13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5167 í B-deild Alþingistíðinda. (4466)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ætlunin er að halda hér kvöldfund. Ég sé ekki ástæðu til að taka fyrir öllu fleiri mál en þegar hafa verið tekin fyrir, en í kvöld er meiningin að reyna að koma fram sem allra flestum af þeim málum sem eru á dagskránni, í fyrsta lagi erfðalögum, 6. dagskrármáli, einnig ríkisreikningi og enn fremur var hugmyndin að taka fyrir 9. dagskrármálið, áfengislög. Það eru ekki mjög margir á mælendaskrá þar.

Ég vil minna hv. þdm. á skyldur þeirra til að sækja þingfundi. Þingsköp gera ráð fyrir því. Ég vil sérstaklega leyfa mér að beina því til þingflokksformanna að þeir geri sitt til þess að brýna þá skyldu fyrir þm. sem ég er hér að nefna. (KP: Eru þeir nú margir í salnum, hæstv. forseti?) Ekki er ég nú alveg klár á því hversu margir eru hér í salnum af þingflokksformönnum. Ég vona hins vegar að þeir séu einhverjir hér og heyri mál mitt hvað þetta varðar. Og ég vænti þess að sem allra flestir hv. þdm. komi á þingfundinn sem verður haldið áfram kl. 9 í kvöld. Fundinum er frestað til kl. 9.