14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5216 í B-deild Alþingistíðinda. (4506)

442. mál, námaleyfi Kísiliðjunnar

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það er mjög áberandi hið auða sæti iðnrh. og þátttökuleysi hans í þessari umr. Ég veit ekki hvað það boðar, hvort það boðar að hann hyggi kannske á sættir og vilji þess vegna ekki stugga við málinu. Hins vegar finnst mér ekki góður fyrirboði að orðalag sem vitnað er til hér úr bréfi Hjartar lögmanns Torfasonar hljómar eins og málsvörn. Mér heyrist að hér sé lögmaður Kísiliðjunnar að útbúa málsvarnargagn fyrir iðnrh. Það skyldi þó ekki vera að þetta mál yrði ekki útkljáð fyrr en fyrir dómstólum?