14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5205 í B-deild Alþingistíðinda. (4494)

409. mál, útflutningur niðurgreiddra landbúnaðarafurða

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég vil bara leggja áherslu á það, sem er kjarni þessa máls, að veldi Sambands ísl. samvinnufélaga í þessu þjóðfélagi er slíkt og völd þess ná svo víða og hagsmunir þess svo ríkir og kerfið þannig búið að það skiptir Samband ísl. samvinnufélaga, sem er að flytja út landbúnaðarvörur, nákvæmlega engu máli hvað er borgað í farmgjöld, eða yfirleitt hvað fæst fyrir vörurnar þegar þær eru seldar á erlendum markaði, vegna þess að Samband ísl. samvinnufélaga hefur allt sitt gulltryggt á hreinu. Og það er auðvitað það sem er megingalli þessa fáránlega kerfis sem hér er við lýði.

En eftir stendur sem áður, hvort sem það hefur verið Samband ísl. samvinnufélaga eða einhverjir aðrir aðilar sem hæstv. landbrh. leitaði til með svar við sinni fyrri fsp., eftir stendur að ráðh. voru gefnar rangar upplýsingar sem hann síðan flutti í góðri trú hér á Alþingi.