og við flm. fyrr en þá á því verður tekið að hv. Alþingi ætli að mismuna orlofsþegum í þessum efnum. Ég vil ekki trúa því fyrr en á reynir, eftir að hv. þm. hafa athugað þetta mál gaumgæfilega og án allra kreddusjónarmiða, að þeir ætli að mismuna launþegum í þessum efnum eftir því hvar þeir búa í landinu. Það er viðurkennt að það samkomulag sem var gert á sínum tíma á Vestfjörðum er fullkomlega löglegt og er innan ramma þeirra laga sem um orlof fjalla þannig að auðsótt ætti að vera að fá þessa breytingu á þessu frv.

Það er rétt að víkja að þessu frekar vegna þess að nú er vitað að verkalýðshreyfingin sem heild hefur óskað eftir því að þessi breyting yrði gerð á lögunum um ríkisábyrgð á launum. Hæstv. félmrh. sagði eitthvað á þá leið í umr. um daginn að ekki væri hægt, að sínu mati, að leggja til annað en það sem frv. gerir meðan launþegahreyfingin sjálf vill ekki breyta þarna um. Þetta er algerlega rangt, hæstv. ráðh. Það liggur fyrir skjalfest að hreyfingin sjálf hefur óskað eftir þessu.

Í bréfi, sem ritað var 14. maí 1984 til félmn. þessarar hv. deildar, formanns hennar, hv. þm. Þorsteins Pálssonar, og er undirritað af skrifstofustjóra Alþýðusambands Íslands, segir m. a., með leyfi forseta:

„Þann 10. des. 1981 skipaði þáv. félmrh. nefnd til að endurskoða gildandi lög um ríkisábyrgð á launum og átti ASÍ fulltrúa í þeirri nefnd sem var Egill Sigurgeirsson hrl. Nefndin lauk störfum síðari hluta árs 1982. Ekki voru nefndarmenn sammála um niðurstöður og lýsti fulltrúi ASÍ í nefndinni því yfir að af hálfu ASÍ væri óskað eftir því að ríkisábyrgðin væri víðtækari en ráðgert væri í frv. á þann hátt að hún næði bæði til orlofsfjárkrafna og krafna um lífeyrissjóðsiðgjöld, bæði hvað varðaði iðgjaldahluta vinnuveitenda og launþega. ASÍ fékk í hendur drög og fundargerðir nefndarinnar 22. febr. 1983 og ritaði forseti ASÍ þáv. félmrh. Svavari Gestssyni bréf þar sem sömu aths. voru fram settar af hálfu ASÍ við frumvarpsdrög sem þá lágu fyrir.

Í bréfi þessu frá ASÍ til ráðh. segir m. a.:

„Það vekur nokkra athygli að nefndin virðist ekki skila af sér með formlegu skilabréfi og sá ágreiningur sem uppi var innan nefndarinnar um einstök atriði er því falinn í fundargerðum sem einstökum nm. hafa reyndar ekki verið sendar til staðfestingar. Í nefndarstarfinu virðast fulltrúar rn. hafa túlkað verkefni nefndarinnar það þröngt að einungis væri stefnt að auknu hagræði fyrir lögfræðistéttina við framkvæmd laganna og engar efnislegar breytingar kæmu til greina nema til þrengingar. Þessi túlkun ráðuneytisfullfrúanna gengur þvert á það sjónarmið sem áður hafði fram komið í viðtali félmrh. við fulltrúa ASÍ. Við hljótum því að treysta því að fullur vilji sé af hálfu ráðh. til þess að beita sér fyrir þeim efnislegu lagfæringum sem við teljum nauðsynlegar.““

Ég held að þó að ekki sé lesið meira úr þessu bréfi en hér hefur verið gert taki það af öll tvímæli um að verkalýðshreyfingin hefur sagt sitt álit á þessu máli og hæstv. ráðherrum, öllum upp til hópa, ætti að vera um það kunnugt hvert það sjónarmið er. Þessum þætti taldi ég nauðsynlegt að koma hér á framfæri vegna þeirra fullyrðinga hæstv. félmrh. að hann vissi ekki til að verkalýðshreyfingin hefði afstöðu í þessu máli. Sú afstaða liggur ótvírætt fyrir.

Nú skal það tekið fram að aths. um lífeyrissjóðsiðgjöldin hafa verið teknar til greina í þessu frv., sem ekki var þegar það var lagt fram, en eftir er að ríkisábyrgðin taki til þess hluta orlofsfjárins sem greiddur er inn með öðrum hætti en í gegnum Póstgíróstofuna.

Ég vil líka í sambandi við þær fullyrðingar sem hér hafa komið fram af hálfu hæstv. ráðh. vitna til skjals sem vinnuhópur, sem settur var á fót af miðstjórn Alþýðusambands Íslands til þess að fjalla um orlofsfjármálið, lét frá sér fara og niðurstaðna sem þar koma fram. Það er í fyrsta lagi að opnuð verði sú leið að bankakerfið taki við innheimtu og ávöxtun orlofsfjár á svipuðum forsendum og gert hefur verið á Vestfjörðum ef viðunandi samningar nást við bankana. Hér er beinum orðum lagt til af hálfu þess vinnuhóps sem miðstjórn ASÍ skipaði á sínum tíma að farin verði sú leið að taka þetta út úr póstgírókerfinu og beina því í svipaðan farveg og gert var með samningum á Vestfjörðum, þ. e. að peningastofnanir á hverjum stað, þar sem féð fellur til, ávaxti það og bjóði þá hæstu ávöxtunarkjör sem eru fyrir hendi hverju sinni. Ég vil jafnframt taka það fram að sama álit liggur fyrir af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands. Það liggur fyrir skriflegt álit af hálfu stjórnar Vinnuveitendasambands Íslands, nákvæmlega eins efnislega, um að þessi leið verði farin. Jafnframt liggur fyrir skriflegt álit af hálfu Vinnumálasambands samvinnufélaganna um að þessi leið verði farin. Svo kemur hæstv. félmrh. hér og segist ekki vita til þess að verkalýðshreyfingin hafi tekið afstöðu í þessu máli. Það er alrangt. Aðilar vinnumarkaðarins hafa allir tjáð sig um það að þeir vilja að opnuð verði leið álíka þeirri sem farin er á Vestfjörðum um ávöxtun orlofsfjár á viðkomandi stöðum í peningastofnunum á viðkomandi svæðum. Ég hef sagt það hér áður að ég tel að það megi, ef stjórnvöld á annað borð vilja líta þessi mál réttu ljósi, leggja niður póstgírókerfið, það er varðar orlofshliðina á því máli, og spara þá fjármuni.

Ég held að það sé rétt, með leyfi hæstv. forseta, að vitna hér til bréfs frá formanni þeirrar nefndar sem skipuð var af ráðh. á sínum tíma og átti og á en hefur ekki skilað af sér enn að fjalla um þetta mál. Það er um endurskoðun orlofslaganna. Mig langar að lesa hér bréf frá formanni þeirrar nefndar. Ég hygg að það sé ekki neitt leyndarmál. Hér er um að ræða starf fyrir opnum tjöldum og það getur varla verið brot á neinum trúnaði þó að gerð sé grein fyrir bréfum af hálfu aðila sem í þessu máli vinna. Með leyfi forseta er þetta bréf dags. 10. okt. 1983 og þar segir:

„Í mars s. l. skipaði félmrh. nefnd til að endurskoða gildandi reglugerð um orlof nr. 150/1972 og ef þurfa þykir lög nr. 87/1971, um orlof, hvort tveggja með síðari breytingum. Nefndinni er ætlað sérstaklega að taka til endurskoðunar þau ákvæði er lúta að innheimtu og vörslu orlofsfjár í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað frá því að ákvæðin voru sett.

Allir nm. eru sammála um að í reglugerð um orlof verði opnuð heimild til handa aðilum vinnumarkaðarins um gerð samkomulags við bankastofnanir um innheimtu og vörslu orlofsfjár. Fulltrúi Vinnumálasambands samvinnufélaganna í nefndinni hefur lagt fram þá tillögu að slík heimild nái einnig til innlánsdeilda kaupfélaganna.“

Þurfa menn nú frekar vitnanna við um afstöðu aðila vinnumarkaðarins til þessa máls? Hæstv. félmrh. lýsir því svo yfir að hann hafi ekki heyrt neitt um afstöðu t. d. verkalýðshreyfingarinnar sem margítrekað hefur ályktað um málið.

Ég held að þó að vissulega megi segja að kannske séu seint á ferðinni hér þær tillögur sem við stöndum að hér við 3. umr. ættu hv. þm. að skoða hug sinn áður en þeir slá á hönd aðila vinnumarkaðarins sem vilja opna aðrar og hagkvæmari leiðir til þess að ávaxta þetta fé launþega, leiðir sem hafa sýnt, og þá kem að því, að þær eru farsælli fyrir viðkomandi aðila.

Hæstv. félmrh. sagði hér á dögunum að póstgírókerfið hefði ávaxtað orlofsféð á hagkvæmasta og besta hátt sem hægt hefði verið. Vegna þessara ummæla, sem eru alröng, tel ég nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þennan þátt.

Ég hef fengið um það upplýsingar frá hagdeild Alþýðusambands Íslands, menn geta að sjálfsögðu vefengt þær ef þeir vilja, en þá leita menn á einhverjar aðrar slóðir til að fá samanburð, hver þessi ávöxtun hefur verið í nokkur ár, annars vegar póstgíróávöxtun og hins vegar ávöxtun sem samkomulagið á Vestfjörðum hefur gefið af sér.

Orlofsárið 1980–1981 voru vextir hjá póstgíró 34%, en hefðu þurft að vera — og taki menn nú eftir 47.99% til að gefa sömu ávöxtun og lánskjaravísitalan miðað við þær forsendur sem hér eru notaðar, þ. e. miðað við forsendur þeirrar ávöxtunar sem Vestfjarðasamkomulagið gerir ráð fyrir. Á þessum tíma hefði Vestfjarðasamkomulagið gefið 13.99% betri ávöxtun á orlofsfé en póstgíró gerði. Það eru raunhæfar kjarabætur fyrir viðkomandi aðila.

Orlofsárið 1981–1982 voru vextir hjá póstgíró 34%, en til að gefa sömu ávöxtun og lánskjaravísitala hefðu þeir þurft að vera 45.95% miðað við þær forsendur sem notaðar eru, þ. e. þá ávöxtun sem Vestfjarðasamkomulagið byggist á. Þetta orlofsár gaf Vestfjarðasamkomulagið 11.95% betri ávöxtun en póstgíró gerði, og það munar um minna, fyrir utan nú hinn óbeina þátt sem er að ávaxta féð á þeim stað sem það fellur til og ætti að koma viðkomandi stað til góða.

Orlofsárið 1982–1983 voru vextir hjá póstgíró 57% , en hefðu þurft að vera 83.55% til að gefa sömu ávöxtun og lánskjaravísitala skv. forsendunum sem notaðar eru. Vestfjarðasamkomulagið gaf 26.55% betri ávöxtun á orlofsfé en póstgíró gerði á orlofsárinu 1982–1983. Enginn vafi er á því, og menn sjá það af tölunum, að póstgíró hefur verið togað upp í ávöxtuninni með Vestfjarðasamkomulaginu því að til að byrja með voru þetta sáralitlir vextir þegar engin samkeppni var við póstgíró og Seðlabanka.

Orlofsárið 1983–1984 voru vextir hjá póstgíró 26%. Miðað við þær forsendur sem notaðar eru í dæminu hefðu þeir mátt lækka niður í 20.58% til að gefa sömu ávöxtun og Vestfjarðasamkomulagið hefði gefið ef það hefði haldist óbreytt. En Vestfjarðasamkomulagið gaf nákvæmlega sömu ávöxtun á orlofsárinu 1983–1984 og póstgíró gerði þrátt fyrir að lánskjaravísitölugrundvöllurinn væri með þessum hætti.

Þá komum við að árinu í ár, orlofsárinu maí 1984 — maí 1985. Nýlega gaf félmrh. út þá tilkynningu að vextir af orlofsfé það orlofsár væru 30%. Meðaltalsávöxtun á orlofsfé vestfirsks launafólks, sem ávaxtar skv. margnefndu samkomulagi, frá maí til maí er rösk 33%.

Í öllum tilvikum sem ég hef hér nefnt, utan einu, hefur Vestfjarðasamkomulagið gefið launafólki mun hagstæðari ávöxtun en póstgíró hefur gert. Eitt skiptið sömu. Ég fullyrði að ávöxtun hjá póstgíró hefði ekki verið þetta hagstæð miðað við fyrri ár ef ekki hefði komið til það samkomulag sem gert var á sínum tíma á Vestfjörðum.

Mér fannst nauðsynlegt að koma þessu á framfæri hér vegna þess að hæstv. ráðh. fullyrti það hér um daginn að póstgíró hefði ávaxtað samkvæmt hagstæðustu ávöxtunarkjörum hverju sinni. Það er alrangt. Og ávöxtun orlofsfjár hjá póstgíró undangengin nokkur ár hefði að mínu viti verið miklum mun lakari en hún þó varð hefði Vestfjarðasamkomulagið ekki komið til. Það er því búið að hafa af launafólki um árabil ómældar upphæðir vegna slæmrar ávöxtunar hjá póstgíró á orlofsfé launafólks.

Það væri þess virði að láta reikna út hvað hér væri um að ræða í peningum sem búið er að hafa af launafólki beint, fyrir utan óbeina þáttinn í byggingarlögunum, með þessu ríkisrekna fyrirtæki sem er Póstgíróstofan. Það væri vissulega þess virði að skoða það dæmi til enda. Þar hefur verið framið kjararán í þessum þætti í gegnum árin. Það er verkalýðshreyfingunni ekki til sóma að láta það viðgangast allan þann tíma að hafa þannig af launafólki peninga sem það átti skýlausan rétt á og gat haft í launaumslaginu hefði þessi aðili ekki átt hlut að máli. Það verður að segjast að það voru ólíklegustu fulltrúar hér á hv. Alþingi sem þvældust fyrir þessu máli þing eftir þing. Og þar undanskil ég ekki hv. 7. þm. Reykv. því hann þvældist manna mest hér fyrir því þing eftir þing. (ÓÞÞ: Enda ekki þm. Vestfirðinga.) Rétt, enda sér á muninn. (MB: Fæddist fyrir vestan.) Já, en er orðinn almengaður frá því sem þá var við dvölina hér syðra. Ég hygg að vestfirskt launafólk hefði þakkað hv. 7. þm. Reykv. fyrir hefði hann verið í fararbroddi að knýja á um slíka leiðréttingu sem ég hef hér verið að tala um. En það hefði líka skammað hann fyrir að vera að þvælast fyrir í því. Og það átti hann skilið. En hann má þó eiga það að nú hafa hans augu opnast til hins betra, þau sjá víðar en áður hefur gerst, réttlætiskenndin er ríkari, þó enn megi bæta við. En það má hver eiga sitt og hann skal njóta sannmælis í þeim efnum.

Herra forseti. Ég vil ógjarnan lengja þessar umræður allt of mikið, málið er búið að vera hér lengi ýmissa hluta vegna, en það er nauðsynlegt að koma þessum þætti vel til skila. Ég heiti á þdm. að láta það ekki spyrjast að ætla í enn einum þættinum, til viðbótar öllum hinum, að beita vestfirskt launafólk þessu óréttlæti, að láta það ekki sitja við sama borð að því er þennan þátt varðar og aðra þá sem borga inn til ríkiskerfisins. Ég heiti á menn að skoða þetta mál vel þó að kannske megi segja að það sé á elleftu stundu sem hér er fjallað um brtt. En ég verð að viðurkenna að það er með ólíkindum að eftir alla þá umræðu, umsagnir aðila vinnumarkaðarins, bæði verkalýðshreyfingarinnar, Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins, og samróma afstöðu skuli félmn. þessarar hv. deildar ætla að standa að slíku óréttlæti eins og hér er lagt til.

Ég heiti á hv. þdm. að endurskoða þessa afstöðu. Það þarf ekki að tefja málið. Það er augljóst hvernig það liggur fyrir. Ég minni menn á það, að ef ekki verður breyting á frv. frá því sem nú er og tekið tillit til þessa þáttar, þá lít ég svo á að menn séu að reyna að varðveita þetta ríkiskerfi og varna því að nokkur annar aðili geti komið þar til til að hafa samkeppni og gæta hagsmuna launafólks í þessum efnum. Það er beinlínis ögrun við þá sem stóðu að samkomulaginu sem gert var á Vestfjörðum, bæði vinnuveitendur, peningastofnanir og verkalýðsfélög, ef á að sniðganga þá með þessum hætti eins og frv. gerir nú ráð fyrir. Ég vil ekki trúa því að þm. séu þannig gerðir, þegar búið er að gera jafnglögga grein fyrir málinu og nú er og öllum ætti að vera ljóst hvernig málið liggur fyrir, hver munurinn er og hvaða óréttlæti er hér verið að fremja, að þeir ætli að halda sig við frv. eins og það er nú.