14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5215 í B-deild Alþingistíðinda. (4505)

442. mál, námaleyfi Kísiliðjunnar

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Einarsson mun hafa farið norður að Mývatni skömmu eftir utandagskrárumræðurnar hér í vetur og mætti þar á fundi með starfsmönnum Kísiliðjunnar m. a. Hann kvað hafa sagt sjálfur að hann hefði farið af þeim fundi margs fróðari enda bar framsaga hans og framkoma öll því glöggt vitni hér miðað við fúkyrðin frá því í vetur. Það sem hér er um deilt, eins og frsm. gat um, eru lög og lagaskýringar. Fyrir liggur títt tilvitnað álit prófessors Gauks Jörundssonar sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði að væri opinbert plagg. Ég vissi það nú reyndar ekki þó að ég hefði fengið að glugga í það. Lagaskýringar liggja fyrir frá öðrum aðila, Hirti Torfasyni lögmanni, þar sem hann kemst ekki að sömu niðurstöðu og prófessor Gaukur og að yngri lög um Laxá og Mývatn, yngri en lög um Kísiliðjuna, þar sem ríkisstj. er jú skylt að sjá verksmiðjunni fyrir námaleyfi, taki ekki af allan vafa um það og að sjálfsagt þurfi að leita til dómstóla með það yfirleitt. Hitt bendir hann á líka að hefði það verið ætlan löggjafans að vernda sérstaklega botninn, þá hefði það sjálfsagt verið tekið fram, því það er tekið sérstaklega fram í lögunum um verndun Laxár og Mývatns að ekki skuli breyta yfirborði vatnsins, ekki megi hækka eða lækka yfirborðið, og hefðu menn haft botninn í huga þá hefðu þeir sjálfsagt tekið það fram líka.

Náttúruverndarráð hélt fjölmennan almennan fund við Mývatn síðasta vetrardag. Þar lýsti einn náttúruverndarráðsmaður yfir því að ná mætti sáttum í málinu með því að Kísiliðjan héldi sig við námatöku innan ákveðinnar línu, væntanlega austan Dauðaness sem hæstv. menntmrh. gat hér um áðan. Þetta gekkst Kísiliðjan inn á nú fyrir helgina og samþykkti þessa málsmeðferð, að hún skyldi halda sig innan við þessa línu. En þá komu bara fram nýjar kröfur, þetta væri ekki nóg, það skyldi eingöngu lagt í dóm Náttúruverndarráðs hvort þær rannsóknir sem gerðar yrðu væru fullnægjandi eður ei. (Gripið fram í: Hvaðan hefur hv. þm. þessar upplýsingar?) Það er ekkert leyndarmál, þetta er frá fundum hjá Náttúruverndarráði. Ég man ekki betur en hér væri vitnað í fundi af Náttúruverndarráði, trúnaðarmál, áður en það kom í blöðunum í umræðunni í vetur. Það var vitnað í framsögur frá í vetur sem ég ætla að leiða hjá mér. Það var eitt sem ég vildi þó segja að sjálfdæmi sem slíkt sem Náttúruverndarráð fer fram á í þessu gæti reynst byggðinni í Mývatnssveit nokkuð dýrt.