14.05.1985
Sameinað þing: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5219 í B-deild Alþingistíðinda. (4511)

453. mál, lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum kennara

Kristín H. Tryggvadóttir:

Hæstv. forseti. Það er mjög alvarlegt fyrir framvindu skólamála í landinu að ekki skuli enn hafa verið staðið við þau fyrirheit af hálfu menntmrh. að leggja fram frv. um lögverndun kennarastarfsins. Lögverndun heitisins eins bjargar ekki skólastarfinu og kemur ekki börnum til góða. Það eru starfsréttindin, starfið, kennsla í grunnskóla svo og framhaldsskóla, sem þarf að hlúa að og vernda. Lögin frá 1978 eru galopin eins og komið hefur í ljós þar sem er hægt að setja hvern sem er.

Sem nm. í þeirri nefnd sem menntmrh. skipaði í okt. s. l. til að vinna að gerð lagafrv. um lögverndun starfsheitisins „grunnskólakennari“ læt ég í ljós hryggð mína yfir því að sú mikla vinna, sem lögð var fram í nefndinni í vetur, skuli hafa verið stöðvuð þann 22. febr. s. l. þegar aðeins var eftir að ganga frá einni grein sem varðaði réttindanám fyrir réttindalaust fólk í kennslustörfum, sem gert var ráð fyrir að væri inni í lagafrv. þótt nóg sé af kennurum, þ. e. réttindafólki, í landinu.

Til hvers er verið að fara fram á það að menn búi yfir kunnáttu til ákveðinna starfa? Af hverju fá ekki allir að annast lögfræðistörf, læknisstörf eða ökukennslu? Ég er viss um að ýmsir treysta sér til slíks án tilskilinnar þekkingar eða menntunar. En að fara með 30 barna hóp, kenna, getur hver sem er. Það þarf ekki að tryggja neina faglega vinnu þar. Til hvers er Kennaraháskóli Íslands? Skiptir kennaramenntun nokkru máli?

Samt aukast stöðugt kröfur til kennara og skóla. Það gleymist bara að huga að því þegar verið er að tala um að skólinn eigi nú að gera þetta eða taka að sér hitt hlutverkið, að þar er kannske enginn kennari. En vita foreldrar það? Er þeim sama?

Hæstv. ráðh. sagði áðan að skólastarfi yrði stefnt í hættu af því að það skorti kennara. Það er líka sagt að ekki sé meiri hl. á þingi fyrir samþykkt frv. um lögverndun kennarastarfsins. Nei, það væri kannske rétt að lögvernda öll önnur störf, þá geta þeir sem hvergi komast að kennt börnum. Hvernig erum við að búa að framtíðinni? Getur það verið að þið, hv. þm., treystið hverjum sem er án nokkurrar faglegrar þekkingar til að taka að sér fræðslu og uppeldi barna ykkar eða barnabarna eða getur það ekki hent ykkar börn, aðeins börn hinna? Berum við ekki ábyrgð á framtíð allra barna í landinu?