13.05.1985
Neðri deild: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5192 í B-deild Alþingistíðinda. (4482)

86. mál, áfengislög

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það er vissulega rétt sem hér hefur komið fram hjá ýmsum andmælendum þessa frv. að hér er mikið alvörumál á ferðinni og vissulega mikil samviskuspurning hvort rétt sé að standa að samþykki frv. eða ekki. Ég geri ekki lítið úr þeim andmælum, þeim mótrökum sem sett hafa verið hér fram af mörgum ágætum hv. þm. og ég tel heils hugar undir þau ummæli hjá hv. 3. þm. Reykv. Svavari Gestssyni að vissulega hefði verið við hæfi á ári æskunnar að Alþingi fjallaði um till. eða málefni sem beindust að æskulýðnum með jákvæðari hætti en það mál sem nú er á dagskrá.

Hins vegar er þetta mál ekki svart eða hvítt. Það er ekki algott eða alvont, á því eru margar hliðar. Um leið og ég tek undir mörg af þeim mótrökum sem fram hafa komið held ég líka að skynsamir menn í hópi andstæðinga þessa frv. geti fallist á það að það eru líka mörg gild rök sem mæla með því að það verði samþykkt. Enda þótt ég hafi gerst flm. að þessu frv. þá vísa ég því á bug að ég sé með því að mæla með aukinni óreglu. Hún er vissulega nóg fyrir. Áfengisvandamálið er alvarlegt þjóðarböl sem lagt hefur mörg heimili, hjónabönd og hamingju í rúst. Af störfum mínum að æskulýðs- og íþróttamálum um langt árabil er mér fullvel ljóst að áfengi hefur lagt margan efnilegan unglinginn að velli. En ég tel að ég og aðrir þeir sem hafa unnið að æskulýðs- og íþróttamálum höfum gert heiðarlega tilraun til að skapa æskufólki önnur og betri tækifæri til að beina áhuga sínum að heilbrigðum hugðarefnum. Það starf er unnið undir þeim formerkjum að það sé ekki æskilegt og það sé ekki árangursríkt að vinna að málefnum æskunnar með boðum og bönnum. Ég held að það dugi skammt gagnvart lífsglöðu og leitandi ungu fólki að gefa fyrirmæli, banna þetta eða hitt. Við bönnum ekki æskunni að fara sínar eigin leiðir. Ég held að við þurfum að leita annarra leiða, finna önnur viðfangsefni í uppbyggjandi starfi og heilbrigðu tómstundalífi til þess að ungt fólk og æskan öðlist skilning á því að njóta lífsins án vímugjafa og ólifnaðar.

Eins og ég sagði áðan geri ég ekki lítið úr mörgum þeim andmælum sem fram hafa komið gagnvart þessu frv. En því er ekki að neita að margt hefur líka komið fram í þeirra málflutningi sem ekki er við hæfi og á lítið skylt við málefnalegan rökstuðning. Ég hirði ekki um að elta ólar við margt af því sem hér hefur verið sagt en get þó ekki stillt mig um að vísa til eins atriðis sem fram kom í ræðu hv. þm. Ólafs Þórðarsonar þar sem hann heldur fram að núgildandi áfengislöggjöf sé skynsamleg og góð. Hann vísar jafnvel til þess að íslenskir læknar trúi því að sú löggjöf, sem nú er til staðar, sé góð löggjöf. Með leyfi forseta segir hv. þm. að læknarnir viti „að löggjöfin hafi verið brotin, en engu að síður séu þeir sannfærðir um að við séum með skynsamlega áfengislöggjöf.“

Með allri virðingu fyrir læknum og með allri virðingu fyrir þeirri löggjöf sem ríkir í dag þá finnst mér þetta vera mikil hræsni og mikill tvískinnungur. Það getur auðvitað enginn haldið því fram, hvorki læknar né alþm., að sú löggjöf, sem nú er við lýði, sé góð og skynsamleg. Er það góð löggjöf sem leyfir sterkum brenndum drykkjum að flæða um allar gáttir? Er það góð og skynsamleg áfengislöggjöf sem hefur opnað bjórstofur á hverju götuhorni, sem leyfir innflutning á bjór ákveðnum stéttum eða hópum? Og hefur framkvæmd löggjafarinnar verið sterk þegar við vitum það mætavel að hér er stundað í miklum mæli smygl og brugg og vín er haft um hönd hjá ungum sem gömlum opinberlega sem inni á heimilum? Er það skynsamleg áfengislöggjöf þar sem leyft er að selja bjórlíki sem er drykkur þar sem blandað er saman óáfengu öll ásamt með viskí og vodka í einn og sama drykkinn? Þetta er náttúrlega barbarismi af verstu tegund og er sennilega það lægsta sem íslensk áfengislöggjöf hefur leitt af sér. Ég held að það sé því miður ákaflega mikil hræsni og tvískinnungur ríkjandi í öllum umræðum um áfengismál. Sannleikurinn er sá að áfengislöggjöfin eða framkvæmd hennar hefur boðið heim ofneyslu á áfengum drykkjum og hún hefur gert bjórinn að forboðnum ávöxt sem fólk sækist eftir.

Ég hef sannfærst um að það er tímaskekkja að banna bjór. Ég vil horfast í augu við þá staðreynd. Þess vegna hef ég gerst flm. að þessu frv. í þeirri trú að heilbrigðara ástand skapist og að vínmenning batni. Við gerum okkur öll mætavel grein fyrir því að áfengisbölið er mikið í landinu og hér hafa verið fluttar margar, ágætar og áhrifamiklar ræður um afleiðingar áfengisneyslu. En það dettur engum manni í hug að koma með tillögu um að banna áfengið. Af hverju koma menn ekki með tillögu um að banna áfengið? (Gripið fram í.) Ég er að vekja athygli á þessu vegna þess að jafnvel þó að við hv. þm. Stefán Valgeirsson mundum sameinast um að flytja slíka till. mundi hún sennilega ekki verða samþykkt vegna þess að þm. eru tiltölulega raunsæir í slíkum málum og í öðru lagi mundi sú löggjöf, ef samþykkt yrði, alls ekki verða virt. Hún væri orðin tóm. Það vitum við báðir tveir.

Bönn duga ekki. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd. Bönn á áfengi eru ekki leiðin til að leysa áfengisvandamálið. Með sama hætti held ég að við séum komnir það langt, hvort sem það er út í spillinguna eða eitthvað annað, að ekki verði aftur snúið og það sé skynsamlegra að vera ekki að streitast gegn straumnum, það eigi að leyfa bjórinn og reyna að stýra þá neyslu hans þannig að vínmenning batni. Að þessu leyti og mörgu öðru tek ég undir þær röksemdir og sjónarmið sem fram hafa komið hjá þeim sem mælt hafa með samþykki þessa frv.

Herra forseti. En það var annað tilefni sem varð til þess að ég kvaddi mér hljóðs við þessa umr. Þannig var mál með vexti að ég hafði fjarvistarleyfi hér fyrir helgi á fimmtudag og föstudag og gat ekki verið viðstaddur umr. þá. En ég las í blöðum eftir að ég kom heim að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefði flutt hér ræðu og verið með harla óvanalegar yfirlýsingar. Hann sakaði fréttamenn Ríkisútvarpsins um mútuþægni og fullyrti að flm. þessa frv. hefðu búið sig undir það að þiggja umboðslaun fyrir áfengt öl ef og þegar það verði selt. Ég hlustaði síðan á viðtal við þennan hv. þm. í sjónvarpinu, hvort sem það var í gærkvöldi eða fyrrakvöld, og hann mótmælti ekki að hann hefði sagt þetta. Hann gerði enga tilraun til að halda því fram að hér væri misskilningur á ferðinni eða þá að leiðrétta þessi ummæli en kaus að skjóta sér á bak við þinghelgi. Hann vísaði því jafnframt frá sér að sanna þessi ummæli eða rökstyðja þau en gaf það ótvírætt í skyn að hann hefði ýmsar upplýsingar í pokahorninu þannig að hann gæti fylgt þessum upplýsingum sínum eftir.

Nú er það auðvitað mál þessa hv. þm. hvort hann telur sér sæma að stunda þennan málflutning. Hann um það. En hann hefur kosið að skjóta sér á bak við þinghelgi, neita að svara spurningum fréttamanna og fjölmiðla og segir að hann hafi valið þingið sem sinn vettvang. Þess vegna stend ég hér upp, herra forseti, til þess að inna hv. þm. eftir nánari skýringum á þessum ummælum. Með leyfi forseta vil ég aðeins lesa þingheimi til upplýsingar orðrétt upp úr ræðu þm. varðandi þessi atriði. Í fyrsta lagi segir hann, með leyfi forseta:

„Stundum hvarflar það nefnilega að mönnum, þegar menn sjá svona auglýsingar, hvort það, sem verið hefur nánast óþekki í íslensku þjóðlífi til þessa, að opinberir starfsmenn þægju mútur, eigi sér e. t. v. stað.“

Í öðru lagi segir þm.: „Það skyldi þó ekki vera að einhver af þessum flm. hefði búið sig undir það að þiggja umboðslaun fyrir áfengt öl ef það verður selt hér á landi? Það skyldi þó ekki vera að búið væri að ganga frá samningum um slíka hluti? Það er ákaflega bagalegt að þeir eru ekki hér í salnum því að það gæti farið svo að það sæist á mönnum hvort aðdróttanir væru réttar eða rangar, þar sætu ekki sterkari karakterar en svo.“

Nú er ég kominn, hv. þm., í þingsalinn og væntanlega getur sá sem þetta mælti ráðið í svip minn hvort ég sé umboðsmaður einhverra bjórtegunda eða ekki ef það er mælikvarðinn. Þetta eru hinar alvarlegustu aðdróttanir. Hér er verið að halda því fram að þeir sem standa að flutningi þessa frv. séu að gera það til þess að hagnast á því persónulega og þeir séu búnir að undirbúa það að þiggja umboðslaun strax og sala ölsins er leyfð. Þetta er kannske hlægilegt að einhverra mati. Það eru kannske sumir sem vilja ekki og nenna ekki að taka mark á þessum ummælum hv. þm. En þó að einhverjir séu hér inni sem leggja ekki mikið upp úr því sem hv. þm. Ólafur Þórðarson segir þá treysti ég mér ekki til að sitja undir svona áburði. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta séu aðdróttanir, þetta sé rógburður og ómerkilegt slúður sem þm. er skylt að færa sönnur á eða biðjast afsökunar á þeim ella. Hann hefur um þrennt að ræða: Í fyrsta lagi að biðjast afsökunar, í öðru lagi að sanna sitt mál eða þá í þriðja lagi að sitja uppi sem slúðurberi. Eitt er að deila um pólitík, eitt er að rífast hér og skammast, en annað er að bera fram dylgjur og slúður um mútuþægni og saka samþm. sína um athæfi sem enginn fótur er fyrir. Ég skora á hv. 5. þm. Vestf. að kveðja sér hér hljóðs og leggja spilin á borðið og færa rök fyrir sínu máli. Ef hann treystir sér ekki til þess verður hann ekki aðeins að athlægi hjá þjóðinni, hann er þá búinn að fá þann stimpil að vera Gróa á Leiti með stórum staf.