14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5216 í B-deild Alþingistíðinda. (4509)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 771 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh.: Hvenær er að vænta stjfrv. um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara? Tilefni þessarar fsp. er það að s. l. haust flutti ég ásamt tveimur öðrum hv. þm., þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Kristófer Má Kristinssyni, frv. til laga um lögverndun á starfsheiti kennara. Að því máli var unnið í samráði við stjórn Bandalags kennarafélaga sem hafði í erindi til þingflokka í september s. l. sérstaklega óskað eftir því að þingið tæki á þessu máli, raunar ásamt fleiri baráttumálum þessa nýstofnaða sambands.

Um svipað leyti og frv. okkar þriggja um þetta mál var lagt fram í hv. Nd. upplýsti hæstv. menntmrh. í Sþ., nánar tiltekið þann 23. október s. l., að á vegum menntmrn. væri hafinn undirbúningur að frv. til laga um sama efni og sérstök nefnd, sem í ættu m. a. sæti fulltrúar frá Bandalagi kennarafélaga, væri þá að hefja störf við samningu á slíku frv. Orðrétt sagði hæstv. ráðh. nefndan októberdag:

„Vænti ég þess að það líði ekki mjög margir dagar áður en slíkt frv. verður tilbúið.“

Síðan hefur þetta mál oft borið á góma í umræðum hér í þinginu, m. a. í tengslum við kjarabaráttu kennara á liðnum vetri. Hæstv. menntmrh. hefur ítrekað staðhæft að von væri á stjfrv. um þetta efni. Þann 26. nóvember mælti ég fyrir frv. um lögverndun á starfsheiti kennara í hv. Nd. Við það tækifæri sagði hæstv. menntmrh. m. a. orðrétt:

„Einungis til þess að auðvelda störf hæstv. menntmn., sem væntanlega fær þetta frv. til umfjöllunar, vil ég taka fram að innan tíðar er væntanlegt stjfrv. um þetta efni. Það mundi kannske auðvelda vinnuna að þessu máli að fjallað yrði um þessi mál samtímis.“

Í sömu ræðu sagði hæstv. ráðh. að störfum umræddrar nefndar rn., orðrétt: „sé um það bil að verða lokið.“ Miðað við þessar ítrekuðu staðhæfingar hæstv. ráðh. var full ástæða til að ætla að stjfrv. um þessi efni kæmi hér inn á borð hv. þm. fyrir síðustu jól. En árið leið án þess að þau fyrirheit rættust. Í febrúar og mars innti ég hæstv. ráðh. enn eftir því hvað liði boðuðu stjfrv. Þann 19. febrúar s. l. svaraði hæstv. menntmrh. fsp. minni með svofelldum hætti:

„Það sem um er verið að ræða er að í menntmrn. hefur verið unnið mjög mikið starf að þessum hagsmunamálum kennara sem annars vegar er málið um löggildingu starfsheitis og hins vegar um endurmat á störfum. Hér er um að ræða samstarfsnefndir beggja þeirra aðila sem hlut eiga að máli, annars vegar ríkisvaldsins og hins vegar kennaranna sjálfra. Og það sem verið er að gera er að vanda verkin. Það er unnið í mjög góðu samkomulagi og á málefnalegum grundvelli að þeirri lausn þessara mála sem viðunandi er. Ég vona að það takist. Starfslok eru nú mjög skammt undan í þessu.“

Þetta var m. a. það sem hæstv. ráðh. mælti hér 19. febrúar s. l. Nú er kominn 14. maí og enn bólar ekki á marglofuðu stjfrv. Fyrir hv. menntmn. liggur enn óafgreitt það þmfrv. sem ég gat um áðan. Ég spyr nú hæstv. menntmrh. enn einu sinni: Hvenær er von á að hæstv. ráðh. og ríkisstj. efni fyrirheit sín við þingið og kennara um að slíkt frv. verði fram lagt hér á Alþingi?