14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5205 í B-deild Alþingistíðinda. (4493)

409. mál, útflutningur niðurgreiddra landbúnaðarafurða

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það sem hv. 5. landsk. þm. telur hér svo mjög bera á milli er það hvers konar tilhögun hafi verið á þessum útboðum. Það kom fram í fyrra svari mínu, að flutningsgjöld hafa lækkað mjög frá árinu 1983–1984 vegna þess háttar, sem þá var upp tekinn, að leita eftir tilboðum í flutningana. En hvort um formleg útboð er að ræða eða óformleg, það skal ég ekki segja hversu miklu máli skiptir. En hér er yfirleitt ekki um að ræða mikið magn í einu og verður að sæta þeim ferðum sem bjóðast á hverri leið og það dregur nokkuð úr möguleikunum til þess að bjóða út fyrir fram allt í miklu magni. En hvað hv. þm. telur sig geta lesið út úr þessum tölum skal ég ekkert um segja. Það kemur fram að hjá Osta- og smjörsölunni er það Eimskipafélag Íslands sem er á árinu 1984 langstærsti flutningaaðilinn og það er einnig annar stærsti flutningaaðilinn hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga, þar sem skipadeild SÍS er á því ári með rétt rösklega helming en aðrir aðilar eru með hinn hlutann.