13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5181 í B-deild Alþingistíðinda. (4475)

86. mál, áfengislög

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Ég vil stuttlega gera grein fyrir skoðun minni á þessu máli. Lengst af hef ég verið mótfallinn framleiðslu og sölu áfengs öls á Íslandi, fyrst og fremst á þeirri forsendu að það mundi verða til þess að auka áfengisneyslu í landinu, einkum ungs fólks og á vinnustöðum. En mál hafa þróast þannig síðustu ár að landið hefur svo að segja opnast fyrir innfluttum bjór auk hinna fjölmörgu bjórstofa sem þotið hafa upp eins og gorkúlur. Þar er framleitt svokallað bjórlíki sem að styrkleika samsvarar meðalsterkum bjór. Upplýst er að bjórneysla í landinu sé nú 15–20 lítrar á mann á ári, ef ekki meira, án þess að til séu í landinu lög um sölu áfengs öls. Freyðandi bjór er því staðreynd á Íslandi í dag.

Ýmsir miður góðir hlutir þrífast nú í skjóli þessa kerfis sem viðgengst hér á landi. Þetta ástand þarf að lagfæra og eina ráðið í stöðunni er að mínum dómi að heimila framleiðslu og sölu á íslenskum bjór undir ströngu eftirliti. En ég legg áherslu á að Alþingi sé við því búið að breyta löggjöfinni ef ástand áfengismálanna versnar frá því sem nú er með tilkomu íslensks bjórs.

Minni hl. allshn. hefur lagt til að slegið verði á frest ákvörðun um áfenga bjórinn þangað til fyrir liggi álit nefndar sem móta á opinbera stefnu í áfengismálum Íslendinga. Við núverandi aðstæður er ekki ástæða til að bíða. Stjórnvöld hafa að undanförnu leyft mikla fjölgun vínveitingastaða og þetta hefur verið gert án þess að nefndarálit áfengismálanefndar liggi fyrir. Spyrja má hvort ekki hefði átt að bíða með að opna bjórstofurnar þangað til það lá fyrir.

Á síðasta þingi stóð ég að nál. 1. minni hl. allshn. Sþ. þar sem lýst var andstöðu við þjóðaratkvæði um bjórinn. Sem fyrr er ég andvígur þjóðaratkvæði og tel að Alþingi eigi nú þegar sjálft að taka afstöðu í þessum málum. Ég er því andvígur brtt. sem hér liggur fyrir og lýtur að þjóðaratkvæði.

Úr því sem komið er er það skoðun mín að framleiðsla og sala á íslenskum bjór skv. þeim tillögum sem hér liggja fyrir frá meiri hl. nefndarinnar muni bæta það ástand sem nú ríkir í þessum málum.