14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5216 í B-deild Alþingistíðinda. (4508)

442. mál, námaleyfi Kísiliðjunnar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil nú vekja athygli á því, sem auðvitað er alkunnugt þingreyndum mönnum hér, að hæstv. iðnrh. hefur verið þekktur fyrir það að komast býsna vel af með svo sem eins og tvær mínútur þegar mikið liggur við og mig undrar nokkuð þögn hans, ég verð að segja það. Ég óttast að illa sé komið fyrir honum ef það vopna hans sem mér skilst að hafi alltaf reynst honum einna best, tungan, hefur nú svikið hann og má hann hana hvergi brúka. Má með sanni segja að hann nái ekki þessu vopni sínu ef hann ekki getur komið hér og gefið nokkuð svör þó hann hafi ekki til þess nema tvær mínútur.

Vegna þeirra orða sem hv. þm. Björn Dagbjartsson lét hér falla og reyndar oftar hefur komið fram í þessu máli vil ég segja það sem skoðun mína að ég held að það sé heppilegt að halda aðgreindri umræðu um annars vegar efnisatriði þessa máls, sem deilt er um, viðkvæm mál eins og rekstrarstöðu þessa fyrirtækis og afkomu fólksins sem þar vinnur, og hins vegar lagalega stöðu málsins, réttarstöðu laga nr. 36 frá 1974 og hvernig þau standa gagnvart öðrum lögum. Ég held að það sé máli þessu til framdráttar og góðs að menn reyni að greina efnisatriði þannig niður. Ég lít ekki síst á þetta mál alvarlegum augum með tilliti til þess að þetta er prófmál fyrir náttúruverndarlög í landinu, fyrir þessi sérstöku lög um verndun Laxár og Mývatns, og einnig að nokkru leyti fyrir hin almennu náttúruverndarlög, eins og ég sagði hér áðan, og ég hlýt að harma það og ég tel það óviðunandi ef gengið verður yfir náttúruverndarlögin með þessum hætti og ekki næst að rétta stöðu þeirra gagnvart þessari leyfisveitingu hæstv. iðnrh.