14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5203 í B-deild Alþingistíðinda. (4490)

409. mál, útflutningur niðurgreiddra landbúnaðarafurða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Þessi fsp. er flutt í framhaldi af annarri fsp. um svipað eða sama efni sem hæstv. landbrh. svaraði hér í Sþ. hinn 12. mars s. l. Mér þóttu svör hæstv. ráðh. þá ekki svo ítarleg eða rækileg sem ég hefði kosið og hef því valið þann kost að spyrja nákvæmar um það sem mér þótti ekki fullsvarað í hinni fyrri fyrirspurn. Það var einkum 5. liður fsp. minnar hinn 12. mars sem mér þótti ekki fullsvarað. Hann hljóðaði sem hér segir, með leyfi forseta:

„Hefur komið til tals að bjóða út sölu og flutninga á útfluttum og niðurgreiddum landbúnaðarvörum?“ Svar hæstv. ráðh. hljóðaði sem hér segir: „Útboð hefur farið fram á þessum flutningum, eins og þessar tölur sem ég las benda til, með þeim árangri að flutningsgjaldið er allt niður í að vera aðeins helmingur af taxta.“

Mér þótti þetta svar, sem áður segir, ófullnægjandi. Því hef ég beint nýrri fsp. til hæstv. landbrh. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hvernig var háttað þeim útboðum á flutningi niðurgreiddra landbúnaðarafurða til útlanda sem landbrh. lýsti í svari sínu við fsp. á Alþingi 12. mars 1985?

2. Hvenær áttu umrædd útboð sér stað á árunum 1983 og 1984?

3. Hvort var um svokölluð lokuð eða opin útboð að ræða?

4. Hvernig skiptust flutningar á niðurgreiddum landbúnaðarafurðum milli eftirgreindra flutningafyrirtækja árin 1983 og 1984:

a) Eimskipafélags Íslands,

b) Hafskips hf.,

c) Skipadeildar SÍS,

d) annarra?