13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5168 í B-deild Alþingistíðinda. (4469)

424. mál, erfðalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef talað allrækilega fyrir þeirri brtt. sem hér liggur fyrir hinu háa Alþingi á þskj. 740, en vegna þess að oftast hefur verið illa mætt þegar rætt var um þetta frv., sem allshn. hefur hér lagt fram á þskj. 696 vegna frv. sem við hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, Guðmundur Einarsson, Guðrún Agnarsdóttir og Jón Baldvin Hannibalsson fluttum hér fyrr í haust og er 53. mál þingsins, og vegna þess að hér er nú óvenju vel mætt ætla ég í eins stuttu máli og mér er framast unnt að skýra hvað hér er á ferðinni.

Hið upphaflega frv., sem er á þskj. 53, felur í sér þá breytingu á erfðalögum frá 1962 að við lát maka eigi eftirlifandi maki ævinlega rétt til setu í heimili sínu óskiptu eins og það var við lát maka, bæði þegar eftirlifandi maki fær ekki leyfi til setu í óskiptu búi, t. d. vegna þess að eitt barn eða fleiri krefjast skipta, eða fyrirmæli hins látna eru á annan veg, eða ef erfingjar látins erfingja krefjast skipta.

Um þetta varð ekki samkomulag í nefndinni eins og kunnugt er. Það varð því að ráði að nefndin flytti annað frv. sem er á þá lund að það heimilar hvorum maka sem er að leyfa með erfðaskrá hinum sem lengur lifir að sitja í óskiptu búi. En það skal tekið fram að þar er um allt búið að ræða, hvort sem um miklar eignir er að ræða eða litlar.

En það atriði sem ég er óánægð með í hinu nýja frv., sem ég annars er meðflm. að, er það að þar er gerður greinarmunur á rétti stjúpbarna og barna beggja aðilanna, þannig að stjúpbörn geti eftir sem áður krafist skipta. Ég tel þetta í algjörri andstöðu við anda þeirrar löggjafar sem hér hefur verið sett á síðustu árum, t. d. barnalaga, þar sem unnið hefur verið að eðlilegum rétti barna til umgengni við foreldra sína og foreldra við börn sín, hvort sem um hjúskap er að ræða eða ekki.

Ég hef þess vegna leyft mér að flytja á þskj. 740 örlitla brtt. þar sem í stað þess að í frv. nefndarinnar segir: „Heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum beggja“ komi: heimild til að sitja í óskiptu búi með niðjum annars eða beggja. Þetta er sú breyting sem ég hef leyft mér að leggja til og ég held að tæplega þurfi að taka það fram að hér er auðvitað ekki um neitt flokkspólitískt mál að ræða. Þetta er brtt. okkar hinna sömu flm. og fluttu hið upphaflega frv. með því fráviki einu að vegna fjarveru hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar hljóp í skarðið fyrir hann hv. þm. Ellert B. Schram, ég er hins vegar næstum því vissum að hv. þm. Birgir Ísleifur hefði með glöðu geði skrifað undir þessa brtt. Ég vil nú skora á menn að samþykkja þessa brtt. því að nái hún fram að ganga tel ég að um verulegan áfanga sé að ræða í þessum málum.

Með þessu máli hefur verið fylgst af miklum áhuga úti í þjóðfélaginu og ég er viss um að það verður mikil óánægja með það ef frv. verður samþykkt þannig að stjúpbörn geti eftir sem áður, hvenær sem þeim svo sýnist, hrakið hinn eftirlifandi maka úr búi sínu.

En nái þessi brtt. mín ekki fram að ganga mun ég greiða atkvæði með frv. eins og nefndin lagði það fram.