14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5207 í B-deild Alþingistíðinda. (4497)

436. mál, framhald samningaviðræðna við Alusuisse

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var nokkuð fróðlegt að heyra svar hæstv. iðnrh. við fsp. minni. Þar kom fram að það sem haldið hefur verið fram af hans hálfu í fjölmiðlum og reitt fram við Alþingi í tengslum við undirbúning frv. til laga um lántökur styðst nánast við ekki neitt, nema einhverjar munnlegar viðræður aðila. Það samkomulag sem gert var ráð fyrir að ljúka skyldi eigi síðar en 1. júní 1985, um breytt skattkerfi hjá álverinu, er ekki einu sinni komið á blað í drögum. Sérfræðingar eiga enn eftir fund, og samningaviðræður aðila um þetta hafa enn eigi hafist, samningaviðræður sem ljúka átti skv. bindandi samkomulagi aðila um komandi mánaðamót.

Þetta eru merkilegar upplýsingar. Og varðandi stækkun álversins, sem ráðh. gefur í skyn og Morgunblaðið hefur eftir honum orðrétt 20. apríl s. 1., að séu komnar vel á leið og líkur á að takist fyrir lok þessa árs, viðræður um þá stækkun hafa enn eigi hafist milli aðila. Þetta eru tíðindi, og samt ætlar ríkisstj. að knýja fram heimild í sambandi við lánsfjárlög til þess að ætla Landsvirkjun sérstaka fjárveitingu upp á 82 millj. kr., miðað við að slíkir samningar takist fyrir mitt þetta ár.

Ríkisstj. hefur ekki einu sinni skv. upplýsingum ráðh. mótað þann ramma af sinni hálfu, sem gert er ráð fyrir í umræddu bréfi, þ. e. ekkert bréf enn verið afhent Alusuisse um kjör eða samningsskilmála af hálfu íslenska ríkisins varðandi afhendingu raforku frá Landsvirkjun til þeirrar stækkunar. Hvernig í ósköpunum er hægt að taka mark á orðum stjórnvalda, hér hæstv. ráðh., sem lætur liggja að því að samkomulag sé á næsta leiti um þessi atriði, þangað til nú í sínu svari, þegar hann upplýsir okkur hér um það að raunverulegar samningaviðræður hafi ekki hafist um neitt þessara atriða? Sérfræðingar að bera sig saman um skattkerfi og engar samningaviðræður formlegar hafnar vegna stækkunar álversins.

Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því frekar hvort hann hafi gert sér grein fyrir hvaða skilyrði verði sett, eða hvað hann muni leggja til sem skilyrði í sambandi við stækkun bræðslunnar um 50% í sambandi við raforkuverð, og upplýsa okkur hér um það hvaða raforkuverð það sé sem hann hefur þá í huga að boðið verði til þessarar stækkunar. Hér er ekki um neina smáhluti að ræða, ekki um einhverja aura í þessu efni, heldur um það að binda 600 gígawattstundir í ársframleiðslu á raforku í þessari fyrirhuguðu stækkun, sem látið var að liggja til skamms tíma að samningar mundu takast um við japanskt rennilásafjölskyldufyrirtæki fyrir milt þetta ár, og viðræður ekki hafnar.

Ég vænti að hæstv. ráðh. standi hér eitthvað betur fyrir máli sínu, þó að hann hafi raunar svarað hér efnislega minni fsp. og nánast ekkert gerst í málinu. Ég spurði efnislega um hvert stefndi í sambandi við skattkerfið og endurskoðun á því. Kannske gæti ráðh. upplýst okkur eitthvað um það efnislega, hvers konar endurskoðun á skattkerfi gagnvart ÍSAL sé á döfinni, þó ekki væri nema í umræddum sérfræðingaviðræðum.

Og varðandi rafskautaverksmiðju sagði ráðh. að þeim viðræðum væri ekki lokið. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Eru þær viðræður hafnar? Er sú forathugun hafin? Það væri einnig rétt að það lægi fyrir. Og hvenær er þá gert ráð fyrir að henni ljúki?