13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5166 í B-deild Alþingistíðinda. (4464)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil fyrst vekja athygli hæstv. félmrh. á því að það liggja frammi tvær brtt. um málið svo óþarfi hefði verið að lesa hér aftur bréfið frá Gesti Jónssyni lögfræðingi sem hann las við 2. umr. um þá till. sem þá lá fyrir. Hvað segir hæstv. ráðh. við hinni brtt. sem er komin fram og er ítarlegri? Ég skal gera samning við hæstv. ráðh. um það að draga til baka fyrir mitt leyti brtt. á þskj. 724 ef hann vill samþykkja að beita sér fyrir að samþykkt verði till. á þskj. 803. Ég er reiðubúinn til þess að draga til baka þá till. sem hann er hér að lesa upp bréf frá Gesti Jónssyni lögfræðingi um, á þskj. 724, ef hæstv. ráðh. vill beita sér fyrir því að samþykkt verði brtt. okkar fjórmenninganna á þskj. 803. Hæstv. ráðh. hefur ekki tjáð sig um hana og hefði verið nægur tími fyrir hann að hafa samband við títtnefndan Gest á því tímabili frá því að till. kom fram hafi hann sjálfur enga skoðun á málinu.

Hæstv. ráðh. segir að póstgíró hafi ekki verið ætlað til þess að hafa af neinum. Ég get verið honum sammála um það. Menn hafa sjálfsagt trúað því á þeim tíma að verið væri að koma á fót stofnun sem treysta mætti að ávaxtaði fjármuni launþega alltaf á sem hagkvæmastan hátt og bestan hverju sinni. En reynslan hefur bara sýnt okkur annað. Reynslan hefur sýnt allt annað en að póstgíró væri treystandi fyrir því að ávaxta orlofsfé launafólks á sem hagkvæmastan hátt, eins og best gerðist hverju sinni. Það hefur hún ekki gert.

Hæstv. ráðh. skýldi sér alltaf á bak við þessa nefnd sem hefði verið að störfum og segir að hún hafi ekki viljað taka ákvörðun. Það liggur fyrir í umsögnum allra þeirra aðila sem hæstv. ráðh. er hér að tala um hver þeirra vilji er. En það hefur ekki fengist fram, þrátt fyrir það að ég hef spurst fyrir um það á nefndarfundum, hver vilji hæstv. ráðh. væri til breytinga. Það er sá vilji sem ekki liggur fyrir. Það er hér skjalfest í bréfi dagsettu 10. okt. 1983, undirrituðu af Gesti Jónssyni, þeim lögfræðingi sem hæstv. ráðh. vitnar til, að allir nm. eru sammála um að í reglugerð um orlof verði opnuð heimild til handa aðilum vinnumarkaðarins um gerð samkomulags við bankastofnanir um innheimtu og vörslu orlofsfjár. Og nefndin fer þess á leit við bankaeftirlit Seðlabankans að það veiti umsögn sína um þær lagalegu og tæknilegu hindranir sem hugsanlega gætu staðið í vegi fyrir að slík heimild væri opnuð. Þetta liggur allt saman fyrir. Það þarf því ekki að skjóta sér á bak við þessa nefnd í þessum efnum. Aðilar vinnumarkaðarins hafa sagt sitt orð. Það liggur alveg fyrir hver þeirra vilji er.

Hæstv. ráðh. segir að innborgað orlof í póstgíró sé ekki ríkistryggt. Hvernig ætla menn að heimfæra það, þegar það er ríkisstofnun sem ber ábyrgð í þessu tilfelli gagnvart launþegum á að ávaxta fé þeirra, að ríkið sem slíkt sé ekki ábyrgt fyrir því ef að skakkaföll verða? Hverjum dettur í hug að halda slíku fram? Ekki nokkrum manni. Hér er um orðaleik að ræða, hæstv. ráðh. (GJG: Sko.) Ekkert sko neitt. Hv. þm. getur fengið orðið á eftir. Það þýða engin sko í þessu. Málið liggur svona fyrir.

Vill hv. 7. þm. Reykv. halda því hér fram um orlofsþega þá sem borga inn orlofsfé í Póstgíróstofuna hér t. d. á Reykjavíkursvæðinu, og skakkaföll verða, að þeir eigi þá að bera það? Er ekki póstgíró skyldugt til að skila þessu fé? (GJG: Þeir gera það.) Er það ekki akkúrat það sem ég er að segja? Hvaða sko á þá við í þeim efnum? Það er ekkert sko neitt. Þetta er bara ljóst. Þessi stofnun er eins og aðrar ríkisstofnanir ábyrg fyrir þessum fjármunum og á að skila þeim. Ég held að við hv. 7. þm. Reykv. hljótum að vera sammálá um þetta. Ég trúi því a. m. k. ekki að formaður Dagsbrúnar mundi ekki sækja þetta fé í póstgíró þó að skakkaföll hefðu átt sér stað hjá viðkomandi aðila sem átti að standa skil á þeim. (GJG: Þm. rangtúlkar orð ráðh.) Ætlar nú hv. 7. þm. Reykv. að fara að mæla fyrir hönd hæstv. ráðh? Hann er nú einfær um það. (GJG: Að elska sannleikann.) Elskar hann sannleikann, hæstv. ráðh.? Nei, þetta er ekki rangt, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Málið liggur svona. Ef frv. verður samþykkt eins og það nú liggur fyrir, þá er verið að mismuna launþegum sem borga orlofsfé annars vegar í gegnum póstgírókerfið og hins vegar í aðrar peningastofnanir, þ. e. sparisjóði, ég geri ráð fyrir að bankarnir séu ríkistryggðir, það gildi sama um þá eins og póstgíró, þar sé þetta tryggt. Það eru sparisjóðirnir sem þarna er um að ræða. Ég ítreka það, ég trúi því ekki að hv. alþm., eftir að hafa athugað þetta mál, ætli að ganga gegn þessu réttlætismáli, að þarna sé jafnræði milli launþega. Ég vil ekki trúa því. Ég ítreka tilboð mitt til hæstv. félmrh. Ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn til að draga til baka brtt. á þskj. 724 ef hæstv. ráðh. vill leggja mér lið í því og okkur flm.brtt. á þskj. 803 nái fram að ganga.